Live Science segir að stjörnufræðingar séu steinhissa á þessari uppgötvun því þetta gangi þvert gegn þekkingu okkar á alheiminum á upphafsárum hans.
Vetrarbrautin hætti skyndilega og af dularfullum ástæðum að mynda stjörnur þegar alheimurinn var bara 700 milljóna ára gamall en þá urðu óteljandi stjörnur til, þökk sé miklu magni gass og ryks.
Vetrarbrautin hefur fengið nafnið JADES-GS-z7-QU. Rannsóknin, sem sýndi fram á dauða hennar, var nýlega birt í vísindaritinu Nature.
Tobias Looser, einn höfunda rannsóknarinnar, sagði í tilkynningu að vetrarbrautir þurfi mikið af gasi til að geta myndað nýjar stjörnur og á fyrstu árum alheimsins hafi hann nánast verið eins og hlaðborð.
Francesco D‘Eugenio, einn höfunda rannsóknarinnar, sagði í tilkynningu að núverandi líkön geti ekki skýrt hvernig stóð á því að vetrarbrautin tók á sig form á tæpum milljarði ára eftir Miklahvell og hætti síðan að mynda stjörnur. Það sé yfirleitt á síðari stigum alheimsins sem vetrarbrautir sjást hætta að mynda stjörnur.