
Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar á föstudag var enn á ný mótmælt þeirri þjónustuskerðingu Vegagerðarinnar á leið 55 í landsbyggðarstrætó, sem ekur frá Keflavíkurflugvelli um Reykjanesbæ og til höfuðborgarsvæðisins, sem tók gildi nú um áramótin. Segir bæjarráð skerðinguna fordæmalausa þegar kemur að öðrum stórum sveitarfélögum á landsbyggðinni.
Þjónustuskerðingin er aðallega fólgin í því að nú er aðeins biðstöð á tveimur stöðum fyrir leið 55 í Reykjanesbæ í stað átta áður en bærinn hefur þurft að leggja út í aukinn kostnað til að efla strætókerfið innanbæjar á móti, til að fólk eigi betri möguleika á því að komast á biðstöðvarnar, en bæjarbúar þyrftu annars í mörgum tilfellum að ganga marga kílómetra til að komast þangað.
DV hefur áður greint frá gagnrýni bæjarráðs Reykjanesbæjar á þjónustuskerðinguna og ábendingum ráðsins um það skjóti skökku við að ríkisstofnun standi fyrir skerðingu á þjónustu almenningssamgangna á landsbyggðinni á meðan ríkið leggi meira til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi eflingu þjónustunnar, einkum með aukinni ferðatíðni.
Vegagerðin svarar mótmælunum þannig að það sé hennar hlutverk að hafa yfirumsjón með almenningssamgöngum milli sveitarfélaga landsins en ekki innan þeirra.
Í fundargerð bæjarráðs Reykjanesbæjar frá því á föstudaginn síðastliðinn segir að lagt hafi verið fram minnisblað um breytingar á akstri almenningsvagna innn bæjarins árið 2026 sem séu tilkomnar vegna skerðingar á þjónustu sem Vegagerðin hafi boðað að tæki gildi áramótin 2025-2026 og að auki verði akstur hafinn á sunnudögum samkvæmt sama leiðarkerfi og sé í gildi á laugardögum í dag.
Aukið hafi verið við fjárheimildir í almenningssamgöngum í fjárhagsáætlun 2026 til að mæta þeim kostnaði sem hljótist af þjónustuskerðingu Vegagerðarinnar við íbúa í Reykjanesbæ. Ljóst sé að sú þjónustuskerðing sem íbúar á Suðurnesjum verði fyrir eigi sér ekki fordæmi í öðrum stórum sveitarfélögum á landsbyggðinni.
Fyrir þeirri staðhæfingu að þjónustuskerðingin sé fordæmalaus þegar kemur að öðrum stórum sveitarfélögum á landsbyggðinni eru ekki færð rök í fundargerðinni. Eins og fram kom í fyrri umfjöllun DV um málið, sem nálgast má hér að ofan, voru þær breytingar meðal annars gerðar á öðrum leiðum landsbyggðarstrætó að ferðum milli Reykjavíkur og Akureyrar var fækkað og biðstöðvum á leiðinni milli Selfoss og Reykjavíkur fækkað.