Jair Bolsonaro, fyrrum forseti Brasilíu, hefur verið sakfelldur fyrir þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi og fyrir tilraun til valdaráns.
Bolsonaro ásamt bandamönnum voru ákærðir fyrir að hafa reynt að hnekkja niðurstöðu forsetakosninganna árið 2022 svo hann gæti haldið völdum, en hann tapaði kosningunum fyrir Luiz Inácio Lula da Silva.
Bolsonaro var kærður í fimm ákæruliðum þar með talið valdaránstilraun, þátttaka í skipulagðri brotastarfsemi, fyrir að hafa með ofbeldi reynt að afnema réttarríkið og fyrir eignaspjöll.
Fyrrum forsetinn hefur setið í stofufangelsi síðan í ágúst. Að sögn The Guardian á hann yfir höfði sér áratugalangt fangelsi. Að sögn ákæruvaldsins hafði Bolsonaro ásamt bandamönnum áætlað áhlaup á þinghúsið þar sem meðal annars átti að beita sprengjuefni, stríðsvopnum eða eitri til að ráða Lula da Silva af dögum sem og varaforsetann og hæstaréttardómarann Alexandre de Moraes. Moraes var meðal dómara sem kváðu upp dóminn í dag.
Einn dómari á eftir að tilkynna niðurstöðu sína en nú þegar hafa þrír Hæstaréttardómarar, eða einfaldur meirihluti, sakfellt Bolsonaro. Refsing verður ákvörðuð þegar allir dómarar hafa skilað áliti.
Málið hefur að sögn CNN valdið gífurlegri skautun meðal almennings í Brasilíu og undanfarið hafa stuðningsmenn fyrrum forsetans í þúsundatali mótmælt á götum úti. Bolsonaro sjálfur neitar sök og segir málið dæmi um pólitískar nornaveiðar. Vinur Bolsonaro og fyrrum kollegi, forseti Bandaríkjanna Donald Trump, hefur tekið undir með honum og meðal annars hefur Trump beitt Brasilíu refsiaðgerðum í formi tolla og annarra þvingunaraðgerða fyrir að vísa málinu gegn Bolsonaro ekki frá. Trump hefur til dæmis meinað Moraes að ferðast til Bandaríkjanna.