Það er fátt verra en að valda foreldrum sínum vonbrigðum. Samanber skelfilega setningin sem enginn vill heyra frá foreldri sínu: Ég er ekki reitt, ég er vonsvikið. Kona nokkur í Ohio brást þó ókvæða við þegar móðir hennar komst að leyndarmálinu.
Þann 3. mars árið 2020 réðst hin 19 ára Sydney Powell á móður sína Brendu vopnuð járnpönnu og hníf. Hún barði móður sína fyrst í höfuðið með pönnunni og því næst stakk hún hníf á bólakaf í háls hennar hátt í þrjátíu sinnum. En hvers vegna átti þessi hryllingur sér stað?
Sydney var háskólanemi, en hafði verið rekin úr skólanum og ekki haft kjarkinn til að segja móður sinni frá því. Þetta örlagaríka kvöld var móðir hennar í símanum að ræða við skrifstofu háskólans og var við það að komast að hinu sanna. Við þetta er talið að Sydney hafi farið í geðrof, en hún glímir við geðklofa. Hún hafi því í örvæntingu reynt að koma í veg fyrir að móðir hennar yrði vonsvikin og hafi því farið sem fór og Sydney óvart banað móður sinni, sem hafi verið hennar besta vinkona. Hún hafi ekki verið sakhæf á verknaðarstund. Eða því héldu verjendur Sydney fram.
Geðlæknir sem ákæruvaldið leiddi fram fyrir dómi var þó ósammála. Taldi sá að Sydney hafi verið fullfær um að skilja alvarleika gjörða sinna. Hún glímdi vissulega við andleg veikindi, þar á meðal jaðarpersónuleikaröskun, mótþróaröskun og kvíðaröskun. Ákæruvaldið fór fram á að kviðdómi yrði fengið að fella dóm sinn í málinu, þvert gegn óskum Sydney, föður hennar og ömmu, en fjölskylda Sydney vildi að málið yrði útkljáð án réttarhalda með dómsátt.
„Sydney lét af árás sinni með pönnunni, fór þá inn í eldhús með hníf. Hún þurfti að skipta um vopn og hélt svo áfram að ráðast á móður sína,“ sagði saksóknari og bætti við að Sydney hafi banað móður sinni svo ekki kæmist upp um leyndarmálið – að hún hefði verið rekin úr skólanum. Árásin hafi verið ofsafengin og ljóst að Sydney hafi haft ásetning að bana móður sinni.
Kviðdómur taldi Sydney seka og sakhæfa, en Sydney hágrét er niðurstaðan var lesin upp á miðvikudaginn fyrir viku síðan. Hún á því yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.