Laugardagur 22.febrúar 2020

Prinsinn og glæsikvendið

Ritstjórn DV
Föstudaginn 30. nóvember 2018 15:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Upp úr aldamótunum 1800/1900 lifði og bjó í Frakklandi ung kona sem kallaði sig Maggie Mellor. Á unglingsárunum sá hún sér farborða sem vændiskona aðallega í París en einnig í Bordeaux. Fimmtán ára að aldri eignaðist hún dóttur. Um föður dótturinnar er ekkert vitað og kemur hún ekki frekar við sögu hér. Maggie tileinkaði sér þá framkomu sem þurfti til að gerast háklassa fylgdarkona og tungutak hennar var sagt einkennast af mikilli skrúðmælgi.

Ekki við eina fjölina felld
Forsaga Marguerite komst ekki í hámæli í réttarhöldunum.

Árin liðu og Maggie giftist, kastaði Maggie Mellor-nafninu fyrir róða og varð Marie Marguerite Laurent. Litlum sögum fer af hjónabandinu en það fór á endanum í vaskinn. Marie Marguerite varð með tímanum ágætlega þekkt í París, í ákveðnum kreðsum, og sýndist sitt hverjum um líferni hennar.

 

Prins ásælist Marguerite

Árið 1922 hljóp heldur betur á snærið hjá Marie Marguerite. Í maí það ár var egypskur prins, Ali Kamel Fahmy Bey, staddur í París og fékk augastað á Marguerite, sem þá var skilin við eiginmann sinn. Þess er vert að geta að Ali Kamel, sem starfaði við sendiráð Frakka í Kaíró, var enginn prins, en flíkaði þeim titli óspart þegar hann var fjarri heimahögum. Þegar þarna var komið sögu var Ali Kamel 23 ára, tíu árum yngri en Marguerite en með þeim tókust náin kynni.

Fórnarlambið
Ali Kamel Fahmy Bey kolféll fyrir Marguerite.

Altalað var heima í Egyptalandi að Ali Kamel væri samkynhneigður en það var ekki að sjá þann tíma sem hann gekk á eftir glæsilegu, brúnhærðu og fráskildu konunni með grasið í skónum. Lífsstíll Alis Kamel einkenndist að sögn af taumlausu óhófi og einnig ku hafa verið grunnt á sadisma hjá honum.

 

Hjónaband með skilyrðum

Hvað sem öllu þessu leið þá var Marguerite með Ali Kamel í för þegar hann sneri heim til Kaíró og sótti hann fast að þau myndu búa þar saman. Ekki leist Marguerite á þá hugmynd og stakk Ali þá upp á því að þau gengju í hjónaband.

Marie Marguerite Fahmy
Hjónaband hennar og Ali uppfyllti ekki væntingar hennar.

Marguerite samþykkti það, en með skilyrðum þó. Samningur var skjalfestur og kvað hann á um að Marguerite mætti klæðast samkvæmt vestrænum venjum og skilja við „prinsinn“ hvenær sem henni hugnaðist slíkt. Að því gefnu myndi hún snúast til islam og þannig erfa Ali Kamel ef sú staða kæmi upp. Þegar hjónavígslan fór fram, að múslímskum sið, þann 23. janúar 1923, lét Ali fjarlægja skilnaðarákvæðið úr samningnum og tryggði sér heimild til að kvænast þremur konum ef hann kærði sig um.

 

Ekkert sældarlíf

Hjónabandið reyndist ekkert sældarlíf fyrir Marguerite. Engu hafði verið logið upp á Ali um sadismann sem bjó innra með honum. Hann barði Marguerite iðulega og lét pilt úr hjúaliði sínu fylgja henni hvert fótspor og jafnvel fylgjast með þegar hún afklæddist.

Prins, en ekki prins
Grunnt var á sadisma hjá Ali samkvæmt almannaróm.

Nú, hjónakornin ákváðu um mitt ár 1923 að skella sér til Englands og að morgni sunnudagsins 1. júlí renndi glæsibifreið upp að Savoy-hótelinu í London. Úr bifreiðinni stigu Fahmy-hjónin og með þeim í för var einkaritari Alis, Said Enani.

 

Blæðingar á viðkvæmum stað

Þegar hjónin höfðu dvalið í London í nokkra daga fékk Marguerite lækni hótelsins upp á svítu sína; innvortis blæðingar í endaþarmi gerðu henni lífið leitt. Upplýsti hún lækninn um að eiginmaður hennar hefði „rifið hana við óeðlilegar samfarir.“ Hann þrýsti sífellt á hana um þannig kynlíf. Bað hún lækninn um að skjalfesta ástand hennar, en einhverra hluta vegna varð hann ekki við þeirri beiðni.

Vettvangur morðsins
Savoy-hótelið í London hefur hýst margt frægðarmennið.

Þann 9. júlí fóru hjónin í Daly’s-leikhúsið þar sem þú sáu verkið The Merry Widow, Káta ekkjan, og fóru síðan heim á hótel og fengu sér síðbúinn kvöldverð.

 

Kastaðist í kekki

Heldur betur kastaðist í kekki hjá hjónunum í kvöldverðinum, en hnútukast virtist vera orðið daglegur viðburður hjá þeim. Reyndar gott betur því Ali hafði sést á almannafæri með rispur í andlitinu og Marguerite hafði sést með marbletti sem hún hafði reynt að hylja með kremi og púðri, en ekki tekist.

Á meðal deiluefna þeirra þetta kvöld var aðgerð sem Marguerite þurfti að fara í. Ali vildi að aðgerðin yrði gerð í London, en Marguerite heimtaði að þau færu til Frakklands vegna hennar.

 

Minnst á morðhótun

Sagan segir að á meðan þau snæddu í matsal hótelsins hafi hljómsveitarstjórnandinn komið aðvífandi og spurt hvort þau vildu heyra eitthvert sérstakt lag. Marguerite svaraði á frönsku: „Ég vil ekki hlýða á tónlist,“ og bætti síðan við: „Eiginmaður minn hefur hótað að drepa mig í kvöld.“

Hljómsveitarstjórinn taldi að um væri að ræða glens af hálfu þessarar fínu frúar, og svaraði: „Frú, ég vona að þér verðið hér enn í fyrramálið.“

Rifrildi hjónanna koðnaði niður um síðir og Marguerite tók á sig náðir upp úr klukkan eitt eftir miðnætti, en Ali ákvað að fara í West End-hverfið, hugsanlega til að kaupa sér kynlífsþjónustu konu eða karls.

 

Skothvellir um miðja nótt

Um tvö leytið eftir miðnætti dró til tíðinda á Savoy-hótelinu. Þá var næturvaktmanni gengið fram hjá dyrum svítu Fahmy-hjónanna. Heyrði hann þá lágt flaut, leit yfir öxlina og sá Ali krjúpandi. Hann var að flauta á kjölturakka Marguerite sem hafði elt vaktmanninn. Vaktmaðurinn velti því ekki frekar fyrir sér og hélt áfram för sinni.

Ekki hafði hann tekið mörg skref þegar hann heyrði þrjá skothvelli. Hann flýtti sér til baka og sá inn um dyrnar að Marguerite henti frá sér skammbyssu. Ali lá í hnipri upp við vegg og blóðið rann í stríðum straumum úr sári á enni hans og stóðu beinflísar út úr því. Marguerite virtist í öngum sínum og sagði í sífellu: „Hvað hef ég gert, elskan mín.“

 

Verjandinn mikli

Hótelstjórinn var kallaður til og var þá komið annað hljóð í strokkinn hjá Marguerite, sem virtist fyrst og fremst hafa áhyggjur af sjálfri sér: „Ó, ágæti herra“ sagði hún við hann, „ég hef verið gift í hálft ár, og það hefur verið þrautaganga fyrir mig. Ég hef þjáðst óumræðilega.“

Ali var fluttur helsærður á sjúkrahús þar sem hann skildi við skömmu síðar.

Verjandinn mikli
Edward Marshall Hall fór mikinn í réttarhöldunum.

Marguerite var ákærð fyrir morð og 10. september, 1923, hófust réttarhöld yfir henni. Verjandi hennar voru sir Edward Marshall Hall og sir Henry Curtis-Bennett. Þá þegar var Edward Marshall Hall, 65 ára, vel þekktur fyrir einstök afrek sín í dómsölum og hafði fengið viðurnefnið „The Great Defender“, verjandinn mikli.

 

Mannorð Alis að engu gert

Ekki verða réttarhöldin reifuð hér í smáatriðum heldur vindur sögunni beint í endasprettinn og málalyktir. Í sinni lokaræðu til varnar Marguerite, sem þegar þarna var komið sögu var kölluð Madame Fahmy í fjölmiðlum, níddi Edward Marshall Hall skóinn af Ali heitnum og tróð mannorð hans niður í svaðið.

Umfjöllun Standard Examiner
Vitnisburður Marguerite hafði mikil áhrif.

Edward Marshall Hall lýsti Ali sem skrímsli austræns kynferðislegs óeðlis og lét ekki nægja að saka hann um samkynhneigð, því ritari Alis sáluga, Said Enani, var undir sömu sök seldur að hans sögn.

 

Heltekinn af eigin karlmennsku

Verjandinn gekk svo langt að vara konur, sem voru viðstaddar réttarhöldin, við, þær yrðu „að taka afleiðingum þess.“ Eftir því var tekið margar kvennanna voru undir tvítugu – engin yfirgaf réttarsalinn.

Edward Marshall Hall beið ekki boðanna og gerði að umfjöllunarefni hve mikið Ali hafði hneigst til endaþarmsmaka. Ali hafði að sögn Hall „þróað með sér afbrigðilegar fýsnir og aldrei umgengist Madame á eðlilegan hátt.“

Hall sagði ekki vert að dvelja við þá staðreynd að Ali hefði verið yngri en eiginkona hans: „Já, hann var aðeins 23 ára. En svall og ólifnaður var hans ær og kýr og hann var heltekinn af eigin karlmennsku.“

 

Austurlenskur undir skinninu

Hall lét ekki staðar numið þar. Hann minnti þá, sem á orð hans hlýddu, á að í huga Ali, sem austurlensks karlmanns, hefði Madame aldrei verið annað en eign hans og þrátt fyrir að hann hefði sýnt af sér vestræna fágun út á við þá hefði hann aldrei verið annað en austurlenskur undir skinninu. Auðugur Austurlandabúi sem lagðist á vestrænar konur með það fyrir augum að lítillækka þær og eyðileggja siðferðisleg gildi þeirra.

Þegar Marguerite steig í vitnastúkuna fjölyrti hún, að áeggjan Hall, um tilveru sína sem múslímsk brúður og var það mat margra að við þá lýsingu hefðu orðið straumhvörf í málinu og fólk snúist á sveif með henni.

 

Undir eftirliti „hálfsiðaðs þjóns“

Marguerite sagði meðal annars frá einu skipti þegar hún var að afklæðast og komin „á það stig að kvenleiki hennar leyfði ekki að jafnvel þerna hennar sæi til“. Þá heyrði hún undarlegt hljóð og dró til hliðar tjöld fyrir skoti í herberginu. Þar „húkandi, á stað þar sem hann gat fylgst með hverri hreyfingu hennar, var einn af fjölmörgum, ljótum, svörtum, hálfsiðuðum þjónum eiginmanns hennar, sem hlýddu honum í einu og öllu.“

Í Egyptalandi
Marguerite var að eigin sögn undir stöðugu eftirliti.

Hún hrópaði á hjálp en þegar eiginmaður hennar kom, úr aðliggjandi herbergi, hló hann bara og sagði: „Hann [þjónninn] er enginn, hann telst ekki með. En hann hefur rétt til að vera hér, eða hvar sem þú ert, og upplýsa mig síðan um athafnir þínar.“

 

Niðurstaða kviðdóms

Ljóst var að hvort tveggja vörn Hall og vitnisburður Marguerite fengu hljómgrunn hjá dómaranum, Rigby Swift. Hann beindi orðum sínum til áheyrenda í dómsalnum og sagði: „Þetta er hryllingur, viðbjóðslegt. Hvernig nokkur getur hlýtt á svona frásagnir ótilneyddur er óskiljanlegt. Dómarinn hafði greinilega orðið fyrir áhrifum af vörn Hall og sagði einnig: „Við, í þessu landi, hefjum konur okkar á stall: í Egyptalandi ríkja önnur sjónarmið.“

Það tók kviðdóm innan við klukkustund að komast að þeirri niðurstöðu að Marguerite væri saklaus af hvoru tveggja morði og manndrápi. Við það sat og hún var frjáls kona þaðan í frá.

 

Lék eiginkonu Egypta

Dómarinn hafði hafnað beiðni ákæruvaldsins til að gagnspyrja Marguerite. Ef það hefði verið gert hefði kviðdómur fengið að heyra af yngri árum hennar og hvaða iðju hún stundaði þá.

Að auki hafði ákæruvaldið ráðið einkaspæjara sem hafði komist að því að Ali var ekki sá eini sem hneigðist til kynlífs með sama kyni. Í París var það alkunna að Madame Fahmy „er sólgin, eða var sólgin í taka þátt í ýmislegu með öðrum konum.“

En það er önnur saga.

Í kjölfar réttarhaldanna
Marguerite naut skammvinnrar frægðar og lék í nokkrum kvikmyndum.

Marguerite erfði ekki auðæfi eiginmanns síns sem hafði ekki gert erfðaskrá. Hún settist að í París og naut sviðsljóssins nokkur næstu ár og birtist meira að segja á hvíta tjaldinu í lítilvægum frönskum kvikmyndum, meðal annars í hlutverki eiginkonu Egypta.

Marie Marguerite Fahmy giftist ekki aftur. Hún dó 2. janúar, 1971, í París.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Örmagna í verkfalli
Neytendur
Fyrir 3 klukkutímum

Athugið að símtal þetta gæti verið hljóðritað

Athugið að símtal þetta gæti verið hljóðritað
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Bretar gefa út sérstaka risaeðlumynt

Bretar gefa út sérstaka risaeðlumynt
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Jói Berg lék ekki í góðum sigri Burnley – Sheffield tapaði stigum

Jói Berg lék ekki í góðum sigri Burnley – Sheffield tapaði stigum
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Andri Fannar spilaði sinn fyrsta leik í Serie A – Dramatískt jafntefli

Andri Fannar spilaði sinn fyrsta leik í Serie A – Dramatískt jafntefli
433
Fyrir 6 klukkutímum

Önnur félög reyndu að fá Haaland – ,,Hann er að undirbúa sig fyrir það besta“

Önnur félög reyndu að fá Haaland – ,,Hann er að undirbúa sig fyrir það besta“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Lengjubikarinn: Fjölnir vann Val – Stjarnan tapaði heima

Lengjubikarinn: Fjölnir vann Val – Stjarnan tapaði heima
Matur
Fyrir 7 klukkutímum

Svona á að búa til hina fullkomnu vatnsdeigsbollu

Svona á að búa til hina fullkomnu vatnsdeigsbollu
Fyrir 7 klukkutímum

Sólveig og Dagur í hár saman

Sólveig og Dagur í hár saman
433
Fyrir 8 klukkutímum

Var nálægt Manchester eftir samtal við Ferguson – Fór til Tottenham

Var nálægt Manchester eftir samtal við Ferguson – Fór til Tottenham