The Guardian segir að talið sé að með tilkomu Oldowan verkfæra hafi menn náð mikilvægu stigi í þróun sinni og talið hafi verið að verkfærin hafi verið búin til af forfeðrum okkar nútímamanna.
En fyrrgreind verkfæri opna á spurningar um hver hafi gert þessi verkfæri, hvort það hafi verið Paranthropus en ekki nútímamenn. Þetta sagði Rick Potts, prófessor við Smithsonian National Museum of Natural History og einn aðalhöfunda rannsóknarinnar. Hann benti á að vísindamenn hafi fram að þessu talið að aðeins menn, forfeður okkar nútímamanna, hafi getað búið til steinverkfæri.
Á fundarstaðnum í Nyayanga í Keníu fundust einnig elstu þekktu ummerkin um að manntegund hafi borðað stór dýr. Þar fundust leifar að minnsta kosti þriggja stórra flóðhesta. Bein tveggja báru þess merki að þeim hefði verið slátrað. Einnig báru bein antilópu þess merki að kjöt hefði verið skorið af beinunum og bein mulin til að ná beinmergnum.
Rannsókn á 30 af verkfærunum sýnir að þau voru notuð til að skera, skrapa og berja dýr og plöntur. Þau eru frá því um 2 milljónum ára áður en menn lærðu að nota eld. Verkfærasmiðirnir hafa því væntanlega borðað kjötið af flóðhestunum og antilópunni hrátt.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Science.