fbpx
Laugardagur 10.janúar 2026
Fréttir

Fær skaðabætur eftir að Hafnarfjarðarbær fór ekki að lögum

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 9. janúar 2026 18:30

Ráðhús Hafnarfjarðar/Mynd: Ja.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fram kemur í fundargerð fundar bæjarráðs Hafnarfjarðar sem fram fór í gær að bærinn hafi samið við einstakling um að viðkomandi fái greiddar skaðabætur frá bænum. Umræddur einstaklingur hafði verið ráðinn til starfa sem deildarstjóri tómstundamiðstöðvar Hraunvallaskóla, eins grunnskóla bæjarins, en ráðningin var dregin til baka þremur vikum síðar eftir að viðkomandi gagnrýndi opinberlega meirihluta bæjarstjórnar. Málið kom upp árið 2024 en í desember síðastliðnum komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að meðferð bæjarins á málinu hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög.

Umræddur maður heitir Óskar Steinn Ómarsson en hann greindi frá því opinberlega sumarið 2024 að þremur vikum eftir ráðninguna hafi bærinn dregið hana til baka í kjölfar þess að hann gagnrýndi opinberlega ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar, sem samanstendur af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, um að loka ungmennahúsinu Hamrinum. Taldi Óskar augljóst að verið væri að refsa honum en bærinn rökstuddi afturköllunina með því að eftir á að hyggja hafi menntun Óskars ekki hentað nægilega vel fyrir starfið.

Óskar segir Hafnarfjarðarbæ hafa refsað sér fyrir gagnrýnina

Hafnarfjarðarbær veitti takmörkuð svör við fyrirspurn DV um málið þar sem meðal annars var spurt á hvaða grundvelli mat á menntun Óskar breyttist svo mjög á þessum þremur vikum eftir að hann var ráðinn.

Hafnarfjarðarbær svarar fyrir að hafa dregið ráðningu Óskars til baka í kjölfar gagnrýni hans á meirihluta bæjarstjórnar

Lögin

Óskar lagði í kjölfarið fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis sem sendi frá sér álit um málið í desember síðastliðnum. Niðurstaða umboðsmanns var sú að ekki væri hægt að fallast á þau rök Hafnarfjarðarbæjar að umsækjendur hefðu mátt gera ráð fyrir fyrir því að annað bakkalárnám en á sviði uppeldis- og menntunarfræði eða tómstundafræði eða „sambærilegt“ því útilokaði þá frá starfinu, en Óskar er með próf í stjórnmálafræði.

Umboðsmaður sagði að þvert á móti hefði orðalag auglýsingarinnar gefið til kynna að einstaklingar með bakkalárpróf af öðrum sviðum kæmu til greina, svo lengi sem námið nýttist í starfinu. Ekki yrði annað ráðið en hæfni umsækjandans (Óskars, innsk. DV) til að gegna starfinu hefði verið metin og hann fullnægt kröfum samkvæmt auglýsingunni. Ekki væri því hægt að fallast á að skilyrði hefðu verið til þess að afturkalla ráðninguna.

Þá hefði ekki verið upplýst að til stæði að afturkalla ákvörðunina og Óskari því ekki gefist tækifæri til að tjá sig um efni málsins áður en ráðningin var afturkölluð. Sama gegndi um nýjar upplýsingar sem komið hefðu fram við meðferð málsins. Það hefði borið að upplýsa um þær og veita færi á að nýta andmælarétt. Meðferð málsins hefði því ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög.

Bætur

Óskar skrifaði grein á Vísi eftir að álit umboðsmanns lá fyrir. Þar skrifaði hann meðal annars:

„Rannsókn Umboðsmanns varpar ljósi á undarleg tölvupóstsamskipti sem embættismenn bæjarins höfðu áður fullyrt að væru ekki til. Nánar tiltekið tölvupóst sem mannauðsstjóri bæjarins sendi skólastjóranum þremur vikum eftir að ég var ráðinn í starfið og sama dag og skoðanagrein mín um lokun ungmennahússins Hamarsins birtist á Vísi. Tölvupósturinn innihélt skjáskot af ummælum mínum á samfélagsmiðlum. Morguninn eftir tilkynnti skólastjórinn mér að hann hefði fallið frá ráðningunni.“

Á bæjarráðsfundinum í gær spurðu fulltrúar Samfylkingarinnar, sem er í minnihluta í bæjarstjórn, um stöðu málsins og upplýsti þá Valdimar Víðisson bæjarstjóri, sem er jafnframt oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn, að náðst hefði sátt um greiðslu skaðabóta.

Í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í fundargerðinni segir að upphæð bótanna samkvæmt upplýsingum bæjarstjórans sé trúnaðarmál, en ljóst sé að með þessu sé viðurkennd bótaskylda bæjarins í málinu. Janframt segir að ljóst sé að æðsta stjórnsýsla bæjarins hafi ekki staðið sig í stykkinu og mikilvægt sé að koma í veg fyrir mistök af þessum toga í framtíðinni.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

„Árásin á hann í Áramótaskaupinu var til hreinnar skammar“

„Árásin á hann í Áramótaskaupinu var til hreinnar skammar“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Faðir ICE-fulltrúans kemur honum til varnar – „Ég gæti ekki verið stoltari af honum“

Faðir ICE-fulltrúans kemur honum til varnar – „Ég gæti ekki verið stoltari af honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn fékk óvæntan tölvupóst í morgun – Sýnir að fólk er almennt góðhjartað

Björn fékk óvæntan tölvupóst í morgun – Sýnir að fólk er almennt góðhjartað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ætla ekki að birta dóm fyrir alvarlegt dýraníð

Ætla ekki að birta dóm fyrir alvarlegt dýraníð