fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Pressan

Prófessor, njósnari, hryðjuverkamaður og morðingi

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 19. ágúst 2023 22:00

Erich Muenter eftir að hann var handtekinn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erich Muenter fæddist í bænum Uelzen í norðurhluta Þýskalands árið 1871. Fáum sögum fer af lífi hans þar til hann fylgdi foreldrum sínum vestur um haf 1889 en fjölskyldan settist að í borg vindanna, Chicago.

Þótt hann væri fluttur til Bandaríkjanna var Muenter enn mikill Þjóðverji í hjarta sínu og talaði ensku með þýskum hreim. Hann ætlaði sér sannarlega ekki að gleyma uppruna sínum og lagði stund á háskólanám í þýsku og þýskum bókmenntum. Hann útskrifaðist frá Chicago-háskóla árið 1900 og er sagður í kjölfarið hafa lokið doktorsprófi frá hinum virta Harvard-háskóla 1906. Heimildum ber þó ekki saman um hvort hann lauk því.

Muenter fékk hins vegar um þetta leyti starf við þýskukennslu í Harvard sem bendir til að hann hafi sannarlega lokið doktorsprófi. Það kemur hins vegar ekki fram í heimildum hvaða starfstitil hann bar í starfi sínu hjá Harvard. Hann var hins vegar ekki langlífur í því starfi.

Muenter mun á þessum tíma hafa verið heillaður af hugmyndinni um hinn fullkomna glæp og ákvað að prófa hana á manneskju sem var honum nákomin. Hann hafði gifst konu að nafni Leona Krembs og vorið 1906 gekk hún með barn þeirra. Erich Muenter ákvað að eitra fyrir konu sinni smám saman með litlum skömmtum af arseniki en skammtarnir urðu á endanum nógu margir til að draga hana til dauða.

Leona var krufin og við það uppgötvaðist hver dánarorsök hennar var. Handtökuskipun var gefin út á hendur Erich Muenter en hann náði hins vegar að flýja. Á upphafsdögum flóttans sendi hann fjölskyldu konu sinnar mótmælabréf þar sem sagðist mundu, ef hann gæti, sprengja Chicago og Cambridge í Massachusetts (þar sem Harvard er staðsettur) í loft upp vegna þeirra ásakana að hann hefði eitrað fyrir konu sinni. Hann bætti því við að hann óttaðist þær refsingar sem kristnir vísindamenn, sem höfnuðu læknismeðferð, myndu verða fyrir.

Gerist njósnari og hermdarverkamaður

Næsta áratuginn, tæplega, flakkaði Erich Muenter milli ýmissa staða í Bandaríkjunum og Mexíkó undir ýmsum dulnefnum sem voru mörg hver frekar lík hans eigin nafni. Meðal dulnefnanna voru Erich Münter, Eric Muenter og Erich Holt.

Þýsk þjóðerniskennd hans efldist sífellt á meðan flakkinu stóð. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út í Evrópu var hann ólmur í að koma Þýskalandi til hjálpar og sá fyrir sér að hann gæti framið skemmdarverk eða gert árásir til að koma í veg fyrir flutning vopna frá Bandaríkjunum til helstu óvina Þýskalands í styrjöldinni, Bretlands og Frakklands. Hann mátti heldur ekki til þess hugsa að Bandaríkin myndu blanda sér með beinum hætti í styrjöldina og koma Bretum og Frökkum til hjálpar.

Muenter mun hafa komið sér í samband við útsendara Abteilung IIIb, sem í þá daga var hluti af leyniþjónustu þýska hersins, í Bandaríkjunum og boðist til að vinna fyrir stofnunina skemmdarverk sem gagnast gætu Þýskalandi í yfirstandandi hernaðarátökum. Heimildum ber hins vegar ekki saman um hvort að því boði var tekið.

Hverju sem því líður skaut Muenter upp á yfirborðið ekki löngu síðar í Texas-ríki og þá undir nafninu Frank Holt. Hann fékk fljótt starf við kennslu í háskóla og vann sig hratt upp í starf prófessors við hinn virta Cornell-háskóla í New York-ríki en eins og með starfið við Harvard sinnti hann því ekki lengi. Sumarið 1915 framdi Erich Muenter fyrstu sprengjuárásina sína í Bandaríkjunum og miðað við hvert skotmarkið var er líklega vart fjarri lagi að kalla hana hryðjuverkaárás.

Fyrsta skotmarkið var mjög áberandi

Að kvöldi 2. júlí 1915 gekk Erich Muenter inn í þinghús Bandaríkjanna í höfuðborg landsins, Washington D.C. Öryggisgæsla virðist hafa verið ansi lítil við húsið fyrst hann gat svo auðveldlega komist inn. Hann var með á sér þrjár dínamít-stangir og á þeim var tímastillir og í raun má því segja að hann hafi haft sprengju meðferðis. Muenter hafði hugsað sér að koma þessari sprengju fyrir í þingsal Öldungadeildarinnar (e. Senate) en þegar hann reyndist vera læstur voru góð ráð dýr.

Hann afréð að koma sprengjunni fyrir í móttökuherbergi Öldungadeildarinnar og flúði síðan vettvang. Sprengjan sprakk um tuttugu mínútum fyrir miðnætti og olli töluverðum skemmdum, meðal annars á þingsalnum, en enginn slasaðist eða lést.

Muenter sendi bréf til dagblaðs í borginni undir dulnefninu R. Pearce. Í bréfinu sagðist hann hafa framið árásina til að kalla eftir friði í yfirstandandi styrjöld í Evrópu og til að yfirgnæfa þær raddir sem kölluðu eftir því að blásið yrði meira í glæður stríðsbálsins. Sumir sagnfræðingar telja að árásin, sem og aðrar árásir sem Muenter stóð fyrir, hafi verið framin að undirlagi Abteilung IIIb. Því neitaði stofnunin og Muenter neitaði alla tíð að hann starfaði fyrir hana en hann er þó sagður hafa gefið annað í skyn í einhver skipti.

Eftir að hann kom sprengjunni fyrir í þinghúsinu flúði Muenter beint til New York borgar og kom fyrir annarri sprengju í gufuskipinu SS Minnehaha. Um borð í skipinu var talsvert magn af vopnum sem stóð til að sigla með til Bretlands. Sprengjan var sömu gerðar og leyniþjónusta þýska hersins hafði áður notað til að valda skemmdum á vopnasendingum sem fluttar voru til óvina Þýskalands í fyrri heimsstyrjöldinni.

Sprengjan var í meginatriðum hönnuð þannig að kopardiski, sem hægt var að hafa misþykkan, var komið fyrir milli tveggja hylkja sem voru full af sitthvorri tegundinni af sýru. Þegar sýran hafði náð að éta sig í gegnum diskinn, sitt hvoru meginn, varð blöndun sem olli íkveikju og markmiðið var að eldurinn myndi læsa sig í vopnin og þannig eyðileggja þau.

Nokkrum dögum síðar olli einmitt sprengjan um borð í Minnehaha íkveikju, þegar það var á siglingu yfir Atlantshafið, en Muenter hafði ekki komið henni fyrir nógu nálægt vopnunum og eldurinn náði þar með ekki til þeirra. Skemmdir, af völdum eldsins, á skipinu reyndust á endanum minniháttar.

Skotmark úr frægri og auðugri fjölskyldu

Muenter var ekki mikið fyrir að taka hlé á milli árása. Að morgni 3. júlí 1915 tók hann lest til bæjarins Glen Cove, í nágrenni New York-borgar, og síðan leigubíl að heimili J.P Morgan Jr. en hann var sonur J.P. Morgan og hafði tekið við stjórn samnefnds fjárfestingabanka fjölskyldunnar eftir dauða föður síns.

Rekstur bankans hafði gert fjölskylduna vellauðuga en Muenter var einkum uppsigað við J.P. Morgan Jr. vegna þess að sá síðarnefndi hafði haft milligöngu um vopnakaup í Bandaríkjunum fyrir hönd ríkisstjórna Bretlands og Frakkands, auk þess að útvega þeim lán til að fjármagna stríðsreksturinn gegn Þýskalandi. Þetta gerði bankamaðurinn sannarlega ekki ókeypis og það reitti Muenter til enn frekari reiði.

Muenter hringdi dyrabjöllunni á heimili Morgan, vopnaður nokkrum stöngum af dínamíti og tveimur skammbyssum. Bryti fjölskyldunnar kom til dyra en neitaði að hleypa Muenter þegar hann vildi ekki skýra frá erindi sínu. Dró Muenter þá upp byssurnar og hljóp inn í húsið.

Hann ógnaði börnum Morgan með byssunum og kallaði á hann. Muenter ætlaði sér að fara upp á aðra hæð hússins en í stiganum reyndi eiginkona Morgan að hefta för hans. Húsbóndinn var þó ekkert smeykur við Muenter og faldi sig ekki heldur stökk á hann og náði að koma þessum óboðna gesti í gólfið. Í átökunum náði Muenter að skjóta tveimur skotum í annars vegar nára og hins vegar læri Morgan.

Skotin náðu þó ekki að særa Morgan það alvarlega að hann lægi óvígur eftir. Hann náði að halda Muenter föstum og ná annarri byssunni af honum en eiginkonan og starfsfólk hjónanna náðu hinni.

Muenter sá að hann var sigraður og grátbað nærstadda um að drepa sig svo hann þyrfti ekki að þola frekari þjáningar vegna yfirstandandi stríðs í Evrópu. Bryti Morgan barði Muenter hins vegar með kolamola þar til hann varð alveg óvígur. Hringt var á lögreglu sem kom og handtók hinn óboðna gest en Morgan náði fullum bata á nokkrum vikum.

Umdeildur dauðdagi

Muenter neitaði í fyrstu að segja lögreglu til nafns en henni bárust fljótt upplýsingar um hvern var að ræða og að hann væri eftirlýstur í Massachusetts fyrir morðið á eiginkonu sinni árið 1906.

Við yfirheyrslur sagðist hann fyrst aðeins vera sannkristinn maður sem ætlaði að reyna að sannfæra J.P. Morgan Jr. um að beita áhrifum sínum til að stöðva stríðið. Síðan sagðist hann hafa ætlað sér að taka eiginkonu og börn Morgan í gíslingu til að neyða hann til að stöðva vopnasendingar til óvina Þýskalands. Á einhverjum tímapunkti er hann sagður hafa játað að hafa ætlað sér að myrða Morgan en heimildum ber ekki saman um það.

Lögreglunni tókst að tengja Muenter við sprengjuárásina á þinghúsið í Washington og fá hann til að viðurkenna að hann hefði staðið fyrir henni. Við rannsóknina fann lögregla einnig 134 stangir af dínamíti og ýmis konar efni til sprengjugerðar sem Muenter hafði komið fyrir í geymslu í New York. Að auki fundust þrjár sprengjur sem tilbúnar voru til notkunar.

Frekari upplýsingar fengust þó ekki úr ranni Erich Muenter því hann lést í haldi lögreglu þann 6. júlí. Hann fannst með mikla höfðuðáverka og áverka annars staðar á líkamanum. Heimildum ber ekki saman um hvernig dauða hans bar nákvæmlega að. Niðurstaða rannsóknar var að hann hefði framið sjálfsvíg. Í sumum heimildum kemur fram að gleymst hafi að læsa fangaklefa hans og hann í kjölfarið komist upp á þak byggingarinnar og stokkið niður af því, úr alls 15 metra hæð. Aðrar heimildir segja að hann hafi aðeins rétt svo komist út úr klefanum og náð að stökkva, með höfðuðið á undan, niður á gang fangelsisins, úr 6 metra hæð.

Sumir sem skoðað hafa málið segja að lögreglan hafi talið fyrst að launmorðingi hafi náð að læða sér inn í fangelsið og myrða Muenter.

Hvernig svo sem dauða hans bar að er þó víst að tryggt var að ekki yrði frekara framhald á rúmlega tveggja sólarhringa glæpa- og ofbeldisöldu Erich Muenter.

Hinn meinti njósnari, sem sagðist vera friðarsinni, var 44 ára gamall þegar hann lést 6. júlí 1915.

Erich Muenter var í raun marghliða maður. Hann reis hratt upp metorðastigann á hinum akademíska vettvangi en gerðist sekur um morð og árásir sem hann framdi með pólitísk markmið í huga og þar af leiðandi má færa rök fyrir því að hann hafi líka verið hryðjuverkamaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann
Pressan
Fyrir 2 dögum

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar
Pressan
Fyrir 3 dögum

5 leiðir til að minnast ástvina þinna um jólin

5 leiðir til að minnast ástvina þinna um jólin
Pressan
Fyrir 3 dögum

Svona getur þú gert örbylgjuofninn skínandi hreinan á nokkrum mínútum

Svona getur þú gert örbylgjuofninn skínandi hreinan á nokkrum mínútum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þess vegna á nætursvefninn ekki að vera undir sjö klukkustundum

Þess vegna á nætursvefninn ekki að vera undir sjö klukkustundum