fbpx
Miðvikudagur 28.maí 2025
Pressan

Fóstrinu haldið lifandi þó móðirin sé heiladauð – „Þetta er algjör pynting fyrir mig“

Pressan
Mánudaginn 26. maí 2025 22:00

Adriana Smith með syni sínum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin þrítuga Adriana Smith mun aldrei vakna aftur eftir að hafa fengið blóðtappa í heila. Öndunarvél heldur henni lifandi og útlit er fyrir að vélinni verði haldið gangandi þar til í ágúst næstkomandi.

Ástæðan er sú að Adriana gengur með barni og er komin um 23 vikur á leið.

Ströng þungunarrofslöggjöf er í gildi á heimaslóðum Adriönu í Georgíu í Bandaríkjunum. Hún dvelur á Northside-sjúkrahúsinu í Atlanta og segja læknar að Adriönu verði haldið á lífi þar til fóstrið verður orðið nógu þroskað til að hægt sé að taka það með keisaraskurði. Þykir líklegt að það verði í ágúst.

Aðstandendur Adriönu eru ekki sáttir við þetta og vilja fá að ráða því sjálfir hvenær Adriana deyr.

Þrjú ár eru síðan ný lög tóku gildi í ríkinu sem banna þungunarrof ef viðkomandi er gengin sex vikur. Lögin ganga undir nafninu „hjartsláttarlög“ en eins og nafnið gefur til kynna kveður það á um að þungunarrof er bannað um leið og hjartsláttur finnst.

Adriönu hefur verið haldið á lífi í öndunarvél síðan í febrúar síðastliðnum. Hún leitaði til lækna vegna mikilla höfuðverkja en var send heim með verkjalyf. Daginn eftir vaknaði sambýlismaður hennar einn morguninn og sá að Adriana átti í erfiðleikum með andardrátt. Hann hringdi í snatri eftir sjúkrabíl og á sjúkrahúsinu kom í ljós að hún var með blóðtappa í heila.

Læknum tókst ekki að koma í veg fyrir að drep komst í mikilvægar heilastöðvar og er Adriana heiladauð.

Sem fyrr segir er hún komin um 23 vikur á leið og hafa rannsóknir á fóstrinu sýnt að það er með vatnshöfuð og alls óvíst hvernig líf þess verður nái það að lifa.

Aðstandendur Adriönu eru nú í baráttu við heilbrigðisyfirvöld í Georgíu um að fá að ráða því hvenær hún deyr. Móðir hennar segir við bandaríska fjölmiðla að hún sé ekki búin að gera upp við sig hvort hún vilji að slökkt verði á öndunarvélinni en hún er ósátt við að sjúkrahúsið hafi tekið þessi völd af fjölskyldunni.

„Þetta er algjör pynting fyrir mig. Ég sé dóttur mína anda með hjálp öndunarvélarinnar en hún er ekki þarna,“ segir hún við 11Alive-sjónvarpsstöðina. Hún segir að fjölskyldan hafi ákveðið að gefa drengnum sem Adriana gengur með nafnið Chance. Bendir hún á að óvíst sé hvernig líf hans verður nái hann að þrauka næstu vikurnar.

„Hann gæti orðið blindur, það er möguleiki á að hann geti ekki gengið og það eru líka líkur á að hann muni ekki lifa af eftir að hann fæðist,” segir hún.

Steven Ralston, yfirmaður fósturlækningadeildar við George Washington-háskóla, segir við fjölmiðla að líkurnar á að heilbrigt barn fæðist í lok þessa ferlis séu mjög, mjög litlar. Líkami Adriönu muni sennilega gefa sig áður en áður en fóstrið verður nógu þroskað til að hægt sé að taka það með keisaraskurði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Mikil aukning á tilfellum ristilkrabbameins hjá ungu fólki

Mikil aukning á tilfellum ristilkrabbameins hjá ungu fólki
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þessu mæla læknar með í stað 10.000 skrefa á dag

Þessu mæla læknar með í stað 10.000 skrefa á dag
Pressan
Fyrir 4 dögum

Trump hellti sér yfir forseta Suður-Afríku en sagði hann satt? – Meint sönnunargögn standast ekki skoðun

Trump hellti sér yfir forseta Suður-Afríku en sagði hann satt? – Meint sönnunargögn standast ekki skoðun
Pressan
Fyrir 4 dögum

Börnin eftirlitslaus meðan mæðurnar drukku á nálægum bar – Búkmyndavél lögreglu sýnir lygi mæðranna

Börnin eftirlitslaus meðan mæðurnar drukku á nálægum bar – Búkmyndavél lögreglu sýnir lygi mæðranna