Þetta segir Alþjóðaveðurfræðistofnunin WMO. Yfirborðshitinn setti ný met mánuð eftir mánuð og á sama tíma var ísmagnið á Suðurskautinu í sögulegu lágmarki miðað við árstíma.
Miskunnarlausar hitabylgjur einkenndu sumarið víða um heim. Í júlí féll fjöldi hitameta um allan heim, til dæmis í Bandaríkjunum, Mexíkó, Kína og Spáni.
Yfirborðshiti sjávar hefur verið óvenjulega hár síðustu sex mánuði og var í methæðum í apríl, maí, júní og júlí.
Carlo Buontempo, hjá Copernicus loftslagsstofnun ESB, sagði í yfirlýsingu að það sem við erum að upplifa núna séu ekki bara öfgar, heldur stöðugar veðurfarsaðstæður sem geri að verkum að met falli hvert á fætur öðru. Þetta sé skýr afleiðing af hlýnandi loftslagi.