Fyrr í þessum mánuði varð skelfilegt slys þegar kláfferja hrapaði í Lissabon í Portúgal, 16 létust í slysinu og fjölmargir særðust. Hjónin Hind Iguernane og Aziz Benharref voru á meðal farþega í kláfferjunni og minnist Iguernane eiginmannsins og síðustu stundar þeirra.
„Hann var einn af fallegustu mannverum sem til eru,“ sagði Iguernane við CTV News úr sjúkrarúmi sínu.
„Ég átti að sitja í hans sæti og hann sagði: „Nei, færðu þig bara aðeins og ég sit þar“, því það var þægilegra fyrir mig.“
Miðvikudaginn 3. september fór einn af sporvögnum vinsælu kláfferjunnar Elevador da Glória, sem er hluti af sögufrægu járnbrautarsporvagnakerfi borgarinnar, af sporinu og lenti á byggingu. Auk þeirra 16 sem létust særðust 21 manns, þar á meðal Iguernane.
„Þetta var mjög ógnvekjandi,“ sagði Iguernane. „Við hröpuðum. Ég sá hann ekki. Ég hringdi í hann; ég var að hringja í Aziz og hann svaraði ekki.“
Iguernane, sem brotnaði meðal annars á mjöðm og öxl, missti ítrekað meðvitund og segir að nokkrir dagar hafi liðið áður en hún fékk fregnirnar af því að eiginmaður hennar hefði látist í slysinu.
„Ég hélt áfram að spyrja og í tvær nætur vissi enginn eða að minnsta kosti sagði enginn mér hvað varð um hann,“ sagði hún. „Þau voru bara að segja mér: „Við erum öll að leita að honum, við höldum áfram að leita að honum.““
Benharref var 42 ára, kanadískur ríkisborgari frá Marokkó, en Iguernane, sem einnig er frá Marokkó, er með fasta búsetu í Kanada. Í söfnun sem stofnuð var á GoFundMe fyrir Iguernane segir að Benharref hafi látist af völdum alvarlegra áverka.
Í uppfærslu sem birt var miðvikudaginn 10. september sögðu ástvinir hennar að ástand Iguernane væri stöðugt, hún væri á batavegi og yrði flutt á sjúkrahús í Marokkó. Eiginmaður hennar verður jarðsettur þar.
„Hann var góður við alla. Hann var örlátur, vinnusamur og virðulegur. Hann var frábær eiginmaður. Hann elskaði Kanada.“
Samkvæmt skýrslu sem birt var laugardaginn 6. september, rekja embættismenn atvikið til bilaðs kapals.