fbpx
Mánudagur 05.janúar 2026
Fréttir

Krefjast íbúafundar vegna kaffistofu Samhjálpar

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 4. janúar 2026 10:30

Grensásvegur 44-48 en kaffistofan á að vera í nr. 46. Mynd: Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV hefur fjallað um áður hafa íbúar og eigendur fyrirtækja í nágrenni húsnæðis við Grensásveg 46 mótmælt harðlega áformum um að kaffistofa Samhjálpar verði þar. Í athugasemdum við grenndarkynningu vegna framkvæmda í húsnæðinu, sem stöðvaðar voru eftir andmæli nágrannanna, er meðal annars krafist opins íbúafundar vegna málsins og lögð þung áhersla á að starfsemi af þessu tagi eigi ekki heima í íbúðahverfi og í námunda við grunnskóla.

Frestur til að skila inn athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar rennur út á morgun. Eins og DV greindi frá í nóvember hafa fyrirtækjaeigendur og íbúar í næsta nágrenni mótmælt áformunum meðal annars á grundvelli þess að hætta, ónæði og slæm umgengni muni stafa af skjólstæðingum kaffistofunnar.

Uggandi yfir flutningi Kaffistofu Samhjálpar á Grensásveg – „Fólk er hrætt og vill bara fara að selja“

Forsvarsfólk Samhjálpar sagði hins vegar enga hættu stafa af kaffistofunni og skjólstæðingum hennar. Framkvæmdir við húsnæðið voru hafnar en voru stöðvaðar á meðan grenndarkynningin stæði yfir.

Í umræðum á samfélagsmiðlum, m.a. í íbúahópi hverfisins, voru hins vegar ekki allir sem tóku undir andmælin og sögðu að Samhjálp yrði að fá vera einhvers staðar með sína kaffistofu.

Sumir íbúar fagna umdeildum flutningi Kaffistofu Samhjálpar í hverfið – „Einhvers staðar verða viðkvæmir að vera“

Kaffistofan hefur verið til bráðabirgða í húsnæði Fíladelfíukirkjunnar og prestur kirkjunnar segir ekkert ónæði hafa verið frá kaffistofunni. Umgengnin á svæðinu hefði ekkert versnað og starfsfólk Samhjálpar passað vel upp á að allt væri í lagi. Sagði hann ekki rétt sem haldið hefði verið fram að notendur kaffistofunnar væru aðallega fólk í óreglu.

Helgi segir Samhjálp vera góða nágranna – „Aumingi er sá sem níðist á þeim sem eru minni máttar“

Óregla

Grenndarkynningin beinist sérstaklega að íbúum og eigendum í næstu húsum. Þegar þessi orð eru rituð hafa á þriðja tug athugasemda verið gerðar við kynninguna. Sumir taka það sérstaklega fram að þeir búi eða eigi fyrirtæki í nágrenninu eða séu foreldrar barna í þeim grunnskólum sem eru í nágrenninu en Breiðagerðisskóli er í um 330 metra fjarlægð, til austurs, en Hvassaleitisskóli um 200 metra, í vesturátt.

Það er þó ekki tekið sérstaklega fram í öllum athugasemdum hvort að viðkomandi búi í næsta nágrenni við húsnæðið á Grensásvegi. Athugasemdirnar eru nokkuð samhljóða, lýst er yfir áhyggjum af vímuefnanoktun notenda kaffistofunnar og öryggi barna sem búi í nágrenninu þar á meðal barna sem búi í sama húsnæði og kaffistofan á að vera í en Grensásvegur 44-48 eru í sambyggðu húsi.

Er í mörgum athugasemdanna vitnað í þessi orð um kaffistofuna á vefsíðu Samhjálpar:

„Athugið að Kaffistofa Samhjálpar er eingöngu fyrir þá sem náð hafa 18 ára aldri og ekki viðeigandi að börn komi hingað inn. Í Kaffistofu Samhjálpar sækir meðal annars fólk sem neytir áfengis- og fíkniefna auk fólks sem glímir við andleg og líkamleg veikindi af ýmsum toga.“

Í mörgum athugasemdanna er lögð mikil áhersla á að fyrirsjáanlegt sé að fólk sem þessi lýsing á við um muni þar með vera daglega á svæðinu. Sumir taka það þó sérstaklega fram að þeir séu ekki andsnúnir starfsemi kaffistofunnar en hún eigi einfaldlega ekki heima í íbúðahverfi. Íbúi í næsta nágrenni. sem á barn sem er nemandi í Breiðagerðiskóla, vísar til lagalegrar ábyrgðar Reykjavíkurborgar á því að tryggja velferð barna.

Íbúafundur

Annað foreldri og íbúi í nágrenninu vísar eins og fleiri sem gera athugasemdir í fréttir fjölmiðla af ofbeldisverkum og vopnaburði á kaffistofunni. Segist viðkomandi hafa sjálfur orðið fyrir árás fíkils, í Kópavogi, og eins og aðrir lýsir hann yfir áhyggjum af öryggi barna í hverfinu sem eigi iðulega leið framhjá húsnæðinu þar sem kaffistofan á að vera.

Í athugasemd sem dagsett er í gær er lagt fram bréf undirritað af 38 íbúum í nágrenninu þar sem farið er fram á opinn íbúafund með skipulagsfulltrúa og öðrum fulltrúum borgarinnar, lögreglu og Samhjálp. Óskað er eftir að á fundinum verði farið yfir umfang starfseminnar, opnunartíma, fjölda gesta, öryggismál og viðbragðsáætlanir, tilhögun aðkomu og bílastæða, og áhrif á íbúðarhverfið:

„Við teljum mikilvægt að íbúar eigi kost á að fá skýrar upplýsingar og koma á framfæri sjónarmiðum áður en byggingarleyfi er afgreitt,“ segir í bréfinu.

Er í athugasemdinni eins og raunar í fleiri því haldið fram að grenndarkynningin sé alls ekki nægilega ítarleg og í hana vanti nánari upplýsingar um fyrirséð áhrif á svæðið, af starfsemi kaffistofunnar.

Í tveimur öðrum athugasemdum sem dagsettar eru í gær er tekið undir þessar kröfur um opinn íbúafund.

Frestur til að skila inn athugasemdum rennur eins og áður segir út á morgun en það á síðan væntanlega eftir að koma í ljós hvert framhaldið verður og hvort orðið verði við því að efna til opins fundar með íbúum og eigendum fyrirtækja, til að ræða þessar áhyggjur þeirra.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Trump mun bara færast í aukana eftir atburði dagsins og Ísland þurfi að bregðast við

Trump mun bara færast í aukana eftir atburði dagsins og Ísland þurfi að bregðast við
Fréttir
Í gær

Alvarlegt umferðarslys á Biskupstungnabraut

Alvarlegt umferðarslys á Biskupstungnabraut
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir fullyrðingar um aukna áfengisneyslu landans og aukna unglingadrykkju vera rangar

Segir fullyrðingar um aukna áfengisneyslu landans og aukna unglingadrykkju vera rangar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hæstiréttur neitar að taka fyrir mál manns sem nuddaði rass stjúpdóttur sinnar

Hæstiréttur neitar að taka fyrir mál manns sem nuddaði rass stjúpdóttur sinnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Austurbrú sagði upp konu í fæðingarorlofi

Austurbrú sagði upp konu í fæðingarorlofi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lét lífið í slysi á Hvolsvelli

Lét lífið í slysi á Hvolsvelli