Myndband sem tekið var við komu Macrons og Brigitte til Víetnam í gærkvöldi hefur vakið töluverða athygli, en á því sést þegar Brigitte virðist ýta í andlit eiginmanns síns áður en þau stigu frá borði skömmu eftir að forsetaflugvélin lenti í Víetnam.
Mail Online hefur birt myndbandið sem má sjá hér að neðan.
Skrifstofa forsetans neitaði því í fyrstu að myndefnið væri ekta en viðurkenndi síðar að það væri ósvikið. Mail Online hefur eftir nánum bandamanni forsetans að um „saklausa deilu“ hafi verið að ræða á milli hjónanna.
Annar segir að hjónin hafi einungis verið að grínast. „Þetta er augnablik sem sýnir nánd.“
Hjónin hafa verið gift frá árinu 2007 en töluverður aldursmunur er á þeim. Brigitte er 72 ára en Macron 47 ára.