fbpx
Mánudagur 28.nóvember 2022
Kynning

Draumsýn sem er orðin að veruleika: Því það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Kynning
Ritstjórn DV
Mánudaginn 26. september 2022 09:28

Alda Páls (t.v.) og Sólveig Kristín Björgólfsdóttir (t.h.) eru hér í Fjölskyldulandi, þar sem Þorpið er með hluta af starfsemi sinni. DV/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorpið – Tengslasetur er stöðugur vettvangur sem heldur utan um fjölbreytta og skemmtilega þjónustu fyrir fjölskyldur.

„Í heildina erum við um 30 manna hópur sem bjóðum upp á opna tíma í stundatöflu, viðburði og námskeið og sérsniðna þjónustu sem öll hefur það að markmiði að efla tengsl við sjálfan sig, aðra og umhverfið,“ segir Alda Pálsdóttir, annar stofnenda Þorpsins, ásamt Sólveigu Kristínu Björgólfsdóttur.

Þorpið er fyrir allar fjölskyldur, þau sem eru að huga að barneignum, á meðgöngu, í fæðingarorlofi og þau sem velja að annast umönnun barna sinna í auknum mæli fyrstu árin. Einnig er það fyrir foreldra sem vilja hafa börnin sín styttri daga á leikskóla og fyrir fyrir ömmur og afa sem verja tíma með barnabörnunum. „Þorpið er staður þar sem fjölskyldur geta komið saman og styrkt tengsl við sjálfa sig, börnin sín, aðrar fjölskyldur og umhverfi sitt. Þar sem fjölskyldur geta notið sín saman, fengið faglegan stuðning sem og jafningjastuðning, án þess að eitthvað þurfi að vera að, og umfram allt að geta komið saman og haft gaman,“ segir Sólveig.

Það þarf heilt þorp

Þorpið var stofnað á fallegum haustdegi fyrir ári síðan. „Við höfum báðar upplifað, eins og svo mörg, að þurfa aukinn stuðning í hinu margslungna hlutverki sem foreldrahlutverkið er í þeirri samfélagsgerð sem við búum í. Hvorug okkar óskar nokkrum að standa einn og óstuddur á þessum mikilvæga tíma. Líðan foreldra skiptir sköpum til að geta búið börnum sínum heillavænlegt umhverfi. Sem menntaðir iðjuþjálfar og eftir störf á geðsviði varð okkur ljóst hversu miklu máli tengsl í frumbernsku skipta og vildum leggja okkar á vogarskálarnar til þess að byrgja brunninn áður en nokkur dettur ofan í hann,“ segir Alda.

„Það er engum er ætlað að ala upp barn einn, það er ekki einu sinni tveggja manna verk. Áður fyrr var það raunverulegt þorp sem kom að umönnun og uppeldi barna. Samfélög studdu við fjölskyldueininguna á þessum viðkvæmustu árum en forvarnargildi þess er enn ótvírætt. Þorpið var því meðal annars stofnað til að vera samastaður og stöðugur vettvangur sem fjölskyldur geta treyst á, fengið stuðning fagaðila og jafningja þó að ekkert sé að nema daglegt amstur,“ segir Sólveig.

„Þorpið var ennfremur stofnað til að fjölskyldur hefðu raunverulega valkosti um hvernig þær annast börn sín og ef þær kjósi að forgangsraða tengslum, hafi þær val um það. Fæðingarorlofið hefur verið að lengjast en almenn þjónusta á því tímabili hefur verið af skornum skammti. Þetta er þó einmitt sá tími sem foreldrar þurfa hvað mestan stuðning. Þorpinu er einnig ætlað að koma til móts við þann stækkandi hóp foreldra sem kýs að vera lengur í fæðingarorlofi,“ segir Sólveig.

„Þorpið var stofnað því við þurfum á því að halda, við viljum lifa lífi og búa í samfélagi sem metur virði þess hlúa vel að og gera vel við fjölskyldur, án þess að vera í kapphlaupi við tímann. Enginn hefur á dánarbeðinu óskað sér að hafa unnið meira eða að vera meira frá fjölskyldunni,“ bætir Alda við.

Hófst sem draumsýn

„Þorpið hófst sem draumsýn í fæðingarorlofi. Við tókum þátt í samkeppnum og vorum meðal annars í topp 4 í Snjallræði árið 2020. Þar þróuðum við hugmyndina áfram. Svo fóru svo hjólin að snúast og við kynntumst fjölskyldum og fagaðilum sem hafa svipaða sýn. Okkur fannst galið að það væri ekki meira talað fyrir stuðningi við fjölskyldur fyrstu árin þar sem fræði og þarfir foreldra haldast í hendur. Því stofnuðum við hagsmunafélagið FyrstuFimm, til þess að auka umræðuna í samfélaginu um mikilvægi tengsla og áhrifa þeirra í frumbernsku,“ segir Sólveig.

„Undanfarið höfum við verið að gæða Þorpið lífi, hittast með börnunum okkar, deila ástríðu og út frá því var Co-Creator samfélagið stofnað og hefur vaxið og dafnað,“ segir Alda.

Þorpið á tveimur stöðum og fjölbreytt þjónusta

Þorpið – Tengslasetur ser staðsett á tveimur stöðum, annars vegar í Fjölskyldulandi og hinsvegar í Sólum. „Í vor fengum við það frábæra tækifæri að taka þátt í uppbyggingu Fjölskyldulands og fórum í hópsöfnun á Karolinafund sem gekk vonum framar. Aldrei fyrr í sögu KarolinaFund hefur safnast jafn há upphæð á jafn stuttum tíma sem gefur okkur byr undir báða vængi og styður við það sem við vitum, að foreldrar eru að kalla eftir þjónustu sem þessari,“ segir Alda.

„Á meðan við vorum að bíða eftir að Fjölskylduland gæti opnað bauðst okkur að vera í Sólum jógastúdíó og við byrjum með foreldraaðhlynningu þar. Í í gegnum þetta ferðalag okkar höfum við komist að því að til þess að geta verið til staðar fyrir börnin okkar og aðra, þurfum við fyrst að vera til staðar fyrir sjálf okkur og hvaða staður er betri til að halda utan um þá þjónustu en nærandi umhverfi Sóla?“ segir Sólveig. Í Sólum er Þorpið hluti af Heilsuhöfninni, sem er samansafn af fyrirtækjum á Granda sem leggja áherslu á heilsu og velferð á einn eða annan hátt. Hægt er að kynnast Heilsuhöfninni betur á opnum degi 1. október þar sem Heilsuhöfnin kynnir þjónustu sína.

Hér má sjá fjölbreytta stundaskrá Þorpsins. Hana má einnig finna á vefsíðu þorpsins, tengslasetur.is.

Spennandi námskeið að hefjast

Alda og Sólveig segjast báðar ótrúlega spenntar fyrir námskeiðunum sem hefjast núna í byrjun október, Messy Play og Creative Family. „Þar kynnast börnin skynfærum sínum í gegnum ýmiss konar áferðir, hljóð og hreyfingu – án þess að foreldrar þurfi að taka til eftir það sjálfir,“ segir Alda.

„Í undirstöðuatriðum RIE er farið yfir þau fræði sem virðingaríkt uppeldi byggir á. Hver kannast ekki við að þurfa að grípa inn í þegar börn eru að rífast?

„Þú mátt ekki koma í afmælið mitt“ – Launsaleit með börnum er tilvalið námskeið fyrir foreldra þar sem kynnt eru þrepin sex til að leysa deilur,“ segir Sólveig.

„Svo er Embodiment Club að hefjast en námskeiðið styður fólk að koma þeirri þekkingu sem það býr yfir í framkvæmd. Hér er eitthvað fyrir alla, fyrir foreldra og börn saman, foreldra sér, hvort sem það er fræðsla eða annarskonar upplifun,“ segir Sólveig. Hægt er að kynna sér þjónustuna nánar  inn á heimasíðunni tengslasetur.is.

Er foreldrahlutverkið jaðarsport?

Hugmyndin að Þorpinu segja þær stöllur að komi frá bókum Sæunnar Kjartansdóttur, Árin sem enginn man og Fyrstu 1000 dagarnir. „Þar kemur fram að þeir aðilar, sem eru í flestum tilfellum best til þess fallnir að annast börn sín fyrstu tvö árin, eru foreldrar þeirra. Hér á Íslandi er það hins vegar talið nokkurs konar jaðarsport að hugsa og haga lífi sínu á þann hátt að annast ung börn umfram fæðingarorlofstímann, í stað þess að setja þau í hendur annarra. Hér á landi skortir stuðning og samfélag sem styður við þessa hugsjón eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar,“ segir Alda.

„Til dæmis á Norðurlöndunum eru opnir leikskólar algengir og foreldrum býðst oft og tíðum greiðslur fyrir að kjósa að annast börn sín sjálf. Í nágrannalöndum okkar er barnamenningu almennt gert hátt undir höfði með kaffihúsum og söfnum sem eru sérsniðin að börnum. Einnig eru til sérstakir innileikvellir fyrir börn sem og fjölskyldumiðstöðvar,“ segir Sólveig.

„Það er í raun engin ein erlend fyrirmynd, en við horfum til íslenskra iðjuþjálfa sem hafa stofnað brautryðjandi úrræði eins og Ljósið, Hugarafl og Hlutverkasetur. Þessi úrræði eru öll lágþröskuldaþjónusta sem þýðir að allir hafa greiðan aðgang að henni. Ljósið sérhæfir sig til dæmis í þörfum krabbameinsgreinda og Hugarafl og Hlutverkasetur horfa til þeirra sem eru að vinna í persónulegum bata eftir krísu.

Þorpinu er ætlað að styðja fjölskyldur á sinni vegferð á fyrirbyggjandi hátt og er því fyrsta stigs forvarnarúrræði með því að veita viðeigandi stuðning áður en vandi er kominn fram,“ segir Alda.

Óska eftir aðkomu ríkisins

Gesti Þorpsins segja þær Alda og Sólveig vera himinlifandi með þjónustuna. „Þeir viðburðir sem við höfum haldið hafa fengið mjög góðar viðtökur og mikil tilhlökkun ríkir meðal fylgjenda að loksins séum við að fara að veita þennan stöðuga vettvang til tengslaeflingar,“ segir Sólveig.

Þorpið er einkarekið að svo stöddu. „Við teljum þó eðlilegast að sveitarfélög og ríki niðurgreiði þjónustuna að hluta til eða að fullu. Sér í lagi í ljósi yfirgripsmikillar skýrslu og ráðstefnu sem haldin var þann 27. júni og bar yfirskriftina „First Thousand Days in the Nordic Countries; Supporting a Healthy Start in Life“. Þar kemur fram að við á Íslandi erum ekki með tærnar þar sem aðrar Norðurlandaþjóðir eru með hælana þegar kemur að stuðningi og úrræðum fyrir fjölskyldur frá meðgöngu og fyrstu tvö árin,“ segir Alda.

Yfirgripsmikil tengslaregnhlíf

Alda og Sólveig eru stofnendur Þorpsins og búa bæði að fjölbreyttri menntun og reynslu sem nýtist í rekstur Þorpsins. Alda er menntaður iðjuþjálfi og jógakennari og hefur unnið með breiðum hópi einstaklinga sem glíma við ólíkar áskoranir. Alda hefur í starfi sínu unnið með náttúrumeðferð og er einn af stofnendum samtaka um náttúrumeðferð á Íslandi sem og að hafa verið fulltrúi Íslands í norrænum samtökum um náttúrumeðferð.

Sólveig er menntaður iðjuþjálfi, hún hefur starfað við umönnun aldraðra og verið leiðbeinandi á leikskóla. Síðasta starf hennar var í Ljósinu endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda þar sem hún hefur unnið samhliða náminu.

„Co-Creators samfélagið er kjarni Þorpsins. Það eru þeir einstaklingar sem hafa svipaða sýn og trúa á heilbrigðara samfélag og vilja leggja sitt af mörkum fyrir þá hugsjón. Co-Creators móta stefnu Þorpsins og þjónustu þess og umfram allt eru þau sá hópur sem mun taka á móti fjölskyldum í Þorpinu. Það skemmtilega við þennan hóp er að við erum ólík og með ólík áhugasvið en allt fellur það undir þessa tengslaregnhlíf,“ segir Sólveig.

Nokkrar kraftmiklar konur úr Co-Creators hafa sýnt innri starfsemi Þorpsins mikinn áhuga og stuðning en þær ásamt okkur mynda Valkyrjuteymi Þorpsins og án þeirra væri Þorpið ekki það sem það er í dag. Takk fyrir allt Birta, Halldóra, Perla, Sara og Sibba,“ segir Alda.

Mótsvar við streitu

Þorpið – tengslasetur er mótsvar við þeirri miklu streitu sem einkennir samfélagið og hefur afgerandi áhrif á börn og fjölskyldur þeirra. „Tengsl og streita fara ekki saman, með því að efla tengsl drögum við úr streitu. Við viljum styðja við fjölskyldur svo þær þurfi ekki að vera heilt þorp. Einnig viljum við bæta það sem hefur verið ábótavant í samfélaginu, sem er skortur á almennri opinni þjónustu á stöðugum vettvangi sem fjölskyldur hafa greitt aðgengi að. Við viljum gera það að aðlaðandi valkosti að verja auknum tíma með ungum börnum sínum,“ segir Sólveig.

„Við erum tengslategund í grunninn og ein af okkar grunnþörfum er að tilheyra. En á sama tíma höfum við aldrei unnið jafn mikið og verið jafn lengi frá fólkinu okkar. Vistunartími íslenskra barna er sá lengsti sem þekkist í löndunum sem við berum okkur saman við og streituhormón eftir sex tíma leikskólavist eru meiri en góðu hófi gegnir,“ segir Alda.

„Við leggjum ennfremur mikla áherslu á að foreldrar geri sér grein fyrir og hlúi að eigin þörfum og löngunum samhliða foreldrahlutverkinu. Við horfum mikið til taugakerfisins og leitum leiða til þess að stilla það af. Þekkt er að börn styðjist við taugakerfi foreldra sinna til þess að koma sínu í jafnvægi. Einnig  bjóðum við upp á fjölbreytta og skemmtilega tíma þar sem bæði foreldrar og börn geta gleymt sér í leik, hvað er betra en leikur til að losa um spennu?“ spyr Sólveig.

Framtíð Þorpsins

„Við erum að fara af stað núna í október og áherslan er á að veita bestu þjónustu sem við getum veitt. Verið er að þróa ýmsa anga þeirrar þjónustu eins og fyrir þá sem eru í barneignarhugleiðingum, á meðgöngu og fyrir börn á grunnskólaaldri,“ segir Alda.

„Okkur langar líka að bjóða upp á Þorpið á landsbyggðinni og erum að þróa rafræna þjónustu til að geta veitt þessum hópi fólks frekari stuðning. Ef Covid kenndi okkur eitthvað að þá er það að við getum nýtt tæknina mun betur en við gerðum,“ segir Sólveig.

Alda og Sólveig hlakka til að taka á móti fjölskyldum í Þorpið í haust.

Þorpið fyrir allar fjölskyldur

„Þorpinu hefur alltaf verið ætlað að vera í  eigin húsnæði sem býður fjölskyldur velkomnar, nokkurs konar annað heimili, hvort sem þú ert að sækja þér þjónustu sem slíka eða bara upp á félagsskapinn. Ef einhver veit um aðstöðu sem er viðunandi fyrir starfsemina væri okkur kærkomið ef viðkomandi hefði samband á tengslasetur@tengslasetur.is,“ segir Alda að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
19.09.2022

Íslensk steinefni sem slegið hafa í gegn!

Íslensk steinefni sem slegið hafa í gegn!
Kynning
16.09.2022

Háklassa snyrtivörur á Boozt á enn betra verði

Háklassa snyrtivörur á Boozt á enn betra verði
Kynning
02.06.2022

Brimborg stærst í rafbílum í maí og stærst fyrstu fimm mánuði ársins

Brimborg stærst í rafbílum í maí og stærst fyrstu fimm mánuði ársins
Kynning
05.05.2022

Bauhaus fagnar 10 ára afmæli í dag!

Bauhaus fagnar 10 ára afmæli í dag!