fbpx
Sunnudagur 15.september 2019  |
Pressan

Efasemdir Evrópubúa um bólusetningar stinga í augun

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 24. ágúst 2019 16:00

Illt í efni Vantrú foreldra á bólusetningum hefur aukist til muna. Mynd: Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Niðurstöður nýrrar rannsóknar valda mörgum miklum áhyggjum en í þessari rannsókn var afstaða fólks um allan heim til bólusetninga könnuð. Bólusetningar hafa verið töluvert í umræðunni í kjölfar mikils fjölda mislingasmits í Evrópu og Bandaríkjunum á undanförnum misserum. Samhliða þessari aukningu á smiti hefur vantrú fólks og efasemdir í garð bólusetninga aukist og hafa sérfræðingar áhyggjur af þessu. Ekki bætir úr skák að samfélagsmiðlar eru óspart notaðir til að ala á ótta og dreifa röngum og villandi upplýsingum um bólusetningar og meinta hættu sem er sögð stafa af þeim. Spilað er á tilfinningar en ekki staðreyndir og vantrú fólks í garð yfirvalda og sérfræðinga. Höfundar rannsóknarinnar segja að þetta séu helstu skýringarnar á af hverju vantrú og efasemdir í garð einnar áhrifamestu uppgötvunar læknavísindanna hafa aukist svo mikið, uppgötvunar sem hefur bjargað milljónum mannslífa í gegnum tíðina.

Rannsóknin náði til 140.000 manns í 160 ríkjum, þetta er því stærsta rannsókn sinnar tegundar. Í ljós kom að Evrópubúar eru fremstir í flokki þegar kemur að efasemdum í garð bólusetninga. Verst er ástandið í austurhluta álfunnar þar sem aðeins 40 prósent íbúa telja bólusetningar öruggar. Íbúar í fátækum Afríkuríkjum og hluta Asíu hafa hins vegar miklu meiri trú á bólusetningum og láta bólusetja sig og börn sín. Í austanverðri Afríku og Suðaustur-Asíu sögðust 92 og 95 prósent aðspurðra telja bólusetningar væru öruggar.

Evrópska þversögnin

Rannsóknin var gerð fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina WHO. Niðurstöður hennar sýna að mikill munur er á afstöðu fólks til bólusetninga á milli heimshluta. Stóra myndin er þó að efasemdir um bólusetningar fari vaxandi í þeim ríkjum þar sem meðaltekjur eru háar. Þetta veldur sérfræðingum áhyggjum. Áður fyrr létu foreldrar bólusetja börn sín án þess að hugsa neitt frekar út í það, en nú hefur ákveðnum efasemdum verið sáð og fólk setur frekar spurningarmerki við hlutina. Finnst mörgum ákveðin þversögn í að í Evrópu, heimsálfunni þar sem menntunarstig og lífsskilyrði eru best, séu efasemdirnar mestar.

Bent hefur verið á að hér skipti ungar mæður miklu máli. Þær séu fullar sjálfstrausts og hafi miklu meira aðgengi að upplýsingum en fyrri kynslóðir og vilji sjálfar taka ákvarðanir. Þá séu bóluefnin fleiri en áður og því margt sem þurfi að taka afstöðu til. Á undanförnum misserum hefur mikil umræða átt sér stað í ríkjum á borð við Japan, Írland og Danmörku um hvort hpv-bóluefnið, sem ungar stúlkur geta fengið gegn leghálskrabbameini, sé hættulaust. Í Danmörku var umræðan hávær og fyrirferðarmikil og varð um tíma til þess að bólusetningarhlutfallið var ansi lágt. Fregnir voru fluttar af stúlkum, sem höfðu fengið þessa bólusetningu og glímdu við erfið veikindi í kjölfarið. Ítarlegar rannsóknir voru gerðar á þessu og kom þá í ljós að stúlkurnar höfðu áður glímt við margs konar veikindi, bæði andleg og líkamleg, og að engin tengsl voru á milli bóluefnisins og veikinda þeirra. Eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir hefur bólusetningarhlutfallið aftur farið upp og er nú hátt og umræðan hefur lognast út af.

Í Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum hafa bólusetningar gegn mislingum verið kveikjan að heitum umræðum og vaxandi vantrú foreldra á þeim og hefur þeim fjölgað sem ekki vilja láta bólusetja börn sín. Á Ítalíu er sömu sögu að segja. Þar hafa andstæðingar bólusetninga rekið harðan áróður á undanförnum árum og hafa sérstaklega notað þá sögu að bóluefnin gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt auki hættuna á einhverfu hjá börnum. Í Bandaríkjunum hefur Donald Trump forseti lagt sitt af mörkum til að styðja þessa sögu. Hún hefur lengi verið á kreiki en hefur ítrekað verið afsönnuð með vísindarannsóknum en samt sem áður virðist hún eiga góðan hljómgrunn hjá stórum hópi fólks.

Faraldur Á heimsvísu skráði WHO 136.000 andlát af völdum mislinga á síðasta ári. Mynd: Getty Images

Samfélagsmiðlar óspart notaðir

Samfélagsmiðlar ná til margra og þetta vita andstæðingar bólusetninga og notfæra þeir sér samfélagsmiðla óspart til að dreifa áróðri sínum og skipta staðreyndir og sannleikur ekki alltaf öllu máli. Auðvelt er að dreifa villandi upplýsingum á samfélagsmiðlum og margir virðast taka við öllu sem þar er sett fram sem heilögum sannleika, enda er hinni hlið málsins, þeirri vísindalegu, ekki komið á framfæri um leið. Þá hefur verið nefnt að vaxandi vantraust fólks í garð yfirvalda og sérfræðinga eigi sinn þátt í að fleiri efist um gagnsemi bólusetningar.

Rannsóknin leiddi í ljós að í heildina eru 8 af hverjum 10 þeirrar skoðunar að bóluefni séu örugg. Það að fólk hafi vantrú á bólusetningu þýðir ekki endilega að þeir láti ekki bólusetja börnin sín. Um 92 prósent aðspurðra sögðu að börn þeirra væru bólusett.

Minnsta trúin á bólusetningum er í Frakklandi, en þriðji hver Frakki ber brigður á að bóluefni séu örugg og 19 prósent telja að þau hafi ekki áhrif. Bent hefur verið á að í raun og veru séu ekki margir sem séu algjörlega á móti bóluefnum en hinir sömu vilji bara sjá fleiri vísindalegar sannanir og fá fleiri útskýringar.
Fyrir tveimur árum voru sett lög á Ítalíu sem kveða á um að börn megi ekki sækja opinbera leikskóla eða skóla ef þau hafa ekki fengið bólusetningar gegn 10 tilgreindum sjúkdómum, þar á meðal mislingum. Ef ekki er búið að bólusetja börn þegar þau ná sex ára aldri er hægt að sekta foreldra þeirra. Lögin voru sett í kjölfar mikillar fjölgunar mislingatilfella í landinu.

Í ársbyrjun 2018 tóku ný lög gildi í Frakklandi en þau kveða á um að áður en börn ná tveggja ára aldri eigi þau að hafa fengið 11 bólusetningar en þær voru þrjár áður. Þetta var einnig gert til að draga úr fjölda mislingatilfella.

Minnsta trúin Þriðji hver Frakki er því ósammála að bóluefni séu örugg. Mynd: Pixabay

Ákveðin ógn við lýðheilsu um allan heim

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum á undanförnum mánuðum hefur tilfellum mislingasmits fjölgað mikið í Evrópu og hafa tilfellin ekki verið fleiri í 20 ár. Auknar efasemdir um bólusetningar eru nefndar sem ein af aðalástæðunum fyrir þessari neikvæðu þróun. Á síðasta ári voru tilfellin þrefalt fleiri en árið á undan eða rúmlega 82.000 skráð tilfelli og 72 létust. Þróunin hefur haldið áfram það sem af er þessu ári og er fjöldi smits nú orðinn álíka og allt árið í fyrra. Sama þróun á sér stað í Bandaríkjunum.

Á heimsvísu skráði WHO 136.000 andlát af völdum mislinga á síðasta ári, þar af voru mörg börn. Einna stærstu faraldrarnir voru í Bandaríkjunum, Úkraínu og á Filippseyjum.

Í fátækum ríkjum á borð við Afganistan og Pakistan hefur það hægt á tilraunum til að útrýma lömunarveiki að ósannur orðrómur er á kreiki um bóluefnin og hafa margir neitað bólusetningum vegna þess.

WHO hefur lýst því, sem stofnunin segir vera „bólusetningarhik“, sem einni af tíu stærstu ógnunum sem steðja að lýðheilsu fólks um allan heim á þessu ári. Þetta ógni þeim árangri og framförum sem hafa náðst í baráttunni við sjúkdóma sem er hægt að bólusetja gegn. WHO segir að bóluefni séu ein hagkvæmasta leiðin til að forðast sjúkdóma og komi í veg fyrir 2 til 3 milljónir dauðsfalla á ári hverju á heimsvísu. Hægt væri að koma í veg fyrir dauða 15 milljóna manna til viðbótar ef fleiri létu bólusetja sig. Til að bólusetningar geri sem allra mest gagn þurfa 90 til 95 prósent fólks að vera bólusett en þá næst hjarðvernd og komið er í veg fyrir faraldra. Þetta verndar einnig þá sem ekki eru bólusettir en sumir geta ekki fengið bólusetningar, til dæmis vegna aldurs eða veikburða ónæmiskerfis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fyrir 2 dögum

Rigningin hefur haft sitt að segja

Rigningin hefur haft sitt að segja
Pressan
Fyrir 2 dögum

Viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína hefur mikil áhrif

Viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína hefur mikil áhrif
Pressan
Fyrir 3 dögum

Maria lést í umferðarslysi – Faðir hennar kom fyrstur á vettvang sem sjúkraflutningamaður

Maria lést í umferðarslysi – Faðir hennar kom fyrstur á vettvang sem sjúkraflutningamaður
Pressan
Fyrir 3 dögum

Drepin af hundum sínum

Drepin af hundum sínum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fékk skelfilegar fréttir þegar hann vaknaði eftir slysið – Ekki keyra undir áhrifum

Fékk skelfilegar fréttir þegar hann vaknaði eftir slysið – Ekki keyra undir áhrifum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Gengur illa að leigja nýjar íbúðir út – Bjóða ókeypis leigu fyrstu þrjá mánuðina

Gengur illa að leigja nýjar íbúðir út – Bjóða ókeypis leigu fyrstu þrjá mánuðina