fbpx
Föstudagur 03.maí 2024

Gamalt mál leysist

Morðmál Lucie safnaði ryki í 10 ár – Ný tækni felldi ódæðismanninn að lokum

Kolbeinn Þorsteinsson
Föstudaginn 29. apríl 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lucie Beydon, tvítug frönsk kona, hafði sleppt heimdraganum um miðjan ágúst 2004. Þá hafði hún flutt frá Brest, úr foreldrahúsum, til Brest í Rennes, á Bretagneskaganum í Frakklandi, til að fara á námskeið í barnakennslu. Hún hafði komið sér vel fyrir í stúdíóíbúð við Rue Gambetta og vær æði sátt við tilveruna enda ekki átt eigið heimili fyrr.

Hálfum mánuði síðar, að kvöldi föstudagsins 3. september, var Lucie vart komin inn úr dyrum heimilis síns þegar dyrabjöllunni var hringt. Fyrir utan stóð Nicolas L., karlmaður sem Lucie þekkti ekkert.

Bank bank – hver er þar?

Áður en lengra er haldið er rétt að kynna Nicolas betur til sögunnar. Nicolas ku hafa glímt við óseðjandi kynhvöt en hafði tileinkað sér leið til að taka á henni.

Hann fór inn í fjölbýlishús og hringdi dyrabjöllum íbúða, einni á eftir annarri. Ef hann heyrði karlmannsrödd innan úr einhverri íbúð lét hann sig hverfa hið snarasta.

Annað var uppi á teningnum ef um kvenmannsrödd var að ræða. Þá hrópaði hann fyrsta skírnarnafn sem honum datt í hug og spurði hvort sú persóna byggi þar.

Stendur fyrir utan dyrnar

Ef Nicolas barst svar við þeirri spurningu innan úr íbúðinni gerði hann sér upp skilningsleysi í þeirri von að konan opnaði dyrnar. Ef sú varð raunin afsakaði hann sig í bak og fyrir og sýndi á sér fararsnið. En nánast um leið og konan lokaði dyrunum hringdi hann dyrabjöllunni aftur og þá gerðist stundum að viðkomandi kona kom aftur til dyra, jafnvel orðin hálfpirruð.

Stóð þá ekki Nicolas á ganginum, með brækurnar á hælunum, getnaðarliminn í annarri hendi og hníf í hinni og neyddi síðan konuna til að fróa honum.

Meinlegt ólán

Það var í slíkum erindagjörðum sem Nicolas var fyrrnefnt föstudagskvöld í september við dyrnar hjá Lucie Beydon. Fyrr um kvöldið hafði hún verið í félagsskap samnemenda sinna en um ellefu leytið kvaddi hún vini sína og hélt heim á leið.
Vart hafði hurðin fallið að stöfum er dyrabjöllunni var hringt og óhætt að segja að það hafi verið meinleg óheppni, því fyrir kaldhæðni örlaganna hafði enginn svarað í þeim íbúðum sem Nicolas hafði áður reynt við í stigaganginum.

Ekkert svar

Tveimur dögum síðar, að kvöldi sunnudags, kom vinur Lucie, Camille, ásamt vinum sínum að heimili Lucie. Camille hafði reynt árangurslaust að ná sambandi við Lucie alla helgina.

Camille hamaðist á dyrabjöllunni en fékk ekkert svar og ákvað að lokum að leita sér aðstoðar hjá slökkviliðsmönnum á slökkviliðsstöð hinum megin götunnar.

Slökkviliðsmennirnir fundu fremur ógeðfelldan fnyk berast innan úr íbúð Lucie. Þeir spenntu upp hurðina og fundu Lucie liggjandi í blóðpolli á gólfinu.

Morðvopnið finnst

Lucie hafði verið stungin 21 sinni og ljóst að hún hafði verið dáin í tvo sólarhringa. Ódæðismaðurinn hafði læst dyrunum og tekið með sér lykilinn. Engin fingraför fundust en seinna fann lögreglan tvo púða sem höfðu verið fjarlægðir úr íbúðinni og morðvopnið að auki falið í runna í nærliggjandi garði.

Lífsýni náðust af púðunum en voru svo ófullkomin að þau dygðu ekki til að fella morðingjann ef svo bæri undir. Púðarnir voru engu að síður teknir til handargagns.

Smáglæpir og blygðunarsemisbrot

Við rannsókn málsins voru margir grunaðir til kallaðir, þar á meðal Nicolas sem státaði af sakaskrá sem spannaði allt frá innbrotum til blygðunarsemisbrota.

En ekkert tengdi Nicolas við morðið á Lucie, engin augljós ástæða var til að hengja morðið á hann og honum tókst að sannfæra laganna verði um sakleysi sitt við yfirheyrslu.

Honum var gert kleift að halda áfram á braut smáglæpa; þjófnaða og innbrota og kynferðisbrota sem byggðu á strípihneigð hans. En Nicolas hafði vit á að halda sig fjarri Rennes.

Ný rannsókn – ný tækni

Nicolas þurfti næstu tíu árin að svara til saka fyrir 16 brot, eldri og nýrri. Um var að ræða innbrot og kynferðisglæpi og eyddi hann einhverjum tíma á bak við lás og slá.

Árið 2015 hafði DNA-tækni fleygt verulega fram frá árinu 2004 og lögreglan dustaði rykið af máli Lucie Beydon. Lífsýnum úr púðunum úr íbúð Lucie var rennt í gegnum gagnagrunn lögreglunnar og viti menn – fullkomin samsvörun fannst.

Nicolas játar

Þegar þarna var komið sögu var Nicolas reyndar í grjótinu, önnum kafinn við að afplána þriggja ára dóm vegna innbrota. Hann var kallaður til yfirheyrslu og viðurkenndi sekt sína en sagði að hann hefði haft hnífinn með „til að verja sjálfan sig“.

Á sama tíma og hann myrti Lucie hafði Nicolas unnið á pítsustað skammt frá heimili hennar og talið er að tilviljun ein hafi ráðið för hans það örlagaríka kvöld.
Réttað verður yfir Nicolas L á því herrans ári 2016 – sem er jú einmitt í ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Lýsingar á meintu broti Kolbeins í ákæru – Málið var tekið fyrir í gær

Lýsingar á meintu broti Kolbeins í ákæru – Málið var tekið fyrir í gær
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Fyrrum markvörður Arsenal á leið til Chelsea?

Fyrrum markvörður Arsenal á leið til Chelsea?
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Eftir hörmulegt slys á Íslandi hefur hann þetta að segja um Landspítalann og starfsfólk hans

Eftir hörmulegt slys á Íslandi hefur hann þetta að segja um Landspítalann og starfsfólk hans
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

María Sigrún fær uppreist æru – Fréttaskýringin sem var stöðvuð verður sýnd á mánudaginn

María Sigrún fær uppreist æru – Fréttaskýringin sem var stöðvuð verður sýnd á mánudaginn
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Besta FH-lið sögunnar opinerað á morgun

Besta FH-lið sögunnar opinerað á morgun
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Drengurinn á Nýbýlavegi lést vegna köfnunar

Drengurinn á Nýbýlavegi lést vegna köfnunar
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Útgáfufélag Viljans úrskurðað gjaldþrota – Samnefndur fjölmiðill mun þó halda sínu striki

Útgáfufélag Viljans úrskurðað gjaldþrota – Samnefndur fjölmiðill mun þó halda sínu striki
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Hann er að sofa hjá yfirmanni sínum sem er 25 árum eldri og kynferðislega óseðjandi – Hérna er vandamálið

Hann er að sofa hjá yfirmanni sínum sem er 25 árum eldri og kynferðislega óseðjandi – Hérna er vandamálið