Rétt fyrir klukkan 22:30 þann 30. desember árið 2017 barst neyðarlínunni í Suffolk-sýslu hrollvekjandi símtal. Á línunni var fyrrum sveitarstjórnarmaðurinn Stephen Searle sem fullyrti yfirvegað og blákalt að hann hefði banað eiginkonu sinni.
Hér á eftir fylgir uppskrift símtalsins þar sem heyra má starfsmann neyðarlínunnar (NL) og Stephen (SS) ræða saman áður en lögregluna (L) ber að garði.
NL: Halló, heyrirðu í mér?
SS: Já ég heyri í þér, heyrir þú í mér?
NL: Jább
SS: Já svo ég… drap konuna mína rétt í þessu.
NL: Þú varst að drepa konuna þína?
SS: Já
NL: Okey…..
SS: … reikna með að þetta sé svolítið öðruvísi símtal fyrir þig í kvöld
NL: ….
SS: Gleðilegt nýtt ár
NL: … og hvernig drapstu hana?
SS: Ehh…. með því að kæfa hana í rauninni, reikna ég með. Þetta eru svolítið furðulegar aðstæður. En þú veist… skiptir svo sem ekki máli.
NL: Okey svo það eruð bara þið tvö inni á heimilinu?
SS: Ehh… reyndar aðeins annað okkar núna
NL: Já einmitt
SS: Eða tvö ef þú kýst það frekar.
NL: Okey, er það eitthvað annað sem lögreglumennirnir þurfa að vera meðvitaðir um þegar þeir koma inn á heimilið. Einhver hætta?
SS: Í raun ekki sko… Ég er ekki ofbeldisfullur, ég er ekki neitt.
NL: Stephen, mætti ég biðja þig um að fara til dyra. Mér skilst að þangað sé lögreglan komin. Gætir þú farið og rætt við þá?
SS: Já okey eru þeir komnir núna?
NL: Þeir ættu að vera það
SS: Okey ég er á leiðinni.
NL: Flott
SS: Ég er á leiðinni í þessum töluðu orðum.
L: Halló
SS: (við lögreglu): Ahh sælir félagar. Hvernig hafið þið það?
L: Ég hef það fínt, takk.
Eftir þetta lauk símtalinu, en á upptökum úr búkmyndavélum lögreglu heyrðist Stephen útskýra að hann hafi fyrst íhugað að leggja sig áður en hann tilkynnti um andlát konu sinnar, en svo skipt um skoðun.
„Ég ætlaði að sofa á þessu, en svo hugsaði ég, fokk it, klárum þetta.“
Eftir að lögregla handtók sveitarstjórnarmanninn fyrrverandi heyrðist hann segja: „Afsakið mig, ég hef verið virkilega óþekkur strákur.“
Inni á heimilinu fannst Anne, eiginkona Stephen til 45 ára. Viðbragðsaðilar reyndu endurlífgun, en Anne var úrskurðuð látin á vettvangi. Krufning leiddi í ljós að Stephen, sem var fyrrum hermaður, hafði tekið hana kæfingartaki og þrengt að öndunarvegi hennar þar til hún fyrst missti meðvitund, og nokkrum mínútum síðar lífið.
Fyrir dómi bar Stephen því við að hann hafi drepið konu sína í sjálfsvörn. Hún hafi ráðist á hann með hníf og veitt honum grunnar rispur. Hún hafi reynt að stinga hann og hann ekki haft um annað að velja en að verja sig.
Ákæruvaldið varpaði þó öðru ljósi á málsatvik. Stephen átti þrjá uppkomna syni með konu sinni. Einn þeirra, Gary, hafði unnið með föður sínum í keiluhöll í nágrenninu. Með þeim vann einnig kærasta Gary til átta ára, Anastasia Pomiateeva, en saman áttu þau nokkur börn. Stephen hafði ákveðið að rjúfa hjúskaparheit sín, og eins trúnaðartraust sonar síns. Hann fór í fjörurnar við Anastasiu og gekk hart á eftir henni. Að lokum lét Anastasia undan og hófu þau kynferðislegt samband. Tengdafaðirinn og móðir barnabarna hans.
Það sætir líklega ekki furðu að Anne varð ekkert sérstaklega kát þegar hún sá skilaboð sem höfðu farið þeim á milli. Ákæruvaldið varpaði fram þeirri kenningu að þetta örlagaríka kvöld hafi Anne og Stephen rifist út af hjúskaparbrotinu og Stephen þá gripið konu sína með kæfingartaki sem hann lærði í hernum og þannig banað henni. Leidd voru fram vitni sem báru að Stephen ætti það til að missa stjórn á reiði sinni. Hann hafi áður sýnt ógnandi hegðun og ýmislegt benti til þess að hann hafi beitt konu sína líkamlegu og andlegu ofbeldi. Eitt vitnið bar að Anne hafi ekki farið frá manni sínum þar sem hún væri: „of gömul til að byrja upp á nýtt.“
Anne hafði sjálf skrifað færslu á Facebook nokkrum dögum áður en hún dó: „Gleðileg jól… ég vona að ég verði hér enn árið 2018. Við sjáum hvað setur.“
Stephen var sakfelldur fyrir morðið í júlí árið 2018. Líkt og í símtalinu til Neyðarlínunnar var hann yfirvegaður og ískaldur þegar dómurinn var lesinn upp. Eftir að hafa ráðið ráðum sínum í rétt rúma þrjá tíma ákvað kviðdómur að Stephen væri sekur og ætti að verja það sem eftir væri ævinnar í fangelsi.
Synir Stephen og Anne voru í áfalli.
„Ég get ekki trúað því að fyrirmyndin mín, maður sem ég dýrkaði, hafi getað gert mér þetta,“ sagði Gary. Annar bræðranna þriggja sagðist feginn að réttlæti hafi náð fram að ganga fyrir móður hans, en staðan væri þó sú að hann væri nú búinn að missa bæði móður og föður. „Það sem særir mest er að ég missti mömmu en manneskjan sem tók hana frá mér var minn besti vinur og jafnframt faðir minn.“
Það kemur þó lesendum mögulega á óvart að Gary ákvað að slíta ekki sambandi sínu við Anastasiu, þó að hún hafi um tíma stefnt í að verða stjúpmamma hans og þar með stjúpamma barna þeirra. Þau stigu fram eftir að dómur féll í málinu í viðtali við The Mirror en þar sagði Anastasia að Stephen hafi platað hana til samræðis með því að sýna henni gamlar myndir frá tíma þar sem hann lagði stund á vaxtarækt. Hún hafi þó upplifað skömm og farið í sturtu eftir hvert skiptið sem hún lagðist með honum, á þessum þremur mánuðum sem á sambandi þeirra stóð. Hún hafi látið til leiðast þar sem amma hennar hafi verið veik og hún því berskjölduð fyrir viðreynslunni. Stephen hafi kvartað undan langvarandi kynlífsleysi og hún vorkennt honum. Eftir að dómur féll sagðist Anastasia vilja einbeita sér að því að glæða nýju lífi í samband hennar og Gary. „Tíminn læknar öll sár,“ sagði Anastasia, sem gæti verið rétt fyrir marga, en ekki fyrir Anne.
Símtalið skuggalega má heyra hér fyrir neðan.