Ewan, sem er 36 ára, vaknaði þann 28. febrúar upp við að versta martröð allra bílaáhugamanna hafði ræst. Búið var að stela svarta Honda Civic Type-R bílnum hans en hann hafði staðið í innkeyrslunni hans.
Hann hafði auðvitað strax samband við lögregluna og tryggingafélagið sitt og fór síðan að leita að alveg eins bíl til kaups.
Hann taldi sig nú hafa dottið í lukkupottinn þegar hann fann Civic, sem líktist bílnum hans, í 110 km fjarlægð. „Sami litur, sama árgerð, með alveg eins, svolítið ögrandi útblásturskerfi,“ sagði hann sjálfur um „nýja bílinn“.
Hann reiddi fram sem nemur um 3,5 milljónum fyrir bílinn.
Á leiðinni heim fóru ákveðnar grunsemdir að læðast að honum vegna atriða sem hann tók eftir í bílnum. „Ég fór að taka eftir litlum hlutum í bílnum, til dæmis tjaldhæl, nálum af grenitré og umbúðum utan af Mars súkkulaði,“ sagði hann.
Síðan versnaði staðan enn því í GPS-tæki bílsins fann hann heimilisfangið sitt og heimilisfang foreldra sinna. „Ég var við að lenda í árekstri, í hreinskilni. Hendurnar skulfu, hjartað sló ört,“ sagði hann.
Hann fór síðan með bílinn á Honda-verkstæði í Solihull og mikið rétt, bifvélavirki þar staðfesti grun hans. „Þetta er bíllinn þinn.“
Þjófarnir höfðu breytt kílómetrastöðunni, skipt um skráningarnúmer og átt við raðnúmer bílsins. Var þetta svo vel gert að bæði lögreglunni og starfsmönnum Honda fannst mikið til koma.
Ewan keypti bílinn af bílasala og telur að hann hafi verið blekktur af þjófunum þegar hann keypti bílinn.