fbpx
Sunnudagur 14.september 2025
Pressan

Vísindamaður segir að villtir draumar Pútíns um eilíft líf séu ekki svo fjarstæðukenndir

Pressan
Sunnudaginn 14. september 2025 06:00

Xi Jinping og Vladimír Pútín ræddu um langlífi á dögunum. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það vakti athygli á dögunum þegar greint var frá því að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Xi Jinping, forseti Kína, hefðu rætt sín á milli hvernig líffæraígræðslur og aðrar framfarir í læknavísindum gætu gert mönnum kleift að lifa til 150 ára – og jafnvel að eilífu.

„Það er hægt að græða líffæri í fólk aftur og aftur og þeim mun lengur sem þú lifir, þeim mun yngri verður þú – og getur jafnvel náð ódauðleika,“ sagði Pútín.

„Sumir spá því að jafnvel á þessari öld muni fólk ná 150 ára aldri,“ sagði kínverski forsetinn.

Ekki endilega svo fjarstæðukennt

Þó að samtal þessara tveggja af valdamestu mönnum heims hafi minnt á eitthvað úr vísindaskáldsögu, leiðir umfjöllun Mail Online í ljós að þetta er ekki endilega svo fjarstæðukennt.

Miðillinn ræddi meðal annars við lettneskan vísindamann sem er búsettur í Kína og hefur rannsakað möguleikann á höfuðágræðslu. Hann segir að samtalið sem fréttir bárust af hafi verið viðeigandi miðað við þær rannsóknir sem nú séu í gangi.

„Ígræðsla á yngri líffærum er raunhæf leið til að lengja lífið,“ segir vísindamaðurinn Alex Zhavoronkov, stofnandi líftæknifyrirtækisins Insilico Medicine, sem meðal annars nýtir gervigreind til lyfjaþróunar.

Alex var í Kaupmannahöfn í ágúst þar sem hann ávarpaði stóra ráðstefnu um langlífi. Hann segir að margir vísindamenn séu að vinna að tækni sem gæti gert fólki kleift að gangast undir líkamsígræðslu – það er að fá nýjan líkama. Hann staðhæfir að umræðuna um líffæraígræðslur og 150 ára líf beri að taka alvarlega.

Í umfjöllun Mail Online er Zhavoronkov lýst sem vísindamanni á mörkum þess að teljast „brjálaður“. Hann er menntaður í Kanada og Bandaríkjunum og lauk doktorsprófi í eðlisfræði frá Moskvu-háskóla. Hann komst í heimsfréttirnar í fyrra þegar hann birti átta mínútna myndband sem sýndi nákvæmlega hvernig höfuðágræðsla gæti virkað.

Sem fyrr segir rekur hann rannsóknarstofu í Kína þar sem leitað er leiða til að lækna krabbamein, bandvefssjúkdóma og sjúkdóma í ónæmis- og taugakerfum fólks, svo fátt eitt sé nefnt.

„Eins og enginn annar þurfi á hjálp að halda“

Fleiri vísindamenn vinna að svipuðum aðferðum til að lengja líf fólks. Í sumum tilvikum er til dæmis rannsakað hvort hægt sé að rækta frumur til að gera við skemmd líffæri. Enn önnur prófa svokallaða „lífprentun“ þar sem tækni þrívíddarprentunar er notuð til að framleiða líffæri sem hægt er að græða í menn.

Sjálfur virðist Vladimír Pútín vera áhugasamur um að finna leiðir til að hægja á öldrun. Í fyrra kynnti hann til dæmis sérstakt þjóðarverkefni þar sem áhersla var lögð á að fjármagna rannsóknir á tækni til að hægja á öldrun frumna og sporna gegn vitrænni hnignun. Þá var einnig lögð áhersla á að fjármagna rannsóknir á lífprentun.

Það var rússneski fréttamiðillinn Meduza sem greindi fyrst frá þjóðarverkefni Pútíns og birti minnisblað þar sem þetta kom fram.

„Þegar við fengum þetta minnisblað var ég hreinlega sleginn,“ sagði einn vísindamaður við vefinn. „Allt þetta var svo fjarstæðukennt. Jú vissulega, við skulum eyða orku í að lengja líf þessara gamalmenna – eins og það sé enginn annar sem þurfi á hjálp að halda.“

Þó spennandi tímar virðist framundan í þróun tækni sem gæti lengt líf fólks, eru ýmsar áskoranir á leiðinni. Bent er á í umfjöllun Mail Online að líffærasmygl og kaup og sala á líffærum á svörtum markaði sé ein helsta hindrunin. Umfang glæpsins er óþekkt, en talið er að hann sé ekki óalgengur í Kína, Pakistan, Egyptalandi, Kólumbíu og á Filippseyjum, samkvæmt Reuters.

Árið 2007 áætlaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að 5–10% af þeim 150.000 ígræðslum sem gerðar eru ár hvert í heiminum væru með líffærum af svörtum markaði.

Chris Smith, þingmaður Repúblikana í New Jersey sem hefur barist gegn líffærasölu á svörtum markaði, hvatti kollega sína til að líta á samtal Pútíns og Xi sem skýrt aðvörunarmerki.

„Þetta óhugnanlega samtal ætti að vera skýrt vakningarmerki,“ sagði Smith í síðustu viku. „Til kollega minna í öldungadeildinni: Bandaríkin verða að bregðast hratt og ákveðið við.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Jóhannes Valgeir látinn

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Bolsonaro sakfelldur fyrir valdaránstilraun

Bolsonaro sakfelldur fyrir valdaránstilraun
Pressan
Fyrir 2 dögum

Losnar ekki við óumbeðnar athugasemdir nágrannans – „Ég er ekki hörundsár, en ég hef fengið algjörlega nóg“

Losnar ekki við óumbeðnar athugasemdir nágrannans – „Ég er ekki hörundsár, en ég hef fengið algjörlega nóg“