Í nýrri rannsókn er sýnt fram á tengsl kóladrykkja og stærri eistna. Þannig að ef þú ert karlmaður og vilt gjarnan fá stærri eistu, þá er bara að skella nokkrum kóladrykkjum í sig.
Í þessu sambandi þurfa aðdáendur Coca-Cola og Pepsi-Cola ekki að takast á um hvor drykkur er betri til að fá stærri eistu því í rannsókninni kom í ljós að það skipti engu hvor drykkurinn var drukkinn.
Það voru vísindamenn við Northwest Minzu University í Kína sem gáfu fullorðnum karlmúsum Coca-Cola og Pepsi-Cola í tvær vikur. Niðurstöðurnar benda til að kynkirtlar músanna hafi stækkað á þessum tíma og magn testósteróns í líkama músanna jókst einnig.
Á fimmtán daga tímabili vigtuðu vísindamennirnir eistu músanna og tóku blóðsýni úr þeim til að mæla magn testósteróns.
Rannsóknin hefur verið birt í tímaritinu Acta Endocrinol. Í niðurstöðu hennar kemur fram að það geti stækkað eistun og aukið magn testósteróns að drekka kóladrykki.
En það þarf að drekka mikið magn til að áhrifanna fari að gæta.