Þetta er niðurstaða nýrrar danskrar rannsóknar sem var nýlega birt í vísindaritinu BMJ. Information skýrir frá þessu.
Amani Meaidi, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði í samtali við TV2 að ákveðið hafi verið að rannsaka íbúfen því það sé verkjalyf sem konur nota oft samhliða getnaðarvarnarpillunni. „Margar taka við tannpínu, höfuðverk og blæðingaverkjum. Af þeim sökum er mikilvægt að vita að það eykur líkurnar á blóðtappa mikið,“ sagði hún.
Í rannsókninni var notast við upplýsingar um rúmlega tvær milljónir danskra kvenna á aldrinum 15 til 49 ára. Áhrif notkunar íbúfens og diclofenac á konurnar voru rannsökuð.
Af þeim konum, sem ekki notuðu getnaðarvarnarpilluna, fengu 2 af hverjum 100.000 blóðtappa í vikunni eftir að þær tóku verkjalyf. Hjá konum sem nota getnaðarvarnarpillur eru líkurnar á að þetta gerist 4 á móti 100.000.
En ef þær nota einnig verkjalyf eru líkurnar 23 á móti 100.000 samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.
„Við sjáum sem sagt, að líkurnar á blóðtappa eru mun hærri ef þú notar íbúfen og getnaðarvarnarpillum samtímis,“ sagði Meaidi sem sagði að ekki sé tilefni til að hætta að nota getnaðarvarnarpillur vegna þessarar niðurstöðu. Líkurnar á blóðtappa séu mjög litlar hjá heilbrigðum konum, einnig hjá þeim sem nota getnaðarvarnarpillur og verkjalyf.