Skjöl, sem lögregla svipti nýverið hulunni af, varpa ljósi á ástæður þess að Ryan setti á svið ótrúlega atburðarás og endaði í Georgíu í Austur-Evrópu.
Það var að kvöldi 12. ágúst í fyrra að Ryan tilkynnti eiginkonu sinni, Emily, að hann ætlaði að fara á kajak út á vatnið Green Lake í Wisconsin. Hann sagðist elska hana og kæmi aftur síðar um kvöldið. En þegar Emily vaknaði morguninn eftir var Ryan hvergi sjáanlegur og brá hún á það ráð að senda honum SMS. „Hvar ertu????” og „Elskan?”
Skilaboðunum var ekki svarað en það sem Emily vissi ekki var að Ryan hafði hvolft kajaknum sjálfviljugur og komið sér í land á uppblásnum gúmmíbát. Við vatnið beið hans svo rafmagnshjól sem hann notaði til að hjóla 110 kílómetra leið til borgarinnar Madison.
Um það leyti sem Emily vaknaði og sendi eiginmanni sínum SMS var Ryan að líkindum kominn til Madison og við það að stíga upp í rútu sem ók honum yfir til Toronto. Þaðan flaug hann til Parísar og svo áfram til Tblisi, höfuðborgar Georgíu í Kákasus. Þar hafði hann komist í kynni við úkraínska konu í gegnum netið og ætlaði hann sér að hefja nýtt líf með henni.
Sjá einnig: Yfirgaf konu og börn og sviðsetti eigin dauða – Dómari sýndi honum enga miskunn
Leit að líki Ryans á vatninu bar eðlilega engan árangur en það var ekki fyrr en í október í fyrra að lögregla komst á sporið í málinu. Það gerðist þegar tölvan hans var tekin til rannsóknar en þá kom í ljós að hann hafði átt í samskiptum við ónefnda konu í fjarlægu landi, opnað nýjan bankareikning og aflað sér upplýsinga um hvernig best væri að flytja fé úr landi. Þá hafði hann tilkynnt um týnt vegabréf og fengið nýtt afhent skömmu áður en hann hvarf. Gamla vegabréfið hans var heima.
Í skjölum lögreglu kemur fram að Ryan hafi lýst nokkrum ástæðum fyri því sem hann gerði.
Hann sagðist hafa mótað þessa áætlun vegna þess að honum leið eins og misheppnaðri manneskju. Þannig hefði hann safnað um 75 þúsund dollara kreditkortaskuld og 130 þúsund dollara skuld vegna reksturs á fyrirtæki sínu. Hann sagðist ekki hafa átt gott samband við eiginkonu sína og börn hans hefðu ekkert viljað með hann hafa lengur.
„Ég upplifði vanmáttarkennd yfir því að geta ekki rætt þessa hluti við konuna mína og vonleysi yfir þeirri stöðu sem ég var í. Svo kynnist maður einstakling í öðrum heimshluta sem að einhverju leyti hefur svipaða sögu að segja og við endum á að verða vinir – og svo þróast vináttan í eitthvað meira, þó það hafi aldrei verið ætlunin. En svo opnast dyr fyrir mann til að reyna að láta hlutina ganga upp,“ sagði hann í yfirheyrslu hjá lögreglu um ástæður þess að hann sviðsetti eigin dauða og fór til Georgíu.
Ryan er í Bandaríkjunum en sem fyrr segir var hann dæmdur í 89 daga fangelsi, en dómurinn jafngildir fjölda þeirra daga sem honum tókst að villa um fyrir yfirvöldum.
Í yfirheyrslu hjá lögreglu, eftir að hann kom sjálfviljugur heim til Bandaríkjanna eftir að lögregla náði tali af honum í nóvember í fyrra, sagðist hann helst vilja snúa aftur til vinkonu sinnar í Georgíu. Meðal annars á þeim forsendum að það væri svo miklu ódýrara að lifa þar en í Bandaríkjunum.
Eiginkona Ryans, sem hann hafði verið giftur í 22 ár, skildi við hann í mars síðastliðnum.