ABC News segir að kviðdómur í Austin í Texas hafi fundað stóran hluta af föstudeginum til að komast að niðurstöðu um þyngd refsingarinnar. Að lokum var niðurstaðan 90 ára fangelsi og 10.000 dollara sekt. Daginn áður tók það kviðdóminn tæpar þrjár klukkustundir að komast að niðurstöðu og úrskurða Armstrong seka um morð af fyrstu gráðu.
Wilson, sem var 25 ára þegar hún var myrt, fannst helsærð heima hjá vinkonu sinni í Austin í Texas þann 11. maí 2022. Lögreglan sagði strax í upphafi að svo virtist sem um skipulagt morð hafi verið að ræða.
Armstrong, sem er 35 ára jógakennari, var handtekin í Kosta Ríka 43 dögum síðar. Hún var síðan ákærð fyrir morð af fyrstu gráðu. Nokkrum dögum áður en hún var handtekin greiddi hún sem nemur rúmlega einni milljón íslenskra króna fyrir lýtaaðgerð.
Wilson átti í ástarsambandi við Colin Strickland, atvinnureiðhjólamann, sem var áður unnusti Armstrong. Hún var myrt nokkrum klukkustundum eftir að hafa hitt Strickland í Austin.
Þegar saksóknarar fluttu málið hvöttu þeir kviðdómendur til að taka „eðli“ morðsins með í reikninginn sem og tilraun Armstrong til að flýja. Kröfðust þeir að minnsta kosti 40 ára fangelsisdóms yfir Armstrong.