Donald Trump Bandaríkjaforseti tekur því sjaldnast vel þegar blaðamenn reyna að sannreyna það sem hann segir eða væna hann um að halla réttu máli. Að þessu sinni kvartaði hann sáran undan blaðamanni ABC-fréttastofunnar sem neitaði að taka undir fullyrðingar forsetans um innflytjandann Kilmar Abrego Garcia sem fyrir mistök var vísað úr landi og sendur í fangelsi í El Salvador.
Viðtalið var í tilefni þess að Trump hefur nú lokið fyrstu 100 dögum sínum í embætti. Þar var farið um víðan völl en Trump hélt því þar fram að Garcia væri með húðflúr með merki glæpasamtakanna MS-13 á hnefanum.
„Það er samt umdeilt,“ sagði blaðamaðurinn Terry Morgan við forsetann, en því er haldið fram að einhver hafi átt við myndir af húðflúrum Garcia með myndvinnsluforriti og eins að húðflúrin hans hafi enga vísun til þekktra glæpagengja.
„Bíddu nú aðeins, bíddu nú aðeins,“ sagði Trump móðgaður. „Hann er með MS-13 húðflúrað á hnúana.“
Moran benti forsetanum á að í raun væri Garcia með myndrænt húðflúr sem sumir hafi túlkað sem vísun til MS-13. Það standi þó ekki berum störfum „MS-13“ á húðflúrinu.
Ruglinginn má væntanlega rekja til þess að fyrr í þessum mánuði deildi Trump mynd af hnefanum á Garcia þar sem má sjá fjögur húðflúr, lauf úr kannabisplöntu, broskall, kross og höfuðkúpu. Einhver hafði svo bætt við á myndina „MS-13“ með myndvinnsluforriti, væntanlega til að sýna hvernig myndirnar áttu í raun að vísa til glæpasamtakanna. Trump hefur þó tekið myndinni bókstaflega.
Sérfræðingar í glæpasamtökum hafa rætt við fjölmiðla og sagt að meðlimir í MS-13 fái sér gjarnan húðflúr með vísan til samtakanna. Þau húðflúr séu þó flest þannig að ýmist er húðflúrað bókstaflega MS-13 eða þá að meðlimir fá sér mynd af djöflahornum. Aðgerðarsinni sem hefur stafað með meðlimum glæpasamtaka í rúmlega tuttugu ár segist aldrei hafa séð nokkurn með eins húðflúr og Garcia.
„Bíddu nú við, Terry, Terry, Terry,“ sagði Trump sem vildi ekki viðurkenna að hann hefði misskilið myndina. Moran ítrekaði: „Hann var ekki með stafina M-S-1-3“
„En það stendur M-S-1-3 á myndinni,“ sagði Trump og Moran benti þá forsetanum á að stöfunum hafi verið bætt við í myndvinnsluforriti.
„Var búið að photoshoppa hana? Terry, þú mátt ekki gera svona. Þú ert hér að fá stærsta tækifæri lífs þíns. Þú ert að sjá um þetta viðtal. Ég valdi þig því – til að vera hreinskilinn – ég hafði aldrei heyrt á þig minnst. En það er í lagi. Ég valdi þig, en þú ert ekki að vera mjög kurteis. Hann var með MS-13 húðflúr.“
Moran sá þá að það þýddi ekkert að rífast við forsetann og stakk upp á að þeir yrðu sammála um að vera ósammála. Trump hélt nú ekki.
„Terry, Terry. Viltu að ég sýni þér myndina?“
Moran sagðist hafa séð myndina og ítrekaði að Garcia er bara með myndræn húðflúr sem sumir hafa túlkað sem vísun til glæpasamtaka. Hann sé þó ekki með nafn samtakanna húðflúrað á sig. Aftur reyndi Moran að skipta um umræðuefni, en Trump var ekki af baki dottinn.
„Nei, nei, Terry, Terry. Nei, nei, nei, nei. Hann var með MS-13 og það sést eins skýrt og hægt er, það þarf ekkert að túlka neitt. Þetta er ástæðan fyrir því að fólk er hætt að trúa fréttamiðlum því…“
Moran andvarpaði og benti Trump á að það hafa birst myndir af Garcia eftir að hann var sendur úr landi. Þar sést að það stendur ekki MS-13 á hnúanum hans.
„Terry!,“ kallaði Trump þá og Moran reyndi enn og aftur að beina máli sínu að stöðunni í Úkraínu.
„Hann er með MS-13 á hnúanum. Okey?,“ sagði Trump og hélt áfram: „Þú ert að gera ógagn. Hvers vegna segirðu ekki bara já hann er með það og heldur svo áfram“
„Það er umdeilt,“ sagði Moran þá eftur og beindi svo aftur málinu að Úkraínu.