Berlingske skýrir frá þessu og segir að þetta komi fram í þeim hlutum skýrslunnar sem er hægt að lesa en hún er að stórum hluta ritskoðuð. Bandarísk stjórnvöld staðfestu við miðilinn að endurbætur verði gerðar á Thulestöðinni. Í yfirlýsingu frá bandaríska flughernum, sem Berlingske fékk hjá bandaríska sendiráðinu í Kaupmannahöfn, kemur fram að búnaður stöðvarinnar sé orðinn gamall. Að öðru leyti er ekki skýrt frá hvað stendur til að gera í herstöðinni.
Miðillinn segir að hvorki grænlenska stjórnin né danska þingið viti hvað Bandaríkjamenn ætla að gera. Samkvæmt samningi Bandaríkjanna, Grænlands og Danmerkur um Thulestöðina eiga bandarísk yfirvöld að ráðfæra sig við dönsk og grænlensk yfirvöld hvað varðar umtalsverðar breytingar á starfsemi bandaríska hersins á Grænlandi. Bandaríkin þurfa þó ekki að biðja um leyfi til breytinga.