fbpx
Miðvikudagur 10.september 2025
Pressan

Segja spennu ríkja milli Trump og RFK og að forsetinn sé milli steins og sleggju

Pressan
Miðvikudaginn 10. september 2025 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er allt í góðu á milli Donald Trump Bandaríkjaforseta og heilbrigðisráðherra hans, Robert F. Kennedy yngri. Því halda þeir fram að minnsta kosti. Því trúa þó ekki allir. Að sögn The New York Times (NYT) ríkir spenna á milli forsetans og ráðherrans.

Spennuna má að einhverju rekja til COVID-bóluefnanna. Kennedy hefur ekki farið leynt með tortryggni sína í garð bóluefna af hverju tagi en honum er sérstaklega í nöp við COVID-bóluefni. Þetta varð til þess að embætti forseta þurfti að senda ráðherranum skýr skilaboð – að skrúfa niður í gagnrýni sinni á bólusetningar. Þetta hefur NYT eftir tveimur heimildarmönnum sem voru upplýstir um skilaboðin.

Trump mun óttast að gagnrýni á bóluefnin muni gera lítið úr aðgerðum hans þegar faraldurinn skaut fyrst upp kollinum, verkefni sem kallaðist Warp Speed og miðaði að því að koma bóluefni til Bandaríkjamanna eins fljótt og auðið væri.

Kennedy ákvað greinilega að taka þessi skilaboð forsetans til sín. Hann sagði i þinghúsinu í síðustu viku að Trump ætti skilið Nóbels-verðlaunin virtu fyrir Warp Speed-verkefnið og í gær mærði hann forsetann hressilega.

„Ég er svo þakklátur að starfa fyrir forseta sem er tilbúinn að berja niður múra til að stöðva þessa þróun og lækna börnin okkar,“ sagði Kennedy um aðgerðaáætlun til að berjast gegn langvinnum sjúkdómum barna.

Margar góðar hugmyndir en líka margar slæmar

Talsmenn Kennedy og Trump þvertaka fyrir að það sé spenna í samskiptum ráðherrans og forsetans en NYT lætur að því liggja að það sé ekki alls kostar rétt.

Trump var nýlega spurður út í bóluefni í tengslum við útspil Flórída sem ætlar að leggja af barnabólusetningar. Í því samhengi sagði forsetinn að bólusetningar beri árangur og að um það verði ekki deilt. Forsetinn hefur þó einnig deilt myndbandi á samfélagsmiðlum þar sem bóluefni er tengt við einhverfu.

Á sunnudaginn sagði forsetinn að Kennedy færi óvenjulegar leiðir, stundum aðeins of óvenjulegar.

„Hann er bara öðruvísi maður. Hann fær margar góðar hugmyndir en líka margar slæmar.“

NYT bendir á að samkvæmt könnunum er meirihluti Bandaríkjamanna hlynntur barnabólusetningum, en tortryggni er meiri í garð COVID-bóluefna. Forsetinn hefur verið varaður við því að túlka ekki andstöðu við COVID-bóluefnið sem andstöðu við allt bóluefni. Það gæti orðið honum að falli.

Stytti tauminn

Politico segir að forsetinn hafi í upphafi gefið Kennedy frelsið til að nálgast heilbrigðismál með sínum eigin hætti en nú hafi hann ráðherrann í styttri taumi. Þetta megi sjá skýrt í þeirri skýrslu sem Kennedy kynnti í þingheimi í gær, aðgerðaáætlun sem kallast „Gerum börnin okkar heilbrigð aftur“. Þar er lítið fjallað um bóluefni, skordýraeitur og matvælaframleiðendur, en Kennedy hefur í gegnum tíðina komið því skýrt á framfæri að þetta séu orsakavaldar bágrar heilsu bandarískra barna. Í raun er lítið um beinar aðgerðir í skýrslunni heldur kallar ráðherrann eftir frekari rannsóknum.

Politico tekur fram að þó að Kennedy sé umdeildur þá þori Trump ekki að losa sig við hann enda fylgi honum tryggur hópur kjósenda sem forsetinn vill ekki missa frá sér. En forsetinn þurfi að geðjast fleirum en bara stuðningshóp Kennedy.

Til dæmis hagsmunaaðilum landbúnaðarins  sem undanfarið hafi beitt sér af hörku gegn árásum Kennedy á eitur sem notað er til að verja uppskerur. Þetta eru efni á borð við Roundup sem er notað til að eyða illgresi og svo skordýraeitur af ýmsu tagi. Kennedy hefur líkt framleiðanda Roundup við illmennið Lex Luthor úr ævintýrunum um Ofurmennið.

„Ég sé þetta fyrirtæki sem óvin allra góðra bandarískra gilda“

Að sögn Politicu hafa þessir hagaðilar nú verið fullvissaðir af forsetanum um að Kennedy láti þessi efni í friði, en á sama tíma muni það valda mörgum stuðningsmönnum Kennedy sárum vonbriðgum.

Gæti leitt forsetann út á hálan ís

UnHerd segir að lyfjafyrirtæki sjái sér nú leik á borði að auka á spennuna milli forsetans og ráðherrans. Með því að minna Trump á að hann sjálfur á fyrra kjörtímabili sínu hóf vegferð COVID-bólusetninga. Það skjóti því skökku við að hafa ráðherra sem kalli bóluefnið það „banvænasta sem búið hefur verið til“.

Eins með því að benda á að það megi ekki slá saman COVID-bóluefninu við önnur bóluefni enda séu tveir þriðju kjósenda Trump á því að bóluefni bjargi mannslífum.

CNN ritaði um helgina að nálgun Kennedy á lýðheilsu og bóluefni gæti leitt Trump út á hálan ís. Í síðustu viku hafi fjöldi heilbrigðissamtaka sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem kallað var eftir afsögn Kennedy.

„Við höfum þungar áhyggjur af því að Bandaríkjamenn muni þjást og deyja af óþörfu út af stefnu hans.“

Kannanir sýni að meirihluti Bandaríkjamanna er hlynntur almennum bólusetningum og treysti læknum frekar en stjórnmálamönnum til að ráðleggja þeim um heilbrigðismál.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Matarboð dauðans: Sveppakonan þarf að sitja inni næstu 33 árin

Matarboð dauðans: Sveppakonan þarf að sitja inni næstu 33 árin
Pressan
Fyrir 2 dögum

Vendingar í máli föður sem flúði út í óbyggðir með börnin sín – Skotinn til bana af lögreglu

Vendingar í máli föður sem flúði út í óbyggðir með börnin sín – Skotinn til bana af lögreglu
Pressan
Fyrir 5 dögum

Harmleikurinn í Lissabon: Þjóðverji sem var talinn hafa dáið fannst á lífi

Harmleikurinn í Lissabon: Þjóðverji sem var talinn hafa dáið fannst á lífi
Pressan
Fyrir 5 dögum

Tóku eftir óvenjulegu athæfi lífvarða einræðisherrans eftir að hann yfirgaf herbergið

Tóku eftir óvenjulegu athæfi lífvarða einræðisherrans eftir að hann yfirgaf herbergið
Pressan
Fyrir 1 viku

Saksóknarar fagna stóráfanga í máli Gilgo Beach morðingjans – DNA-sönnunargögn dæmd gild

Saksóknarar fagna stóráfanga í máli Gilgo Beach morðingjans – DNA-sönnunargögn dæmd gild
Pressan
Fyrir 1 viku

Giuliani: „Versti sársauki sem ég hef á ævi minni fundið“

Giuliani: „Versti sársauki sem ég hef á ævi minni fundið“