Breska blaðið Mirror fjallar um þetta.
Stúlkan sem um ræðir hét Palome Nicole Arellano Escobedo og var búsett í Mexíkó. Hún lést á sjúkrahúsi þann 20. september, viku eftir að hafa gengist undir aðgerðina.
Faðir hennar, Carlos Arellano, segist fyrst hafa komist að því að dóttir hans hefði gengist undir aðgerðina þegar hann mætti í útför hennar. Komst hann þá að því að dóttir hans var með brjóstapúða og ör eftir aðgerðina.
„Á dánarvottorðinu stóð ranglega að „sjúkdómur“ væri dánarorsök sem virðist vera tilraun til að hylma yfir sannleikann í málinu,“ segir hann. Hann kveðst vera tortrygginn yfir því hve fljótt dánarvottorðið var gefið út.
„Þau afhentu okkur það strax, ég veit ekki hvernig þau gátu ákvarðað dánarorsök svona fljótt,“ segir hann en á vottorðinu stóð að Palome hefði látist úr heilabjúg af völdum öndunarfærasjúkdóms.
Carlos segist hafa lagt fram kæru vegna málsins og segir í frétt Mirror, sem vísar í umfjöllun mexíkóskra fjölmiðla, að saksóknaraembættið hefði staðfest að rannsókn væri hafin á málinu. „Ég krefst þess að ítarleg rannsókn fari fram á þessu,“ segir faðirinn, Carlos.