
Það var David sem hringdi í lögreglu snemma morguns þann 20. júní árið 1994. Hann hafði vaknað snemma til að bera út dagblaðið en þegar hann sneri til baka beið hans hryllingur.„Þau eru öll dáin,“ sagði hann við Neyðarlínuna, í miklu uppnámi.
Við upphaf rannsóknar taldi lögreglan líklegt að Robin hefði banað fjölskyldu sinni og svo tekið eigið líf, enda fannst morðvopnið nærri líki hans. Og á fjölskyldutölvunni fundust skilaboð sem virtust vera til David: Fyrirgefðu, þú ert sá eini sem átt skilið að verða eftir.
Fjórum dögum síðar tók fólk andköf þegar fréttir bárust af því að David hefði verið handtekinn og ákærður fyrir morðin.
David var sakfelldur eftir þriggja vikna aðalmeðferð í maí árið 1995. Honum varð svo mikið við að hann náfölnaði og leið út af. Verjandi hans greindi fjölmiðlum frá því að David væri frá sér af sorg, hann gæti ekki hætt að skjálfa. Hann sagði blaðamanni að skjólstæðingur hans væri góður maður og að líklega hefði réttlætið ekki náð fram að ganga. David hafði enga ástæðu til að vilja fjölskyldu sinni mein.
Við réttarhöldin hélt vörnin því fram að Robin hefði myrt fjölskyldu sína. Hjónaband hans og Margaretar stóð á brauðfótunum og eins voru sögusagnir í gangi um að Robin hefði misnotað dóttur sína, Laniet, og að hún ætlaði að koma upp um hann.
David var aðeins 22 ára þegar morðin áttu sér stað og neitaði alla tíð sök. Það var þó ekki fyrr en árið 2009 sem réttarkerfið ákvað að veita honum uppreist æru. Hann var sýknaður með öllu eftir að ný gögn komu fram í málinu. Þessi gögn voru meðal annars:
Málið gegn David var endurupptekið í mars árið 2009 og stóð aðalmeðferð yfir í 12 vikur þar sem rúmlega 200 vitni gáfu skýrslu og þúsundir blaðsíðna af gögnum voru lagðar fram. Þar fékk kviðdómur að heyra nokkuð sem ekki kom fram í málinu árið 1995. Robin var mjög þunglyndur fyrir morðin og ekki í góðu jafnvægi. Hann hafði meðal annars ráðist á nemanda í skólanum þar sem hann starfaði sem skólastjóri og eins hafði hann birt ofbeldisfullar barnasögur í fréttablaði skólans, þar með talið sögu sem fjallaði um morð.
Kviðdómur tók sér fimm daga að komast að niðurstöðu. Þann 5. júní 2009 var David sýknaður. Hann hafði þá varið 13 árum í fangelsi. Hann taldi sig eiga rétt á skaðabótum fyrir þann tíma sem hann var að ósekju frelsissviptur en yfirvöld voru á öðru máli. Hann hafði kannski verið sýknaður en hann hafði ekki sannað sakleysi sitt svo það væri haft yfir skynsamlega vafa. Um þetta var tekist í þó nokkurn tíma og fór svo að David fékk um þriðjung þeirra bóta sem hann hafði krafist, eða rúmlega 80 milljónir króna. Hann vildi þó ekki sætta sig við þau málalok og áfrýjaði ákvörðuninni. Málið endaði fyrir Hæstarétti en áður en niðurstaða fékkst lést David úr krabbameini í júlí árið 2023. Hann var 51 árs gamall.
Það eru þó ekki allir sannfærðir um að David hafi verið saklaus. Ákæruvaldið taldi augljóst að David hafi myrt fjölskyldu sína. Mikilvæg sönnunargögn hafi verið útilokuð frá málinu, svo sem frásagnir fyrrum skólafélaga Davids sem hann hafði sagt skuggalega sögu – að hann gæti nauðgað einhverri konu og hylmt yfir það með því að nota blaðaburð sem fjarvistarsönnun. Eins voru vitni útilokuð frá aðalmeðferð sem höfðu séð David haga sér ógnandi með skotvopn. Bróðir Robin er enn sannfærður um að David sé morðinginn. Nýja Sjáland virðist klofið í afstöðu sinni til málsins og enn eru margir sem trúa því að Davis hafi réttilega verið sakfelldur á sínum tíma en með útsmognum hætti tekist að sannfæra rétta fólkið um annað.