
Næstum hundrað fyrirtæki í velferðarþjónustu í Svíþjóð, sem í orði kveðnu sinna þjónustu við fatlaða, hafa tengsl við glæpagengi og hafa verið nýtt til að fremja glæpi. Þetta hefur þær afleiðingar að opinbert fé er greitt fyrir umrædda þjónustu sem er síðan aldrei veitt.
Þetta kemur fram í fréttum sænska ríkissjónvarpsins, SVT.
Lögregla þar í landi greinir frá því að 166 fyrirtæki hafi verið tekin til rannsóknar og helmingur þeirra hafi reynst vera nýtt af stjórnendum til að fremja glæpi.
Mörg þessara fyrirtækja hafa tengsl við þekkt glæpagengi. Þetta mun vera algengara þegar kemur að nýjum fyrirtækjum á þessum markaði og þrátt fyrir að fjölda umsókna um að setja á stofn fyrirtæki af þessu tagi sé hafnað virðast slíkir aðilar hafa fengið samþykki.
Lögreglan segir umrædd fyrirtæki fyrst og fremst notuð til glæpa sem snúist um misnotkun á rétti hinna fötluðu til að fá þá velferðarþjónustu sem fyrirtækjunum er ætlað að sinna. Fyrirtækin rukka þá hið opinbera fyrir þjónustuna án þess að veita hana.
Lögreglan segir að þeir sem séu í forsvari fyrir þessi fyrirtæki út á við séu oft ekki hinir raunverulegu stjórnendur þeirra og þörf sé á hertu eftirliti með þessum fyrirtækjum og betri úrræðum til að stöðva þessi svik. Um leið þurfi þó að gæta að reisn hinna fötluðu notenda þjónustunnar.