fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Leiðari

Leiðari: Kerfi sem drepur – Hver verður næstur? Þú eða einhver sem þú elskar?

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 11. janúar 2020 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Öldruð kona liggur ein og afskipt á bráðamóttöku Landspítalans. Hún bíður þess að fá niðurstöður úr rannsóknum. Hún hefur mátt bíða klukkutímunum saman. Hún hefur fengið rúm til að liggja í á meðan hún bíður. En sjúkrastofu fékk hún ekki og þarf því að gera sér að góðu að liggja fyrir allra augum frammi á gangi. Þar liggur hún og horfir á vansvefta, yfirkeyrða starfsmenn skjótast upp og niður gangana, á harðahlaupum, jafnvel á hlaupahjólum. Hún er hrædd og hún er berskjölduð. Einkennin sem ráku hana af stað upp á bráðamóttöku svara til einkennis ættgengs sjúkdóms sem leitt hefur marga ástvini hennar til dauða. Ætli einn af þessum þjótandi starfsmönnum sé á hlaupum til hennar til að kveða upp hennar dauðadóm? Eftir heila nótt á gangi bráðamóttökunnar skila niðurstöðurnar sér. Hún hafði ekkert til að hafa áhyggjur af og hún er send heim, heppin að hafa fengið þetta rúm á ganginum, þótt yfir því hafi verið lítil mannleg reisn. Hún fékk þó allavega pláss, rannsókn og niðurstöður. Á henni var tekið mark og ótti hennar kveðinn niður. Ekki allir eru jafn heppnir. Í október á síðasta ári lét maður lífið. Hann hafði kennt sér meins og leitað á bráðamóttöku. Þaðan var hann sendur heim og heima lést hann.

Yfirlæknir á Landspítalanum kvað ástandið á bráðamóttöku hræðilegt og stórslys fyrirsjáanlegt. Stórslysin hafa þó þegar átt sér stað. Þetta er ekki skyndilegur og óvæntur, „force majure“, vandi. Viðvarandi og kerfisbundið svelti á kerfi hefur átt sér stað undanfarin ár, en ár hvert virðumst við endurskilgreina þolmörk þessa kerfis, teygja þau aðeins lengra, sætta okkur við aðeins minna og örlítið verra. Lengi getur vont versnað, en ekki endalaust. Nú hefur það verið sagt berum orðum: stórslys er framundan ef staðan breytist ekki til batnaðar. Slysið er fyrirséð, við því hefur verið varað. Þegar stórslys er fyrirséð en enginn gerir neitt til að afstýra því getur vart verið um eiginlegt slys að ræða. Ekki einu sinni manndráp af gáleysi, hljótist manntjón af slysinu. Nei, köllum hátternið sínu rétta nafni. Þarna væri um manndráp af ásetningi að ræða. Þetta stórslys sem varað hefur verið við er þegar hafið. Við erum að horfa á að gerast, hægt og bítandi fyrir augum okkar allra. Gerandinn er Ríkið.

Fyrir nokkrum árum leitaði kona á bráðamóttöku. Hún fór aldrei heim aftur. Hún fékk reyndar sjúkrastofu, en ekki á þeirri deild sem hún var innrituð á. Hún andaðist um miðja nótt. Deildin sem hún dó á var ekki í stakk búin til að takast á við andlát. Fengu ástvinir konunnar að kveðja hana inni á stofunni þar sem hún lá óhreyfð frá því hún skildi við. Tengd ótal snúrum og slöngum. Á meðan ættingjar struku henni og grétu bað starfsfólk þá að grípa allar eigur hennar með sér þegar þeir færu úr herberginu. Þá væri hægt að búa um rúmið að nýju og koma þangað næsta sjúklingi. Konan hafði þá verið látin í um klukkustund, ekki lengur. Ekki mikil mannleg reisn.

Báðar frásagnirnar eru sannar sögur. Sú fyrri átti sér stað nýlega, sú síðari fyrir nokkrum árum. Neyðarástandið sem upp er komið á Landspítalanum og bráðamóttökunni er ekki nýtilkomið. Hægur og kvalafullur dauðdagi opinbera heilbrigðiskerfisins hófst fyrir um áratug með samþykki og liðsinni ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma fer einkavæðingin sífellt að hljóma betur og betur í eyrum almennings. Hversu mikið aukalega ert þú til í að greiða svo það verði ekki þú eða ástvinur þinn sem heilbrigðiskerfið myrðir næst?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Axel fer yfir ákvörðun sína – „Ég myndi ekki velja þann stað með sjö mánaða gamalt barn“

Axel fer yfir ákvörðun sína – „Ég myndi ekki velja þann stað með sjö mánaða gamalt barn“
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 klukkutímum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Stjarnan hafði betur gegn Val – Bjarni Mark fékk heimskulegt rautt spjald

Stjarnan hafði betur gegn Val – Bjarni Mark fékk heimskulegt rautt spjald
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Svona var byrjunarliðið þegar Manchester United mætti Coventry síðast

Svona var byrjunarliðið þegar Manchester United mætti Coventry síðast