fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Leiðari

Af hverju erum við lélegri en Færeyingar?

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 17. febrúar 2019 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðfaranótt föstudagsins 8. febrúar var íslenskur lögreglumaður handtekinn í miðbæ Þórshafnar fyrir líkamsárás. Fyrir árásinni varð annar Íslendingur og ferðafélagi lögreglumannsins. Sunnudaginn 10. febrúar var búið að dæma í málinu. Hlaut hann 50 daga skilorðsbundið fangelsi og þriggja ára ferðabann til eyjanna.

Í helgarblaði DV er nú greint frá því að meint hegningarlagabrot framkvæmdastjóra Vegagerðarinnar sé fyrnt.  Hann var ákærður fyrir líkamsárás á dyravörð skemmtistaðar í miðbæ Reykjavíkur. Þetta atvik átti sér stað þann 27. ágúst árið 2016. Þegar málið kom til héraðsdóms var það fyrnt. Ástæðan? Seinagangur lögreglu.

Hvernig má það vera að Íslendingar, ein af ríkustu þjóðum heims, sem telur sig jafnframt vera með þeim þróaðri á jarðarkringlunni, geti ekki tryggt réttaröryggi borgaranna? Að brotamenn geti sloppið við refsingu og sektir af því að opinberar stofnanir vanrækja skyldu sína?

Ætla mætti að mál af þessum toga, sem fjalla um líkamlegt ofbeldi, ætti að hafa forgang í kerfinu. Þetta er ekki ógreidd stöðumælasekt eða ólöglega byggður bílskúr. Í siðuðum samfélögum ætti lögreglan að beita öllum sínum kröftum í að mál af þessum toga leysist, hratt og örugglega. Í miðbæ Reykjavíkur eru urmull af myndavélum, svo ekki sé nú talað um vitnin. Svona mál ætti því að vera nokkuð borðleggjandi.

Færeyingar eru okkar nánustu frændur. Samfélagsgerð þeirra er álík okkar og efnahagurinn sömuleiðis. Við erum með tvö sambærileg mál. Annað er afgreitt yfir helgi en hitt klúðrast á tveimur og hálfu ári. Hvar liggur vandamálið?

Fyrningar eru algengar á Íslandi. Við heyrum það á umfjöllun fjölmiðla. Margir telja að fyrningarfresturinn sé of stuttur og finnst ósanngjarnt að mál fyrnist. En það er ástæða fyrir fyrningum, sérstaklega í hegningarlagabrotum. Upplýsingaöflun verður erfiðari eftir því sem lengra líður frá brotinu og minni vitna verður stopulla. Þetta verða rannsóknaraðilar að hafa í huga þegar mál koma inn á þeirra borð. Um kynferðisbrot gilda önnur viðmið, enda eru það mál sem þolandinn burðast með lengi í skömm og áður fyrr lágu slík mál í þagnargildi.

Öll þekkjum við þann fjárskort sem íslensk löggæsla og fangelsi búa við. Í hruninu kom hann bersýnilega í ljós og minnstu munaði að lögreglan missti tökin á ástandinu. Síðan þá hefur lítið breyst og gremja lögreglumanna leynir sér ekki. DV greindi nýlega frá því að mörgu er þar ábótavant. Má nefna bíla, fatnað, menntun og fleira. Álagið er mikið og launin lág. Í fangelsum eru plássin fá og menn sleppa við dóma vegna þess að þeir fyrnast. Eða þá að menn eru kallaðir inn til refsingar, löngu eftir dómsuppkvaðningu, menn sem hugsanlega eru búnir að gjörbreyta líferni sínu.

Það er hins vegar ekki hægt að skýra allt út frá fjárskorti. Í máli framkvæmdastjóra Vegagerðarinnar er augljóslega ekki aðeins fjárskorti um að kenna heldur hlýtur eitthvað annað að liggja að baki. Er það sinnuleysi? Lítið skipulag? Röng forgangsröðun? Hvert sem vandamálið er þá verðum við að kippa því í lag. Annars koma upp fleiri sambærileg mál sem yrðu hreint út sagt vandræðaleg fyrir land og þjóð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Ivan Toney sagður gera kröfu um að þéna meira en Bruno

Ivan Toney sagður gera kröfu um að þéna meira en Bruno
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Svíi dæmdur fyrir að skjóta Gabríel

Svíi dæmdur fyrir að skjóta Gabríel
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Var agndofa þegar Schweinsteiger lýsti framkomu Mourinho hjá United – „Mér var bara sparkað út úr klefanum“

Var agndofa þegar Schweinsteiger lýsti framkomu Mourinho hjá United – „Mér var bara sparkað út úr klefanum“