Clare hefur nú blásið til söfnunar þar sem hún vonast til að safna 200 þúsund dollurum á sjö dögum. Markmiðið er að djúpfrysta lík hans í von um að hægt verði að endurlífga hann þegar tækninni fleytir fram.
Í fréttum ástralskra fjölmiðla kemur fram að Clare hefði greint frá andláti sonar síns, Atreyu, í gær eftir „margra mánaða linnulaust einelti“ eins og hún orðaði það.
Í færslu á Instagram-síðu sinni sagði Clare að hún og sonur hennar hafði rætt mikið um lífið eftir dauðann.
„Ég sagði honum aðeins frá tækninni í kringum djúpfrystingu og hann sagði mér að hann vildi prófa það. Í gegnum árin höfum við rætt að þetta væri það sem við myndum vilja gera saman. Hann á skilið annað tækifæri til að lifa lífinu sem hann vildi,“ sagði hún en til að þetta geti orðið að veruleika þarf að djúpfrysta lík hans sem allra, allra fyrst.
Í frétt New York Post kemur fram að fyrsta fyrirtækið sem sérhæfir sig í djúpfrystingu af þessu tagi, Southern Cryonics, hafi opnað í Holbrook í fyrra. Fyrsti viðskiptavinurinn, ef svo má segja, var karlmaður á níræðisaldri sem lést á sjúkrahúsi í Sydney. Lét hann djúpfrysta sig í þeirri von að verða endurlífgaður seinna meir.
Clare segir að sonur hennar hafi verið lagður í linnulaust einelti eftir að hann byrjaði í nýjum skóla þann 7. febrúar síðastliðinn, en fram að því hafði hann hlotið heimakennslu. „Hann byrjaði að loka sig af, vildi ekki tala við mig um það sem hann var að ganga í gegnum en ég barðist samt fyrir hann á hverjum degi,“ segir hún.
Hún segist hafa barist fyrir því að þeim nemendum sem lögðu hann í einelti yrði vísað úr skólanum en talað fyrir daufum eyrum skólastjórnenda. „Hann var bara 13 ára og átti skilið betri framtíð. Ef skólinn og stjórnvöld hefðu brugðist við þegar ég bað um það gæti hann mögulega verið á lífi í dag.“
—
Í þessari frétt er fjallað um sjálfsvíg. Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.