The Guardian segir að eggjahillur verslana hafi nánast verið tómar frá áramótum en þá tók bann við því að hafa hænur í búrum gildi.
Það var 2012 sem þáverandi ríkisstjórn ákvað að það skyldi verða óheimilt að halda hænur í búrum. Þá voru 86% varphæna í búrum. Í lok síðasta árs var hlutfallið komið niður í 10% og á nýársdag tók bann við því að halda hænur í búrum gildi.
Eggjaframleiðendur segja að þá vanti mörg hundruð þúsund hænur til að geta annað eftirspurn og segja að það geti tekið marga mánuði að ná jafnvægi á markaðnum á nýjan leik.
Skömmtum á eggjum og tómar hillur virðast hafa kveikt drauma hjá mörgum um að fara að halda hænur. Mikil aukning hefur orðið í leit á Internetinu með orðum sem tengjast hænum og hænsnahaldi.
Dýraverndarsamtökin SPCA hvetja landsmenn til að vera ekki að fá sér hænur nema þeir geti annast þær til langframa. Samtökin benda á að hænur geti lifað í áratug eða lengur en verpi kannski bara fyrstu tvö til þrjú árin og það geti liðið nokkrir mánuðir þar til þær byrja að verpa.