Konan, sem er ensk, lærði væntanlega af þessu að sumu á maður bara að halda fyrir sjálfan sig.
Mirror segir að allt hafi þetta byrjað þegar hún sagði eiginmanni sínum frá „leyndarmáli“ sínu. Honum fannst það ógeðslegt og vildi ekki kannast við að hann gerði þetta þegar hann fer í sturtu.
Það sem konan sagði honum var að hún pissi oft í sturtunni. Þetta fannst eiginmanni hennar alls ekki í lagi.
Eftir langa umræðu um þetta ákvað konan að skrifa um þetta á Mumsnet, sem er vinsælasta breska síðan fyrir foreldra, til að sýna eiginmanninum fram á að það væri alvanalegt að fólk pissi í sturtu.
Hún stofnaði umræðuþráð undir fyrirsögninni „Þegar manni finnst í lagi að pissa í baði“.
Hún skrifaði síðan: „Ástkærum eiginmanni mínum finnst þetta ógeðslegt en mér finnst þetta í lagi. Heitt vatnið kallar fram þörf fyrir að pissa og ég nenni ekki að fara úr sturtunni, bleyta gólfið, þorna og svo framvegis. Þetta er gott fyrir umhverfið því ég slepp við að sturta niður og vatnið skolar þvaginu í burtu og þetta er bara þvag. Ég hélt að allir gerðu þetta.“
Ekki leið á löngu þar til fólk fór að láta heyra frá sér og konan sá fljótt að það er fjarri því að allir pissi í baði.
„Nei, þetta er slæm venja. Ég myndi ekki vera hrifinn ef maðurinn minn gerði þetta,“ skrifaði ein kona.
„Af hverju pissar þú ekki bara áður en þú ferð í bað? Þú verður að fyrirgefa en mér finnst þetta ógeðslegt,“ skrifaði önnur.
Miklar umræður sköpuðust um þetta og hvort sem fólk var með eða á móti þá voru allir með ákveðnar skoðanir á þessu.
„Ég finn alltaf þegar einhver er „sturtupissari“. Sturtuklefinn þeirra og baðherbergið lykta oft af þvagi eins og hlandskál, þið verðið að fyrirgefa en þetta er satt. Eini staðurinn þar sem þvag á heima er í klósettinu,“ skrifaði enn ein konan.