Sautján ár eru liðin síðan hann og samstarfsfólk hans lögðust í umfangsmikla rannsókn sem snerist um að raðgreina erfðamengi um það bil 1.400 einstaklinga sem komnir voru á áttræðisaldur eða meira og þjáðust ekki af neinum meiriháttar langvinnum sjúkdómum. Niðurstöðurnar komu honum nokkuð á óvart því ekki fannst nein augljós erfðafræðileg skýring á heilbrigðri öldrun þeirra.
Nú hefur Topol skrifað bók um þetta viðfangsefn, Super Agers: An Evidence-based Approach to Longevity, þar sem hann færir rök fyrir því að líkamsrækt sker sig úr sem mikilvægasti þátturinn sem hefur áhrif á það hvernig og hversu vel við eldumst.
Topol hefur farið yfir hundruð rannsókna og kemst hann að þeirri niðurstöðu að styrktar- og viðnámsþjálfun sé mikilvægasti þátturinn. Mataræði og félagsleg tengsl skipta einnig máli, en í viðtali við Washington Post um bókina segir hann að líkamsrækt sé í raun eina aðgerðin sem getur hægt á öldrum líkamans í heild. „Hún virðist breyta því hversu hratt við eldumst,“ segir hann.
Topol sjálfur, sem varð sjötugur í fyrra, hefur lengi stundað þolþjálfun en hann hefur nú bætt styrktarþjálfun við æfingaprógramið sitt. Hann notar handlóð, teygjur og líkamsþyngdaræfingar heima hjá sér og hann dregur ekki fjöður yfir það að líðan hans er betri eftir að hann byrjaði að stunda þessar æfingar. Þær hafi bætt jafnvægi hans, líkamsstöðu og almennt líkamsástand.
Topol leggur áherslu á það að sama hversu gamall maður er sé aldrei of seint að byrja á styrktarþjálfun. „Þessi hugmynd um að maður geti ekki byggt upp vöðva eða styrk þegar maður eldist er fáránleg,“ segir hann og bætir við að þetta snúist ekki um að lifa sem lengst heldur „heilbrigðan líftíma“ – tímann sem við eigum án þess að glíma við aldurstengda sjúkdóma.
„Rannsóknir sýna að með heilbrigðum lífsstíl, sérstaklega reglulegri líkamsrækt, er hægt að bæta við sjö til tíu árum af heilbrigðum líftíma,“ segir hann.