Ekstra Bladet skýrir frá þessu. Haft er eftir Peter Sunde, hjá Bioscience hjá Árósaháskóla, að dánartíðni danskra úlfa sé „óútskýranlega há“. Hann sagði að engin föst skilgreining væri til um hvenær úlfur telst horfinn en þegar hann hafi ekki sést í langan tíma sé gengið út frá að hann sé horfinn.
„Við erum með þumalputtareglu sem segir að ef við finnum ekki ummerki um hann innan árs þá göngum við út frá að hann sé dauður.“
Gengið er út frá því að dýrin séu dauð frekar en að þau hafi farið til Þýskalands, sem er eina landið sem er landfast við Danmörku, þar sem ferðir þeirra væru skráðar.
Nú er talið að fimm fullorðnir úlfar og sex ylfingar séu í Danmörku. Stofninn er því frekar lítill og því er dánartíðnin óvenjulega há ef miðað er við að sjö dýr séu dauð.
Sunde sagðist telja líklegt að ólöglegar veiðar séu stundaðar á úlfum í Danmörku en þeir eru alfriðaðir. Upp hefur komist um eitt mál þar sem úlfur var drepinn og er það mál enn til meðferðar í dómskerfinu.