Kindahjörð ein, sem átti í erfiðleikum með að finna sér ferskt gras í kjölfar flóðanna, fór að hegða sér undarlega eftir að hafa étið stóran hluta af kannabisuppskeru sem hjörðin fann þegar hún komst inn í gróðurhús þar sem kannabis er framleitt til notkunar í lyfjum.
Eigandi kannabissins sagði að uppskeran hafi orðið fyrir miklu tjóni í hitabylgju í sumar og vegna óveðursins Daniel. Kindurnar hafi síðan étið það „sem eftir var“. Sky News skýrir frá þessu.
Hjörðin var á beit á sléttum Thessaly í miðhluta Grikklands. Það flæddi yfir slétturnar í flóðunum og þá tóku kindurnar það til ráðs að stefna á gróðurhús nærri bænum Almyros. Þar komust þær í 100 kg af kannabis og átu það.
Fjárhirðir tók síðan eftir undarlegri hegðun dýranna eftir að þau átu kannabisið.