Hvað er til ráða þegar heilu bæjarfélagi er haldið í gíslingu af óþverra sem tekst alltaf að komast upp við ódæðisverk sín? Og hverju gætu íbúar tekið upp á þegar öll sund virðast lokuð? Bærinn Skidmore í Bandaríkjunum veit svarið, en mun þó ekki deila því með neinum, enda lifir heiðursmannasamkomulag frá örlagaríkum degi árið 1981, enn góðu lífi.
Ken Rex McElroy var skítseiði. Um það gátu íbúar í smábænum Skidmore í Missouri verið sammála. Hann var ekki bara glæpamaður heldur rækilegur ribbaldi sem skilaði honum viðurnefninu „kvalari bæjarins“.
Fæddur árið 1934. Hætti í skóla sem unglingur. Fór að drepa smádýr sér til skemmtunar og þegar það missti sjarmann sneri hann sér að glæpum.
Hann var mikill að vexti með kuldalegt augnaráð og sást aldrei óvopnaður. Hann ógnaði öllum sem urðu á vegi hans, oftast með því að áreita fólk eða hóta því að skjóta það.
Hann stal hveiti, áfengi, eldsneyti, forngripum og búfé. Sú ferilskrá dugði honum þó ekki til og bætti hann því íkveikju og líkamsárásum í safnið. Enn var hann ekki ánægður með afraksturinn svo hann sneri sér að enn hræðilegri glæpum, barnaníð og og nauðgun. Hann var dreginn fyrir dóm í 21 skipti en tókst þó að komast undan refsingu í öllum tilvikum.
Rithöfundurinn Harry MacLean veltir því fyrir sér í bókinni „Um hábjartan dag“ hvernig McElroy tókst að sleppa við fangelsisvist.
„Hann var ekki með bankareikning, hafði enga kennitölu, hann gat ekki lesið. Hvernig gat þessi ómenntaði maður leikið á réttvísina í 20 ár?“
Þetta vakti furðu flestra, en verjandi hans, Richard McFadin, var himinlifandi, enda gætti hann hagsmuna McElroy að meðaltali 3-4 á hverju ári.
„Hann var besti skjólstæðingur sem ég hef haft. Hann var stundvís, sagðist alltaf saklaus og kom alltaf aftur,“ sagði McFadin í viðtali.
En íbúar í Skidmore voru ævareiðir. Þeir hötuðu hann af ástríðu. Hann hafði hrellt Skidmore áratugum saman og komst alltaf upp með það.
Árið 1976 skaut hann nágranna sig í magann. Áður en málið fór fyrir dóm brenndi McElroy hlöðu við heimili dómarans til grunna og sat um kviðdóminn. Hann var sýknaður.
Ástandið náði suðumarki árið 1980 eftir að McElroy lenti saman við Ernest „Bo“ Bowenkamp. Bowenkamp var aldraður og starfaði í matvöruverslun bæjarins. Öllum var hlýtt til gamla mannsins. Þegar sá gamli tókst á við tröllvaxinn fautann fór það svo að Bowenkamp var skotinn í hálsinn og var við dauðans dyr.
Skömmu síðar var McElroy handtekinn og ákærður fyrir tilraun til manndráps. Árið eftir var hann loksins sakfelldur, Skidmore til mikillar gleði.
En gleðin reyndist skammlíf. McElroy áfrýjaði og var sleppt úr haldi gegn greiðslu tryggingarfés. Það kemur lesanda líklega ekki á óvart að McElroy gekk ekki með veggjum á meðan hann beið eftir að mál hans yrði tekið fyrir að nýju. Aldeilis ekki. Hann ákvað að fagna sigrinum sínum með því að hrella Bowenkamp að nýju. Hann mætti vopnaður riffli og byssusting á næsta bar. Þar hótaði hann að ganga endanlega frá gamla manninum.
„Við vorum svo bitur og reið að réttarvörslukerfið hefði brugðist okkur algjörlega að það varð til þess að einhver ákvað að taka málin í eigin hendur,“ sagði dóttir Bowencamp, Cheryl, í viðtali.
Skidmore boðaði til íbúafundar þetta sama kvöld. Það er að segja íbúafundar án McElroy. Þar ákvað bærinn að slá sig sig til réttlætisriddara. Þau ætluðu að ráða McElroy af dögum. Sagan segir að jafnvel bæjarstjórinn sjálfur hafi verið viðstaddur og tekið undir þessi örþrifaráð.
Degi síðar lét McElroy lífið. Þetta var sólríkur sumardagur í júlí. McElroy var að setjast upp í pallbílinn sinn með eiginkonu sinni, Trenu, á fjölförnustu götunni í bænum þegar múgur af um 30-50 íbúum mætti á svæðið. Skotum var hleypt af, og tvö þeirra hæfu McElroy þar sem hann sat í bíl sínum. Enginn hringdi í Neyðarlínuna.
Lesandi gæti haldið að það yrði leikur einn að ráða ráðgátuna um hver banaði McElroy, enda tugir vitna á svæðinu. En lesanda skjátlast þá hrapalega. Öll vitnin, fyrir utan Trenu, sóru þess eið að hafa ekki séð hver hleypti af. Saksóknari neitaði að gefa út ákærðu og rannsókn lögreglu bar engan árangur þar sem enginn samþykkti að bera vitni. Jafnvel alríkislögreglan mætti á svæðið til að liðsinna rannsókninni, en áfram þögðu bæjarbúar.
„Ég heyrði skothvelli og kastaði mér í jörðina. Sá ekki baun,“ sögðu íbúar.
„Þegar öllu var lokið hófst þagnarbindindið. Enginn ætlaði að segja orð,“ sagði Cheryl síðar.
Rúmum 40 árum síðar hefur enn enginn játað verknaðinn eða gefið sig fram sem vitni. Nánast enginn saknaði hrottans. Nema kannski eiginkona hans og börn. Trena taldi sig vita hver myrti mann hennar, en sá var aldrei ákærður. Svo fór að gerð var dómsátt þar sem Trena fékk greiddar út minniháttar skaðabætur án þess að nokkur gengist við sök.
Það er þó óskiljanlegt að Trena hafi ekki fagnað andlátinu meðbæjarbúum. McElroy hafði byrjað að sitja um hana þegar hún var aðeins 12 ára að aldri. Hann nauðgaði henni ítrekað, kveikti í heimili hennar, skaut hundinn hennar og þvingaði svo foreldra hennar til að samþykkja að hann giftist henni til að sleppa undan saksókn. Hún var á þeim tíma 14 ára gömul og þunguð eftir enn eina nauðgunina.
Það er varla rómantískt bónorð þegar vonbiðillinn sleppir því að fara á skeljarnar heldur drepur hundinn þinn og kveikir í heimilinu þínu.
Trena var þriðja eiginkona McElroy og alls átti hann 10 börn. Hann beitti allar þrjár eiginkonur sínar ofbeldi og pyntingum
„Það voru feður og afar á götunni í Skidmore þennan dag. Venjulegt og vinnusamt fólk. Þau gerðu það sem þau gerðu því við höfðum ekki staðið okkur. Síðan sneru þau heim og héldu kjafti og hafa haldið honum öll þessi ár,“ sagði lögreglumaður í Skidmore mörgum árum síðar og bætti við að hann hefði fullan skilning á því hvað varð til þess að bærinn gerði það sem hann gerði.
Það fór því eins og verjandi McElroy sagði í viðtali síðar: Ég veit hvers vegna enginn steig fram. Þau voru fegin að hann væri dauður. Bærinn komst upp með morð.