„Hæ, ég held að einhver um borð í skemmtiferðaskipinu sé með sprengju,“ stóð í tölvupóstinum. Ferð þess var samstundis stöðvuð og bæði bandaríska og jamaíska strandgæslan voru settar í viðbragðsstöðu. Odditycentral skýrir frá þessu.
Fram kemur að leitað hafi verið í rúmlega 1.000 klefum í skipinu og að ferðinni hafi seinkað um margar klukkustundir. Allt krafðist þetta mikils mannafla og kostaði stórfé.
Aðgerðirnar leiddu í ljós að ekki var fótur fyrir þessari tilkynningu og að ungur maður stóð á bak við þetta.
Lögreglan rakti slóð tölvupóstsins fljótlega til Joshua Darrell Lowe II, frá Bailey í Michigan. Hann viðurkenndi að hafa sent tölvupóstinn í reiði yfir að unnusta hans og fjölskylda hennar hefðu farið í siglingu án hans og hefðu skilið hann eftir til að hugsa um gæludýrin þeirra.
Saksóknari sagði að ætlun hans hafi verið að skemma fríið fyrir þeim og hann hafi talið þetta einu leiðina sem var fær.
Lowe var dæmdur í átta mánaða fangelsi og þótti sleppa vel því allt að fimm ára fangelsi liggur við broti af þessu tagi.