Hverra manna er Tyler Robinson, ungi maðurinn sem er grunaður um að hafa banað áhrifavaldinum Charlie Kirk á miðvikudaginn? Þessi spurning tröllríður nú bandarískum frétta- og samfélagsmiðlum. Ekki er verið að fást um hver fjölskylda skotmannsins er, enda er það þekkt, heldur hvaða hópum, hugmyndafræði eða hreyfingum hann gæti hafa tilheyrt.
Vinstrið vill ekki kannast við Robinson og vísar til þess að hann kemur úr hægri sinnaðri fjölskyldu. Foreldrar hans eru skráðir repúblikanar og hann er alinn upp sem mormóni og var kennt á skotvopn frá unga aldri. Eins bendi skilaboð á skothylkjum til þess að hann hafi tilheyrt öfgahægri hreyfingu sem kallar sig groypers og fylgir áhrifavaldinum Nick Fuentes sem undanfarið hefur verið mikið á móti Charlie Kirk.
Hægrið neitar að kannast við hann og hefur vísað til ýmissa meintra vísbendinga um vinstri skoðanir skotmannsins. Til dæmis hafi hann skrifað skilaboð á skothylki sem vísi til andfasistahreyfingarinnar Antifa og eins hafi þar mátt finna skilaboð sem bendi til stuðnings við trans fólk. Meðleigjandi og meintur elskhugi Robinson hafi verið trans, Robinson hafi haft aðgang að síðu sem fjallar um furry-samfélagið og eins hafi hann gengið í háskóla og þar orðið fyrir vinstri innrætingu.
Hvorki hægrið né vinstrið hafa þó fært fram sannfærandi rök fyrir pólitískum ásetningi skotmannsins og virðist upplýsingaóreiðan í tengslum við skotmanninn og skoðanir hans vera töluverð.
Fjögur skothylki hafa fundist í tengslum við málið og mátti finna áletrun á þeim öllum.
Hægrið vildi meina að þarna mætti finna skýra vísun til ANTIFA, en þarna væri talað um fasista, ítalska lagið Bella Ciao væri andfasískt og örvarnar væru vísun í andfasíska merkið Iron Front sem eru þrjár örar á ská niður. Fjölmiðlar birtu fljótt fréttir um þessi skilaboð sem hafa nú verið dregnar til baka enda kom á daginn að lögreglumaður hafði misskilið áletrunina og meðal annars túlkað áletrun frá framleiðanda skotsins, TRN, sem vísun til trans. „Notices bulges Owo whats this?“ sé svo annaðhvort vísun í trans samfélagið eða til furry-samfélagsins.
Vinstrið vildi meina að þarna væri Robinson að vísa til groyper-hreyfingarinnar enda hafi Fuentes kallað Kirk fasista og eins hafi lagið Bella Ciao verið að finna á lagalistum samfélagsins. Eins séu meðlimir samfélagsins virkir á miðlum á borð við 4chan og Reddit þar sem má gjarnan finna færslur á borð við textann á skothylkjunum.
Í rauninni er erfitt að segja til um hvort Robinson hafi yfir höfuð verið að senda skilaboð með skothylkjunum eða hvort hann hafi áletrað þau ótengt morðinu.
„Notices bulges Owo whats this“ er þekkt jarm (e. meme) sem hefur verið rakið allt aftur til ársins 2013 og þá sem ádeila á furry-samfélagið, þó að furries hafi seinna tekið jarminu fagnandi og notað það óspart. Að sögn Know Your Meme hefur jarmið öðlast sjálfstætt líf og er í dag notað í alls konar tilgangi.
„Hey, fasist! Catch! Ör upp, ör til hægri og þrjár örvar niður“ er vísun í tölvuleikinn Helldivers 2. Örvarnar tákna þá takka sem eru notaðir til að kalla fram 500 kg sprengju og leikmenn kalla gjarnan þegar þeir varpa slíkum sprengjum einhver skilaboð um fasista. Orðið fasisti er ekki að finna í leiknum en leikmenn eru vel meðvitaðir um að fasismi er þema leiksins.
Framleiðandi leiksins, Arrowhead, hefur enda ekkert farið leynd með það. Forstjóri Arrowhead hefur komið því á framfæri að leikurinn sé ádeila þar sem leikmenn séu í raun settir í það hlutverk að berjast fyrir fasísk stjórnvöld.
„Við spurðum okkur hvort við gætum heilaþvegið heilt samfélag og fengið til að berjast fyrir fasískt ríki? Myndu þeir gera það? Myndi þeim finnast það í lagi? Og í ljós kom, já.“
Meira að segja Sameinuðu þjóðirnar tóku eftir þessu og báðu fyrirtækið um að vera með fyrirlestur um málið.
„Bella ciao“ er vissulega and-fasískur söngur sem er helgaður ítölsku andspyrnuhreyfingunni í seinni heimsstyrjöldinni. Lagið hefur þó einnig náð vinsældum í tölvuleikjamenningu og sem dæmi má nefna að hægt er að ná í sérstaka viðbót við leikinn Helldivers svo að Bella Ciao heyrist þegar fáni er dreginn að húni í kjölfar sigurs.
„If you read this you are gay, lmao“ skýrir sig að mestu sjálft. Þetta er brandari sem hefur til dæmis verið prentaður á boli árum saman og þykir almennt niðrandi í garð hinsegin samfélagsins. Lmao þýðir að hlæja af sér rassgatið.
Komið hefur fram að meðleigjandi Robinson er Lance Twiggs. Herbergisfélaginn er sagður trans og hafa fundist vísbendingar í þá átt af samfélagsmiðlum sem eru taldir vera hans, en þar kallar hann sig Luna. Fjölskylda Twiggs virðist þó ekki vera með það á hreinu hvort Twiggs sé trans eða ekki, einn þeirra virðist staðfesta það og sagðist hafa heyrt að Twiggs hefði hafið lyfjameðferð. Aðrir segjast ekki vera vissir eða neita að tjá sig. Einn nágranni sem ræddi við fjölmiðla sagðist reglulega hafa séð Robinson og Twiggs saman en sá engar vísbendingar um að Twiggs væri trans.
Eins er ekki á hreinu hvort Robinson og Twiggs áttu í ástarsambandi eða ekki. Einn nágranni taldi ekkert benda til þess, annar segist hafa séð ástaratlot. Eins hafa misvísandi skilaboð komið frá fjölskyldu Twiggs.
Það sem liggur þó fyrir er að Twiggs hefur sýnt mikinn samstarfsvilja við lögreglu og meðal annars vakið athygli á skilaboðum frá Robinson sem virðast fela í sér játningu á ódæðinu með vísun í afdrif morðvopnsins.
Eins og rakið hefur verið hér að ofan er ekkert komið á hreint um stjórnmálaskoðanir Robinson. Ríkisstjóri Utah sagði í viðtali á föstudag að hann hefði verið heilaþveginn af vinstri hugmyndafræði en færði ekki frekari rök fyrir þeirri fullyrðingu. Á kjörskrá er Robinson skráður óháður og kaus ekki forsetakosningarnar á síðasta ári.
Að sögn lögreglu og yfirvalda hafði Robinson sýnt stjórnmálum meiri áhuga undanfarið, en ekki var tekið fram að hvaða leyti það var. Fram kom að í fjölskylduboði rétt fyrir morðið hafi Charlie Kirk komið til umræðu og þar talað um skoðanir hans. Fjölmiðlum ber ekki saman hvort það hafi verið Robinson eða fjölskyldumeðlimur sem við það tilefni sagðist ekki hafa miklar mætur á áhrifavaldinum.
Einn fyrrum skólafélagi meinta skotmannsins hélt því fram að Robinson hafi verið eini vinstrimaðurinn í annars hægri sinnaðri fjölskyldu. Skólafélaginn steig fram í skjóli nafnleyndar og tók síðar fullyrðinguna sína til baka og sagðist ekki muna nægilega vel eftir skoðunum Robinson. Amma Robinson sagði alla fjölskylduna vera MAGA og kannaðist ekki við vinstri skoðanir barnabarnsins.
Netverjar hafa grafið upp meinta samfélagsmiðla Robinson en þar má ekkert finna um stjórnmál. Einkum benda samfélagsmiðlar til þess að Robinson hafi verið með tölvuleiki á heilanum. Hann var meðlimur að einni síðu sem fjallar um furry-samfélagið en sá aðgangur var stofnaður fyrr á þessu ári og hafði Robinson ekki verið virkur og hvorki skrifað færslur né athugasemdir. Einnig má sjá að hann kallaði sig einu sinni Donald Trump á Steam-reikningi sínum.
Fljótlega eftir að Robinson var nafngreindur og fram kom að fjölskylda hans væri íhaldssöm fóru hægrimenn að kenna innrætingu í háskóla um voðaverkið. Þá hafði komið fram að Robinson hafði verið nemandi í Utah Valley-háskólanum þar sem morðið var framið. Vindurinn fór þó úr þeirri kenningu þegar á daginn kom að Robinson hætti í náminu eftir eina önn og færði sig yfir í rafvirkjun.
Af ofangreindu fæst að enn er óvíst hvað vakti fyrir Robinson og hvaða lífs- og stjórnmálaskoðanir hann hefur. Robinson er þó enn á lífi og því má ætla að atvik skýrist á komandi misserum. Robinson er nú vaktaður vel í fangelsi enda hafði hann lýst því yfir við fjölskyldu sína fyrir handtökuna að hann vildi frekar deyja en að fara í fangelsi.
Vinstrimenn hafa þó bent á að miðað við hvaða ríkisstjórn situr nú við völd í Bandaríkjunum megi ætla að ef borðliggjandi upplýsingar væru fyrir hendi um að Robinson væri vinstrimaður, þá væru þær komnar fram og hefðu líklega verið tilkynntar með pompi og prakt. Hægrimenn benda þó á að upplýsingar séu nú fyrst og fremst að koma í gegnum nafnlausa heimildarmenn úr lögreglu og því um leka að ræða enda rannsókn enn í fullum gangi. Ekki sé óvíst um að slík sönnun liggi fyrir og að beðið sé viðeigandi tíma til að opinbera það.
Það sem liggur þó fyrir er að skautun er orðin svo gríðarleg í bandarísku samfélagi að þar virðist öllu máli skipta hvaða skoðunum sé hægt að kenna um voðaverkið. Hvaða gagn slíkt gerir er óvíst enda líklega til þess fallið að vera olía á eld sem þegar logar of glatt.