Sunnudagur 15.desember 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Barnsmorðinginn Billy

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 19. ágúst 2018 20:00

Löng vist á dauðadeild Billy þurfti að bíða örlaga sinna í 30 ár.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Billy Ray var maður nefndur, Irick að ættarnafni. Billy Ray fæddist þann 26. ágúst 1958 í Knoxville í Tennessee-fylki í Bandaríkjunum. Af bernsku Billy segir ekki margt, en þó er vitað að hún var ekki dans á rósum. Hann ku hafa sætt ofbeldi af hálfu föður síns frá unga aldri. Meðal annars mun nágranni einn hafa séð þegar faðir Billys gekk í skrokk á honum með lurki. Sjálfur sagði Billy að foreldrar hans hefðu oft og tíðum bundið hann og lamið sundur og saman.

Sendur í geðmat sex ára

Billy var rétt orðinn sex vetra þegar efasemdir vöknuðu um geðheilbrigði hans. Geðmat var framkvæmt á Billy að beiðni skólameistara skóla hans, en þeim manni hugnaðist ekki „ofsafengin hegðunarvandamál“ Billys litla. Niðurstaðan var að hugsanlega hefði Billy glímt við einhvers konar heilaskemmd frá fæðingu.

Eitthvað þurfti að gera og um stutt skeið var Billy vistaður á stofnun fyrir börn sem glímdu við mikið tilfinningarót. Árið 1972, þá þrettán ára, fékk hann að heimsækja foreldra sína og eftir á var engu líkara en hvirfilbylur hefði gengið yfir. Billy réðst til atlögu við sjónvarpið vopnaður öxi, blómabeð voru í henglum og náttföt systur sinnar skar hann í ræmur með rakvélablaði.

Vinskapur Kennys og Billys

Árin liðu og nú vindur sögunni til ársins 1983. Þá vann Billy við uppvask á áningarstað vörubifreiðabílstjóra í Knoxville. Þar kynntist Billy Kenny Jeffers, bifvélavirkja sem bjó í smábænum Clinton, ekki langt frá Knoxville.

Með Kenny og Billy tókst vinskapur og þegar fram liðu stundir kynnti Kenny konu sína, Kathy, fyrir Billy. Kenny og Kathy, sem höfðu gengið í hjónaband 1982, ákváðu árið 1984 og bjóða Billy að flytja inn til sín, slíkur var vinskapur þeirra.

Í heimili voru, auk Kennys og Kathyar, fimm þeirra átta barna sem hjónin áttu, sjö barnanna voru tilkomin í fyrri samböndum hjónanna. Saman höfðu Kenny og Kathy eignast barn árið 1983.

Heimili Jeffers-hjónanna brennur

Billy hljóp tíðum undir bagga með Jeffers-hjónunum sem oft unnu langa vinnudaga. Billy tók þá að sér að gæta barna þeirra og fer engum sögum af því. Í aprílbyrjun árið 1985 varð heimili fjölskyldunnar eldi að bráð og vann Billy þá hetjudáð að bjarga tveimur sona Jeffers-hjónanna úr eldhafinu og slasaðist enginn í eldsvoðanum.

Billy Ray Irick
Hann gætti oft barna vina sinna.

Húsinu varð þó ekki bjargað, var rústir einar, og stóð Kenny frammi fyrir því að finna hús, nógu stórt til að rúma allan skarann. Það gekk ekki eftir og því fluttu Billy og Kenny til foreldra Kennys í Western Heights en Kathy flutti með barnahópinn inn í leiguhúsnæði á Exeter Avenue í Knoxville.

Slettist upp á vinskapinn

Mánudaginn 15. apríl, 1985, leit Billy við hjá Kathy á Exeter Avenue. Upphófust deilur milli þeirra sem lyktaði á þann veg að Kathy vísaði Billy á dyr. Að kveldi sama dags lentu Jeffers-hjónin í vandræðum því barnapían þeirra forfallaðist. Billy bauðst til að hlaupa í skarðið og skilaði Kenny honum af sér á heimili Kathyar þá um kvöldið.

Þegar Kathy fór til vinnu um klukkan 22.00 voru öll börnin í fastasvefni, en henni stóð ekki á sama um að skilja þau eftir í umsjá Billys. Koma þar tvennt til; deila þeirra um morguninn og einnig grunaði hana að Billy hefði verið að skvetta í sig. En það var ekkert annað hægt að gera í stöðunni.

Símhringing um miðnætti

Um miðnæturbil var hringt í Kenny. Á línunni var Billy og var honum mikið niðri fyrir. Sagði hann að Kenny yrði að koma strax, hann gæti ekki vakið Paulu, dóttur Kathyar frá fyrra hjónabandi.

Kenny beið ekki boðanna og þegar hann kom að heimilinu á Exeter Avenue stóð Billy í dyragættinni og var ráðalaus að sjá.

Í stofunni fann Kenny sex ára dóttur sína, Paulu, á gólfinu, meðvitundarlausa í blóðpolli. Um leið og Kenny varð var við púls hjá Paulu vafði hann teppi um hana og hraðaði sér á næsta sjúkrahús. Í þrjú korter var reynt að koma Paulu til meðvitundar en árangurslaust. Hún var lýst látin þá um nóttina og dánarorsök úrskurðuð köfnun.

Paula Dyer

Paula Dyer fæddist 5. mars árið 1978. Hún var sögð jákvæðnin uppmáluð og haft á orði að hún sæi aðeins það besta í fari allra og treysti öllum. Paula átti að sögn erfitt með að skilja hvers vegna hún mátti ekki halda í höndina á bláókunnugu fólki: „Af hverju, mamma? Jesús elskar alla. Af hverju má ég það ekki líka?“

Paula Dyer
Hún var hvers manns hugljúfi, jákvæð og treysti öllum.

Paula vann hug og hjörtu nágrannanna á Exeter Avenue fljótlega eftir flutningana þangað. Fyrr en varði var hún búin að stofna til vinskapar við næsta nágranna sinn með því að færa honum blóm, sem hún reyndar hafði tínt úr hans eigin blómabeði.

Ekki allt sem sýnist

Ekki voru öll kurl komin til grafar hvað dauða Paulu áhrærði. Krufning staðfesti reyndar dánarorsök, en ýmislegt fleira kom í ljós. Áverka var að finna á kynfærum Paulu sem og endaþarmi og bentu þeir til að henni hefði verið nauðgað. Höfuðáverka hennar mátti að mati meinafræðings rekja til þess að hún hefði verið barin með ávölu áhaldi og misst við það meðvitund.

Þar sem talið var yfir allan vafa hafið að um morð væri að ræða var lýsingu af Billy dreift og síðdegis, um fimm leytið, fannst hann þar sem hann reyndi að fela sig undir brú.

Paula Dyer var jarðsungin 19. apríl.

Skýlaus játning og iðrun

Billy Ray Irick játaði, hvort tveggja munnlega og skriflega, að hafa orðið Paulu að bana. Að sögn lögreglu var hann samvinnuþýður og fullur iðrunar. Hann var ákærður fyrir morðið á Paulu þann 17. apríl og skipaði dómari tvo lögfræðinga honum til aðstoðar.

Réttarhöldin hófust 26. október 1986. Þau urðu ekki tímafrek því sex dögum síðar var hann fundinn sekur.

Verjendur reyndu að forða Billy frá dauðarefsingu með því að fá hann úrskurðaðan veikan á geði, en tókst ekki. Móðir Billys neitaði að leggja verjendum lið með því að bera vitni og hugsanlega bjarga þannig lífi sonar síns.

Þann 3. desember, 1986, var kveðinn upp dauðadómur yfir Billy og segir sagan að hann hafi þá brosað og yppt öxlum.

Síðbúin endalok

Upphaflega var dagsetning aftökunnar ákveðin 4. maí 1987, en henni var þá frestað. Liðu nú árin eitt af öðru og urðu að áratug og áratugum. Þann 9. ágúst, 2018, hafnaði Hæstiréttur Bandaríkjanna beiðni um að fresta enn frekar aftöku Billys, á grundvelli geðheilsu hans.

Löng vist á dauðadeild
Billy þurfti að bíða örlaga sinna í 30 ár.

Þann sama dag mætti Billy Ray Irick örlögum sínum, þremur vikum fyrir sextugsafmæli sitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Fyrir 14 klukkutímum

Tölvuþrjótur látinn selja eigur sínar til að endurgreiða fórnarlömbum sínum

Tölvuþrjótur látinn selja eigur sínar til að endurgreiða fórnarlömbum sínum
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Er þetta fallegasta stoðsending ársins?

Er þetta fallegasta stoðsending ársins?
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Sjáðu skondin viðbrögð Klopp við sendingu Van Dijk

Sjáðu skondin viðbrögð Klopp við sendingu Van Dijk
433
Fyrir 16 klukkutímum

Arsenal staðfestir slæm meiðsli Tierney – Á leið í aðgerð

Arsenal staðfestir slæm meiðsli Tierney – Á leið í aðgerð
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Eggjastormur í vatnsglasi

Eggjastormur í vatnsglasi
433
Fyrir 18 klukkutímum

Salah með tvö í öruggum sigri Liverpool

Salah með tvö í öruggum sigri Liverpool
433
Fyrir 20 klukkutímum

Virðist eiga enga framtíð undir Mourinho: ,,Þeir eru skrefi á undan“

Virðist eiga enga framtíð undir Mourinho: ,,Þeir eru skrefi á undan“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Reynir segir starfsmenn RÚV misnota aðstöðu sína og hossa hver öðrum

Reynir segir starfsmenn RÚV misnota aðstöðu sína og hossa hver öðrum