fbpx
Sunnudagur 10.nóvember 2024

Banvæn barnagæsla – Hún hafði heyrt sönglandi rödd sem endurtók í sífellu: „Dreptu barnið“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 19. október 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Christine Falling fæddist árið 1963 í Flórída í Bandaríkjunum. Foreldrar hennar, Ann og Thomas Slaughter, voru fátækir og mikill aldursmunur á þeim, því Ann var 16 ára og Thomas 65 ára. Ann var yngri dóttir Slaughter-hjónanna en sökum örbirgðar voru þær báðar gefnar til ættleiðingar og féllu í skaut Falling-fjölskyldunnar.

Christine var seinþroska, glímdi stöðugt við offitu, fékk tíð flogaveikiköst og var bráðlynd og árásargjörn. Að sögn náði Christine aldrei meiri þroska en tólf ára barn.

Systurnar voru sífellt upp á kant við Falling-hjónin og enduðu að lokum á barnaheimili í Orlando. Þá var Christine níu ára.

Kattadráp

Eftir á að hyggja má leiða að því líkur að hægt hefði verið að sjá hvað framtíð Christine bæri í skauti sér. Hún gerði sér það til dundurs að fleygja köttum úr banvænni hæð, til að „sannreyna að þeir ættu níu líf“. Einnig átti Christine til að kyrkja ketti, til að sýna þeim „ást“ sína.

Christine drap ketti með ýmsum hætti í bernsku.

Tólf ára að aldri yfirgaf Christine barnaheimilið og tveimur árum síðar giftist hún 24 ára gömlum manni.

Skammlíft hjónaband

Hjónabandið stóð alla tíð, í heilar sex vikur, á brauðfótum vegna ofbeldisfullra átaka hjónanna og í eitt skipti henti Christine í eiginmann sinn níðþungum hljómflutningstækjum. Þá skildi leiðir.

Í kjölfarið varð Christine tíður gestur á sjúkrahúsum vegna ýmissa illgreinanlegra veikinda, sem læknar gátu sjaldnast hent reiður á og „læknað“. Hvað sem þeim veikindum leið var ljóst að andlega gekk Christine ekki heil til skógar, en gat sér þó gott orð sem afbragðs barnapía.

Ótrúverðug útskýring

Því varð úr að Christine sá sér farborða með því að gæta barna fyrir nágranna sína og fleira fólk.

Árið 1980 dró til tíðinda. Þann 28. febrúar dó tveggja ára stúlka, Cassidy Johnson, á sjúkrahúsi. Cassidy hafði verið í umsjá Christine og þremur dögum fyrr hafði hún verið flutt á sjúkrahús vegna gruns um alvarlega heilabólgu.

Christine Falling náði að sögn aldrei fullum þroska.

Krufning leiddi hins vegar í ljós að höfuðáverkar voru banamein Cassidy. Christine sagði að stúlkan hefði fallið úr vöggunni og lent á höfðinu. Útskýring Christine þótti ekki trúverðug, en ekki var hægt að færa sönnur á saknæmt athæfi og ekkert aðhafst frekar.

Frændum banað

Skömmu síðar flutti Christine til Lakeland í Flórída og hóf þar störf sem barnapía. Fjögurra ára drengur, Jeffrey Davis, var á meðal þeirra barna sem Christine gætti og um tveimur mánuðum eftir að Christine flutti til Lakeland dó Jeffrey í umsjá hennar; hætti að anda.

Krufning leiddi í ljós eitthvert hjartamein sem þó sjaldan leiðir til dauða, en dauði drengsins var ekki rannsakaður frekar.

Á meðan fjölskylda Jeffreys var viðstödd jarðarför hans var Christine fengin til að gæta tveggja ára frænda hans, Josephs Spring. Joseph dó í vöggu sinni síðdegis þann dag og skuldinni skellt á sýkingu af einhverju toga.

Gamalmenni deyr

Þegar þarna var komið við sögu fannst Christine tími til kominn að færa sig um set, sem hún og gerði. Hún flutti til Perry í Flórída og gerðist ráðskona á heimili 77 ára gamals manns, Wilburs Swindle.

Á fyrsta degi Christine í þessu nýja starfi tók Wilbur upp á því að hníga niður örendur í eldhúsinu. Þar sem Wilbur hafði ekki verið neitt unglamb, og heilsuveill í ofanálag vakti skyndilegur dauði hans engar grunsemdir. Því gat Christine snúið sér að öðru og gerði það þegar hún var samferða stjúpsystur sinni með átta mánaða frænku hennar til læknis vegna bólusetningar. Stjúpsystir Christine skaust inn í verslun og Christine sá um stúlkuna á meðan. Enn eitt barn hætti að anda.

Síðasta morðið

Það var ekki fyrr en ári síðar að lánið sneri baki við Christinu. Þá var tíu vikna drengur, Travis Coleman, í gæslu hjá Christine og hætti hann skyndilega að anda.

Christine komst ótrúlega lengi upp með barnamorð.

Krufning leiddi í ljós að Travis hafði verið kæfður og var Christine tekin hið snarasta til yfirheyrslu. Undanbragðalaust játaði Christine að hafa myrt þrjú börn með því að kæfa þau. Það hafði hún gert með því að halda teppi fyrir vitum þeirra því hún hafði heyrt sönglandi rödd sem endurtók í sífellu: „Dreptu barnið.“

Notaði eigin aðferð

Hún sagðist hafa séð börn kæfð í sjónvarpsþáttum. „Ég hafði þó minn eigin hátt á. Einfaldan og auðveldan. Enginn myndi heyra þau öskra,“ sagði Christine.

Aldrei hefur fengist viðunandi útskýring á ástæðum ódæða hennar og þrátt fyrir að ljóst væri að hún glímdi við geðveilu var hún úrskurðuð sakhæf. Christine Falling fékk lífstíðardóm 3. desember árið 1983.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Starfsfólk United hissa á að strákurinn fái ekki tækifæri með aðalliðinu – Orðinn A landsliðsmaður

Starfsfólk United hissa á að strákurinn fái ekki tækifæri með aðalliðinu – Orðinn A landsliðsmaður
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 klukkutímum

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Amorim útilokar að Gyokores semji í byrjun árs

Amorim útilokar að Gyokores semji í byrjun árs
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ fær að finna fyrir reiði kvenna

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ fær að finna fyrir reiði kvenna