fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Pressan

Hann var dæmdur fyrir morð að ósekju – Mörgum árum seinna komu hlustendur hlaðvarps til hjálpar

Ritstjórn Pressunnar
Fimmtudaginn 26. október 2023 21:00

Á þessu móteli í Texas var presturinn Patrick Ryan myrtur árið 1981. James Reyos var dæmdur fyrir morðið á hæpnum forsendum. Skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

James Reyos var dæmdur í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að myrða kaþólskan prest, Patrick Ryan, árið 1981. Þökk sé hjónunum Harlee og Michael Gerke, sem eru aðdáendur hlaðvarpsins Crime Junkie, hefur hann verið hreinsaður af öllum ásökunum.

Þegar hjónin voru eitt sinn að aka til Odessa í Texas hlustuðu þau á meðan á einn af þáttum hlaðvarpsins, sem fjallar um sönn sakamál, en í honum var fjallað um morðið á Patrick Ryan. Eftir að hafa hlustað á þáttinn komust þau bæði að þeirri niðurstöðu að það væri eitthvað sem passaði ekki í þessu máli.

Ryan og Reyos hittust fyrst í desember 1981 þegar sá fyrrnefndi tók þann síðarnefnda upp í bíl sinn þegar hann var að ferðast á puttanum. Ryan bauð Reyos í mat heim til sín. Reyos fór heim til prestsins þann tuttugasta þess mánaðar og fóru þeir fljótlega að drekka áfengi. Ryan var mun hávaxnari og líkamlega sterkari en Reyos og neyddi þann síðarnefnda til að veita sér munngælur.

Þrátt fyrir það bað Reyos prestinn að keyra sig til Hobbs í Nýja-Mexíkó ríki. Það gerði hann og kvöddust þeir að því loknu og sáust aldrei aftur. Síðar þetta sama kvöld fannst Ryan látinn í mótelherbergi í Odessa í Texas. Hann hafði verið barinn hrottalega og orðið fyrir kynferðislegri árás.

Reyos hafði komið með myndaalbúm í matarboðið og skilið það eftir. Þar af leiðandi var lögreglan fljót að finna hann. Reyos hafði hins vegar góða fjarvistarsönnun. Kvittanir frá bensínstöð og sekt fyrir of hraðan akstur sýndu fram á að hann var víðsfjarri morðstaðnum. Fingraför á morðstaðnum voru ekki eftir hann og hann stóðst próf í lygamæli.

Kenndi sjálfum sér um og játaði undir áhrifum

Reyos var hins vegar viss um að puttaferðalangur sem Ryan tók upp í bílinn á meðan hann var að keyra Reyos til Hobbs hafi myrt hann. Reyos var með samviskubit yfir þessu og taldi morðið í raun vera sér að kenna. Ári síðar játaði hann á sig morðið undir áhrifum áfengis. Hann segir að sektarkenndin hafi verið að éta hann innan frá.

Reyos dró játninguna til baka en var þrátt fyrir það dæmdur í 38 ára fangelsi árið 1983. Hann sat þó aðeins inni til 1995 en hélt áfram að komast í kast við lögin og sat á endanum í fangelsi í samtals 24 ár. Hann segir að honum hafi liðið eins og hann væri með stórt ljósaskilti á höfðinu sem stæði á „Morðingi.“

Árin liðu þar til Michael og Harlee Gerke heyrðu fjallað um málið í Crime Junkie. Michael segir að það hafi nánast blasað við að það væri ekki nokkur möguleiki á því að Reyos væri sekur.

Svo vill til að faðir Michael er núverandi lögreglustjóri í Odessa, þar sem morðið var framið, og á meðan þau voru að hlusta á þáttinn voru þau einmitt á leiðinni að hitta hann og fleiri fjölskyldumeðlimi.

Faðir Michael skoðaði málsgögnin og komst að sömu niðurstöðu og sonur sinn og tengdadóttir. Mest af sönnunargögnunum hafði verið eytt en þó voru enn eftir afritin af fingraförunum sem voru tekin á vettvangi morðsins. Þeim var rennt í gegnum gagnagrunn sem hefur að geyma fingraför frá öllum Bandaríkjunum en sá gagnagrunnur var ekki kominn til sögunnar þegar morðið á Patrick Ryan átti sér stað

Þessi skoðun leiddi í ljós að alls voru fingraförin af þremur mönnum og enginn þeirra var James Reyos. Mennirnir eru nú allir látnir.

Lögreglustjórinn, sem heitir einnig Michael, segir að þá hafi verið augljóst að það væru engar sannanir fyrir því að Reyos hefði verið í herberginu þar sem morðið var framið eða yfirhöfuð verið í Odessa.

Þann 4. október síðastliðinn var James Reyos sýknaður af öllum ákærum fyrir áfrýjunardómstól í Texas. Fyrirskipaði dómstólinn að Reyos skyldi fá 80.000 dollara (rúmlega 11,2 milljónir íslenskra króna) í bætur fyrir hvert ár sem hann sat í fangelsi.

Hann ætlar sér að fjárfesta í fasteign eða stofna samtök fyrir fólk sem hefur verið ranglega sakfellt eins og hann. Hann segir að lífi sínu hafi ekki verið sóað en að hann hafi ekki getað lifað því til fullnustu.

Það var Allthatsinteresting.com sem greindi frá.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Stefnulýsing Mangione birt – „Ég biðst afsökunar á þeim erfiðleikum og þjáningum sem ég hef valdið en þetta þurfti að gerast“

Stefnulýsing Mangione birt – „Ég biðst afsökunar á þeim erfiðleikum og þjáningum sem ég hef valdið en þetta þurfti að gerast“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“

Afbrotafræðinemi myrti hugsanlega konu til að „sjá hvernig það væri“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Katie Holmes svarar orðrómunum – „Algjör vitleysa“

Katie Holmes svarar orðrómunum – „Algjör vitleysa“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi
Pressan
Fyrir 4 dögum

Lokkuð í frí af „kærastanum“ – Var upphafið að hryllingi

Lokkuð í frí af „kærastanum“ – Var upphafið að hryllingi