fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Pressan

Djöfullinn ekur um í Dodge – Morðið í Osló sem enn er óleyst

Pressan
Föstudaginn 26. janúar 2024 21:24

Dodge svipaður bíl Rustad. Mynd:Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 10. janúar 1934 ók lögreglumaðurinn Einar Krogstad fram hjá dökkblárri Doge bifreið sem var kyrrstæð á Grev Wedels Plass í miðborg Osló. Einar stöðvaði lögreglubifreiðina og fór ásamt félaga sínum að Dodge bifreiðinni til að kanna hvort eitthvað óeðlilegt væri á seyði. Þegar þeir litu inn í bifreiðina sáu þeir að teppi var breitt yfir eitthvað í framsætinu. Einar opnaði dyrnar og um leið datt mannslík út úr bifreiðinni. Við nánari skoðun sást að fjögur skotsár voru á hnakka mannsins. Síðar voru borin kennsl á líkið. Það reyndist vera af kaupsýslumanninum Edvard Rustad.

Að sjálfsögðu hófst umfangsmikil rannsókn á morðinu en það hefur verið sagt vera „grimmdarlegasta og dularfyllsta morðið í Noregi“. Það hefur einnig verið sagt vera fyrsta morðið framið af skipulögðum glæpasamtökum í Noregi. Ástæðan fyrir því er að aldrei fyrr, að því að vitað var, hafði morð, sem var beinlínis aftaka með köldu blóði, verið framin í Noregi. Morðið minnti á morð í Bandaríkjunum en á þessum tíma fór mikið fyrir skipulagðri glæpastarfsemi þar og var Al Capone líklegast þekktasti leiðtogi skipulagðra glæpasamtaka á þessum tíma.

Það jók enn á tenginguna við Bandaríkin að Edvard Rustan var skotin með Western 25 Auto skotum sem voru framleidd í Bandaríkjunum en höfðu ekki verið seld í Noregi síðan 1929. Af þessum sökum var því einnig velt upp hvort morðið hefði tengingu við Bandaríkin. Um tíma var rætt um að sjálfur djöfullinn hefði  verið að verki.

Auðugur kaupsýslumaður

Edvard Rustad, sem var 62 ára þegar hann var myrtur, hafði hagnast vel á því að kaupa niðurnídda sveitabæi. Hann reif þá og seldi allt byggingarefnið og innviði húsanna, sem hægt var að nota, til annarra. Auk þess stundaði hann viðskipti með kol og hveiti. Eiginkona hans rak litla ávaxtaverslun í Osló. Edvard var mikill hófsemdarmaður á áfengi og var ótrúlega vanafastur. Stundvíslega klukkan 18 á hverjum degi lokaði hann skrifstofu sinni og ók að verslun eiginkonu sinnar. Því næst óku þau heim til sín í Blommenholm. En þann 9. janúar kom hann ekki til að sækja eiginkonuna sem fylltist áhyggjum og varð á endanum að fara ein heim.  Rúmum sólarhring síðar fannst Edvard í bíl sínum.

Lík Rustad í bílnum.

Blaðamenn komu fljótlega á vettvang og óhætt er að segja að vangaveltur í blöðunum hafi verið margar og hugmyndaríkar. Margir sögðu að morðið væri mjög „ónorskt“ og bæri þess merki að atvinnumenn hefðu verið að verki. Þar varð hugmyndin um erlend tengsl til. Því var velt upp hvort mafían í Chicago hefði verið að verki.  Axel Kielland, rithöfundur og blaðamaður, skrifaði í Dagbladet að „venjulegur norskur ræningi hefði látið eitt skot nægja vegna taugaóstyrks og ótta við að til hans heyrðist“. Hann sagði að vegsummerkin „minntu mikið á aðferðir glæpagengja“.

Eftir því sem leið á rannsóknina fjölgaði spurningunum en það varð ekki til þess að lögreglan kæmist nær því að finna svar við hver eða hverjir myrtu Edvard. Rannsóknin leiddi í ljós að morðið hafði ekki verið framið á Grev Wedels Plass þar sem bíllinn fannst. Í aftursætinu fundust tvö skothylki sem benti til að Edvard hefði verið skotin þar sem hann sat undir stýri.

Dularfulla símtalið

Þegar mynd komst á síðustu stundir Edvard í lifanda lífi jókst dulúðin í kringum málið enn frekar. Daginn áður en lík hans fannst var hringt í hann á skrifstofuna. Samstarfsmaður hans sagði að hann hefði átt að hitta mann fimm mínútum síðar og hefði ekið á brott í Dodge bifreið sinni. Samstarfsmaðurinn var sá síðasti, fyrir utan morðingjann eða morðingjana, til að sjá Edvard á lífi.

Lögreglan hafði þá kenningu að Edvard hefði fengið símtal frá morðingjanum sem hafi bent honum á að brunnin málningarverksmiðja í Alnabru væri til sölu. Tilgangurinn hafi verið að lokka Edvard út af skrifstofunni. Klukkan 14 þennan sama dag heyrði vitni skothvell ekki langt frá málningarverksmiðjunni og ummerki á skóm Edvard bentu til að hann hefði verið í brunarústum verksmiðjunnar. En ef þetta var rétt, af hverju hafði morðinginn þá ekið bíl Edvard, með líki hans í, niður í miðborg Osló? Önnur og ekki síður mikilvæg spurning var: Af hverju var Edvard myrtur?

Gat verið um ránsmorð að ræða? Veski Edvard, sem var alltaf fullt af peningum, var horfið. En kringumstæður og hversu faglega var staðið að morðinu passaði ekki við að um ránsmorð hefði verið að ræða. Eitthvað annað hlaut að búa að baki.

Tveimur mánuðum eftir morðið gáfu tvö vitni sig fram sem sögðust hafa séð mann leggja bíl Edvard á Grev Wedels Plass um klukkan 15.30 daginn sem hann var myrtur. Lýsing þeirra á manninum var eins og að hella bensíni á bál fyrir blaðamenn og aðra áhugasama um morðið. Maðurinn var sagður vera „mjög fölur og með skýra andlitsdrætti“.

Nokkrum vikum síðar gaf annað vitni sig fram og sagðist hafa séð Dodge bifreið Edvard í Romsås á morðdaginn. Þá hafi „fölur maður sem leit óhugnanlega út“ ekið bifreiðinni, hann hafi „verið hörkulegur á svipinn og með starandi augu“. Þetta dugði blaðamönnum og almenningi til að komast að niðurstöðu. Það var sjálfur djöfullinn sem hafði drepið Edvard.

En væntanlega er það eitthvað jarðbundnara sem skýrir morðið. Gögn lögreglunnar og framburður vitna bentu til að einhver tenging væri við skipulagða glæpastarfsemi í Bandaríkjunum. Norsku lögreglunni miðaði lítið áfram við rannsókn málsins og 1937 var fengin aðstoð frá bandarísku alríkislögreglunni en hún gat ekki heldur leyst málið. Aðrar tengingar voru einnig rannsakaðar og nafngreindir aðilar lágu undir grun. 1.500 vitni voru yfirheyrð en samt sem áður er málið óleyst enn þann dag í dag, 86 árum síðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Sakamál: Var framið réttarmorð á Rebeccu eða er hún besti lygari í heimi?

Sakamál: Var framið réttarmorð á Rebeccu eða er hún besti lygari í heimi?
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þessu máttu ekki sleppa ef þú vilt lifa lengi

Þessu máttu ekki sleppa ef þú vilt lifa lengi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Heilinn getur skilið skrifaða setningu á „augabragði“

Heilinn getur skilið skrifaða setningu á „augabragði“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli
Pressan
Fyrir 4 dögum

Næringarfræðingar ráðleggja fólki að borða þetta ekki með banana

Næringarfræðingar ráðleggja fólki að borða þetta ekki með banana
Pressan
Fyrir 4 dögum

105 ára segir þetta vera lykilinn að langlífi

105 ára segir þetta vera lykilinn að langlífi