Þyrlan mun halda áfram að afla gagna á meðan hún hefur straum til. Þessi gögn gætu komið að góðu gagni við Marsleiðangra framtíðarinnar. En sá hængur er á að við verðum að fara til Mars, eða senda vélmenni þangað, til að sækja þessi gögn.
Þyrlan er á stærð við dúfu. Hún lenti á Mars 18. febrúar 2021 ásamt Perseverance bílnum. Hún tók sig fyrst á loft þann 19. apríl 2021 og var það í fyrsta sinn sem manngerður hlutur flaug á annarri plánetu.
Markmiðið var að þyrlan skyldi fara í 5 flug á 30 dögum en þegar upp var staðið hafði hún farið í 72 flug og var á lofti í rúmlega tvær klukkustundir i heildina. Hún flaug 14 sinnum lengra en upphaflega var áætlað að því er segir í tilkynningu frá NASA.
Þyrlan fór í sitt síðasta flug 18. janúar á þessu ári. Hún brotlenti þá eftir að hafa misst samband við stjórnstöð NASA í skamma stund. Tveir af fjórum spöðum hennar skemmdust og er hún því ekki flugfær.