fbpx
Miðvikudagur 12.ágúst 2020

Þið drápuð vini mína – „Hann hafði verið brosmilt og lífsglatt barn“

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Þriðjudaginn 19. febrúar 2019 14:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Jakobína og Kristinn frá Dröngum, amma og afi höfundar

Á meðan amma mín sat hjá mér og las mig í svefn, með silfurgrátt hárið bundið í fléttu, sjal yfir herðarnar og í kjól sem var sprunginn út í blómum og hvíslaði Ævintýraeyjunni með sinni fögru röddu lá pabbi vinkonu minnar uppi í rúmi hjá dóttur sinni og nauðgaði henni. Hann nauðgaði barninu sínu í mörg ár.

Nokkrum árum síðar stóðum við afi í flæðarmálinu á Seljanesi á Ströndum og horfðum á dauðan hákarl rétt fyrir utan fjöruna. Afi var í pokabuxum sem hann hélt uppi með axlaböndum. Hann var skeggjaður og aðeins stórskorinn og þegar hann svitnaði var andlit hans eins og mörg lítil gljúfur þar sem runnu ár og fossar. Á meðan við stóðum þarna klauf selur sjóinn og horfði forvitinn að landi og inni í fjörðunum þar sem fjöllin standa snarbrött og hrikaleg, sogaði djúpið fjöllin til sín og þeytti þeim upp á yfirborðið í tíbránni. Og á meðan við stóðum þarna að vinna að því í sameiningu að ná þessum feng í land var verið að misnota vin minn í stóru rauðu húsi í þorpi úti á landi.

Skuggavera í húsi úti á landi

Þessir vinir mínir eru dánir. Vinkona mín framdi sjálfsmorð, hún rogaðist um með þessar minningar og reyndi að drekkja þeim í brennivíni og dópi en ekkert gekk. Minningarnar flutu alltaf upp á yfirborðið og vöfðu sig að lokum utan um hana og þegar þær loks sukku tóku þær hana með niður í djúpið.

Vinur minn var stuttklipptur, brosmildur og myndarlegur. Þegar hann hló, hló hann með öllu andlitinu. Þegar hann hló, hlógu allir með. Við vorum bestu vinir. Við áttum báðir við fíkniefnavanda að stríða með lögheimili í undirheimunum. Eina helgi fórum við út á land, í þorpið þar sem hann ólst upp í. Þegar við gengum framhjá stóru rauðu húsi í björtu sólskini um miðjan dag hvolfdist myrkrið yfir hann og hann fór að gráta. Ég hélt lengi utanum hann í skoti á milli húsa.

Hann hafði verið brosmilt og lífsglatt barn. Svo var honum nauðgað. Þá tóku fíkniefnin við. Svo dauðinn. Hann á þrjár einstaklega hæfileikaríkar og myndarlegar dætur sem búa úti á landi. En hann fær aldrei að sjá þær. Og þær ekki hann. Vegna skuggaveru sem sveimar um í rauðu húsi í þorpi úti á landi.

Það byrjaði aftur að rigna

Ég ferðaðist langt niður í myrkrið sem ungur maður og kynntist þar öðrum sem höfðu villst af leið. Margir af þeim höfðu verið beittir kynferðisofbeldi af einhverju tagi. Sumir eru dánir, aðrir eru í fangelsi. Vinur minn sagði sögu sína á Pressunni árið 2015. Þegar hann varð 13 ára breyttist allt. Vinur minn sagði:

„Það var árið sem misnotkunin hófst. Ég var beittur kynferðisofbeldi í tvö ár. Tugi skipta. Frá því ég var 13 ára og þar til ég varð 15 ára. Maðurinn sem beitti mig kynferðisofbeldi ítrekað í tvö ár var dæmdur í átta mánaða fangelsi. Hann dæmdi mig með sínu viðbjóðslega háttalagi í ævilangt fangelsi. Það eru mörg ár síðan hann losnaði. Myrkrið sem hann skildi eftir sig er enn í höfðinu á mér. Stöku sinnum léttir til, en þá oftast í skamma stund, eins og brot úr íslensku sumri; svo byrjar bara aftur að rigna.“

Svo er sem betur fer fólk sem hefur sigrast á áfallinu, sigrað ofbeldið, og svo hjálpa jafnvel öðrum að feta slóðina til baka, eitt þungt skref í einu.

Áfallið aldrei það sama

Halldór Auðar fyrrverandi borgarfulltrúi opnaði sig í einlægu viðtali um kynferðisofbeldi sem hann varð fyrir fjögurra eða fimm ára gamall. Nokkrir piltar neyddu hann til að afklæðast og Halldór var hræddur, skelkaður og niðurlægður. Ofbeldið sat fast í honum og vegna þagnarinnar kraumuðu tilfinningar í honum fram á fullorðinsár, þunglyndi fæddist og félagslegir erfiðleikar tóku við.

Halldór benti á að erfitt væri að verða vitni að umræðu um hversu alvarleg kynferðisbrot eru. Ég tek undir það. Ég hef heyrt fólk segja um aðra: „Ég skil nú ekki í honum að vera ekki búinn að hrista þetta af sér“ og svo hrista hausinn. Þetta gerist allt of oft. Þess vegna vil ég segja við þann sem skilur ekki af hverju einhver er ekki búinn að jafn sig; að fólk er mismunandi og sársaukaþröskuldur ekki sá sami hjá okkur öllum. Áfallið er aldrei það sama

En þú, barnaníðingurinn, nauðgarinn, skrímslið, sá sem ofbeldinu beitir, sem skilur eftir þig sviðna jörð; leitaðu þér hjálpar með öllum tiltækum ráðum. Ef þú treystir þér ekki til þess og heldur að þú ráðir ekki við þig, farðu þangað sem enginn hætta stafar af þér.

Og reyndu að vera eins og afi og amma. Þau voru góð.

Leiðari fyrst birtur á Pressunni 2015. Endurskrifaður og endurbirtur á DV 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Íslenskur sálfræðingur harðlega gagnrýndur fyrir greinaskrif á Vísi – „Níð gagnvart trans fólki og jaðrar við hatursorðræðu“

Íslenskur sálfræðingur harðlega gagnrýndur fyrir greinaskrif á Vísi – „Níð gagnvart trans fólki og jaðrar við hatursorðræðu“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Kærasta knattspyrnumanns deildi mynd af kynfærum á Instagram – Fyrir mistök þá deildi ég óvart vitlausri mynd“

Kærasta knattspyrnumanns deildi mynd af kynfærum á Instagram – Fyrir mistök þá deildi ég óvart vitlausri mynd“
Bleikt
Fyrir 6 klukkutímum

Brögðin og brellurnar á bak við þyngdartap Rebel Wilson

Brögðin og brellurnar á bak við þyngdartap Rebel Wilson
Bleikt
Fyrir 7 klukkutímum

„Ég er í hamingjusömu sambandi – en er háð því að senda ókunnugum nektarmyndir“

„Ég er í hamingjusömu sambandi – en er háð því að senda ókunnugum nektarmyndir“
Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Þess vegna vill fólk ekki að aðrir sjái það stunda kynlíf

Þess vegna vill fólk ekki að aðrir sjái það stunda kynlíf
Bleikt
Fyrir 17 klukkutímum

Fyrstu tónleikarnir með samskiptafjarlægð munu fara fram á Bretlandi

Fyrstu tónleikarnir með samskiptafjarlægð munu fara fram á Bretlandi
Fókus
Fyrir 19 klukkutímum

Kristjón pælir í „undarlegri“ gátu sem hann fékk senda í brúnu umslagi – „Hver eru skilaboðin?“

Kristjón pælir í „undarlegri“ gátu sem hann fékk senda í brúnu umslagi – „Hver eru skilaboðin?“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

32 smit með óljósan uppruna – Þrjár óléttar konur meðal smituðu

32 smit með óljósan uppruna – Þrjár óléttar konur meðal smituðu