

Hin spænska Cecilia Gimenéz Zueco, sem „lagaði“ veggmyndina af Jésú, Ecce Homo, er látin 94 ára að aldri. Lagfæringin er ein sú alræmdasta í sögunni og má segja að hún hafi í raun búið til alveg nýtt listaverk, gjörólíkt upprunalegu myndinni.
Ecce homo (latína: „Sjáið manninn“) var málað af spænska listamanninum Elías García Martínez árið 1930 í kirkju í borginni Borja í norðausturhluta landsins. Myndin er einföld mynd af Jésú kristi með þyrnikórónu, lítandi upp til himna, og var látið líta út fyrir að myndin væri á bókrollu.
Fæstir gáfu myndinni gaum og flestir sem til hennar þekktu voru á einu máli um að hún væri ósköp venjuleg mynd af Jésu og hefði ekki mikið listrænt gildi. En árið 2012 voru augu heimsins á veggmyndinni eftir að Zueco, þá 81 árs áhugamannalistamaður fékk að spreyta sig á að gera myndina upp, eða „laga hana“ eins og þarf að gera reglulega við gömul listaverk.
Það var menningarfélag Borja borgar sem vakti athygli á handbragði Zueco og birti samhliða mynd af veggmyndinni fyrir og eftir að hún hafði lokið sér af við „lagfæringarnar.“ Birti félagið grein um þetta á bloggsíðu undir yfirskriftinni: „Ólýsanleg staðreynd.“
Þeir sem starfa við að lagfæra málverk og önnur listaverk starfa eftir ströngum siðferðislegum reglum. Hlutverk þeirra á aldrei að vera að bæta neinu við listaverkið heldur einungis að varðveita það til framtíðar með ýmsum tækjum og tólum sem og að fylla inn í göt til að draga athygli augans frá skemmdunum. Það sem Zueco gerði var hins vegar eitthvað allt annað. Hin hefðbundna veggmynd af Kristi var skyndilega orðin eins og abstraktverk eða jafn vel karíkatúr af upprunalega verkinu. Þetta var í raun alveg nýtt verk og skemmdarverk.
Fyrir utan það að andlitið var orðið gerbreytt, þá var skeggið farið og þyrnikórónan orðin að húfu eða loðkraga. Í stað þess að horfa upp til himna horfði Kristur nú beint á áhorfandann. Sumir myndina frekar líkjast dýri heldur en manni.
Netverjar gripu myndina og gerðu óspart grín að henni á samfélagsmiðlasíðum svo sem Reddit og Twitter. Stórir fréttamiðlar fjölluðu síðan um málið og greindu frá því hvernig þessi ófögnuður varð til. „Skepnu Jésús“, „Kartöflu Jésús“ og „Apa Jésús“ voru háðsyrði sem notuð voru um Ecce homo.
Sjaldan hefur endurgerð á listaverki fengið jafn mikla athygli, hugsanlega ef frá er talin altaristaflan í Gent þegar andlit hins dularfulla lambs var afhjúpað mörgum til skelfingar. En ólíkt Ecce homo var sú lagfæring raunveruleg en ekki slátrun á upprunalegri túlkun listamannsins.
Zueco sjálf var miður sín. Hún vildi ekki tala við fjölmiðla en eins og segir í umfjöllun Art Net um málið þá sögðu fjölskyldumeðlimir hennar að hún hafi grátið alla daga í langan tíma eftir að málið komst í fjölmiðla og neitaði sér um mat.

Hún loks talaði við dagblaðið New York Times árið 2014 og sagðist vera gjörsamlega miður sín yfir því að heiminum þætti sem „klikkuð gömul kona“ hafi eyðilagt afar verðmæta mynd. Þá sagði hún einnig að myndin hefði ekki verið kláruð þegar bloggið var birt.
En svo gerðist svolítið magnað. Fólk fór að kunna að meta hina „nýju“ veggmynd af Jésú og eignaði hana Zueco. Mörgum fannst myndin falleg og einstök í sínum ljótleika, nýmóðins.
En hvaða skoðanir sem fólk hafði á verkinu þá er ljóst að hún vakti gríðarlega mikla athygli og fólk flykktist til Borja til þess að sjá hana, talað er um pílagríma í því samhengi. Í fyrsta sinn frá árinu 1930 skipti myndin raunverulegu máli. Málið reyndist að lokum jákvætt fyrir Zueco líka því að hún fékk boð um að halda myndlistarsýningar og um að mála einstakar myndir fyrir greiðslu.
Eduardo Arilla tilkynnti andlát Zueco á samfélagsmiðlum og lýsti henni sem sterkri konu og duglegri móður.
„Heimurinn þekkti hana í gegnum þessa litlu sögu en við öll þekktum nú þegar hversu mikið stórmenni hún var og mun varðveitast í minningunni,“ sagði Arilla.