Skipið, sem er 5.000 tonn, var sjósett í hafnarborginni Chongjin. Því var rennt til hliðar út í sjóinn og lagðist þá á hliðina. Skipið stórskemmdist og er einræðisherrann vægast sagt brjálaður yfir þessu.
Eftir að hafa orðið vitni að þessu, sagði hann að um „glæpsamlegan verknað væri að ræða sem hefði átt sér stað vegna algjörs kæruleysis“.
Að sögn ríkisfréttastofunnar KCNA sagði leiðtoginn að óhappið yrði ekki liðið sem og „herfileg mistök“ hinna ábyrgu. Málið verði tekið fyrir á fundi kommúnistaflokksins í júní.
Hann sagði að óhappið hafi „skaðað sjálfsvirðingu landsins okkar“. Af þeim sökum sé mikilvægt, pólitískt séð að lagfæra skipið hratt.
Norðurkóresk stjórnvöld höfðu áður sagt að skipið væri útbúið öflugum vopnum og að það yrði hluti af norðurkóreska flotanum frá og með næsta ári.