Charlotte Sena, níu ára stúlka sem hvarf þegar hún var í hjólreiðatúr á laugardagskvöld, fannst heil á húfi í gærkvöldi. Fannst hún í húsbíl 47 ára karlmanns sem er grunaður um að hafa rænt henni.
Charlotte var í útilegu með fjölskyldu og vinum við Moreau Lake í New York-ríki um helgina. Um kvöldmatarleytið á laugardag ákváðu hún og fleiri börn að fara í hjólreiðatúr og hjólaði hópurinn nokkra hringi í kringum svæðið. Charlotte ákvað að taka einn hring í viðbót, ein síns liðs, en skilaði sér ekki til baka.
New York Post greinir frá því að hinn grunaði mannræningi, Craig Nelson Ross, hafi komið með bréf á heimili Charlotte snemma í gærmorgun þar sem lausnargjalds var krafist. Lögregla lagði hald á bréfið og skoðaði meðal annars hvort einhver fingraför væru á því. Sú var raunin en fingrafar Craigs var í gagnagrunni lögreglu eftir að hann var stöðvaður fyrir akstur undir áhrifum árið 1999.
Lögregla var ekki lengi að hafa upp á Craig og fannst Charlotte inni í skáp í húsbíl sem er í eigu Craigs, en húsbílnum hafði hann lagt fyrir aftan heimili móður sinnar þar sem hann var með skráð lögheimili. Á blaðamannafundi sem lögregla hélt í gærkvöldi kom fram að stúlkan væri heil á húfi en brugðið, eðli málsins samkvæmt.
Lögregla er með málið til rannsóknar en í frétt New York Post kemur fram að Craig þessi hafi verið búsettur skammt frá heimili stúlkunnar.