
Bandaríska dómsmálaráðuneytið er að birta Epstein-skjölin svokölluðu sem beðið hefur verið eftir af töluverðri óþreyju. Skjölin hafa þó verið hressilega ritskoðuð og voru ekki öll birt á einu breytti líkt og reiknað var með þegar lög tóku gildi sem gerðu stjórnvöldum skylt að birta þau.
Um gífurlegt magn er að ræða og kennir þar margra grasa sem fjölmiðlar keppast við að greina frá. USA Today ákvað að kafa ofan í hlut Andrésar Mountbatten-Windsor, sem áður var þekktur sem Andrés prins. Hann og níðingurinn Jeffrey Epstein voru kunningjar og hefur Andrés verið sviptur titli sínum fyrir þau tengsl.
Greinir miðillinn frá því að meðal gagna í Epstein-skjölunum sé að finna tölvupósta sem gengu milli samstarfskonu Epsteins, Ghislaine Maxwell, og aðila sem notaði dulnefnið „ósýnilegi maðurinn“ og kvittaði undir skilaboð sín með stafnum A.
Ósýnilegi maðurinn skrifaði meðal annars í desember 2001 að hann væri staddur í Balmoral- sumarbústað konungsfjölskyldunnar. „Hvernig er LA? Hafið þið fundið handa mér nýja óviðeigandi vini? Látið mig vita hvenær þið komið hingað, ég er laus frá 25. ágúst fram til 2. september, og mig langar að fara eitthvert þar sem er heitt og sólríkt með skemmtilegu fólki áður en ég þarf að troða nefinu ofan í vinnuna allt haustið. Allar hugmyndir vel þegnar! Sjáumst, A.“
USA Today segir að vissulega sé ekki öruggt að Andrés sé ósýnilegi maðurinn en innihald skilaboðanna gefi sterklega til kynna að þar skrifi aðili sem hefur tengsl við konungsfjölskylduna.
Í öðrum skilaboðum skrifar aðili sem kallast Gx skilaboð: Ég gaf Andrési símanúmerið þitt. Gx sagði viðtakanda skilaboðanna að reikna með símtali frá karlmanni með mjög breskan hreim og bað viðkomandi að taka vel á móti Bretanum, en gæta að leynd.
Á öðrum stað í Epstein-skjölunum má finna skýrslu frá alríkislögreglunni þar sem ónefnd manneskja segist hafa orðið fyrir byrlun. Síðan hafi faðir hennar skutlað henni í partý hjá barnaníðingum. Þessi manneskja hélt því eins fram að hún hafði lent fyrir bíl sem Andrés Bretaprins ók.
„Það var ekki farið með mig á sjúkrahús en ég hlaut varanlega áverka á rifbeinum, mjöðmum og hægri fæti. Húddstyttan á bílnum brotnaði af í hönd minni við áreksturinn. Ég gróf hann svo nærri heimili mínu til að hægt væri að nota hana sem sönnunargagn.“